31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1113 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1929

Halldór Steinsson:

Jeg á hjer fáar brtt. á þskj. 642 og ætla þá að gera örlitla grein fyrir þeim.

Fyrsta brtt. mín, sú III. í röðinni. er um 400 kr. styrk til kvenfjelagsins á Hellissandi, til hjúkrunarstarfsemi. Fjelag þetta hefir í tveim síðustu fjárlögum notið nokkurs styrks, er nam fyrra árið 500 kr. og síðara árið 400 kr. Fjelagið hefir látið margt gott af sjer leiða og nú síðari árin beitt sjer aðallega fyrir hjúkrunarstarfsemi og orðið að miklu liði. Á Sandi eru nú um 600 manns, en fjöldi þeirra verður að fara að heiman í atvinnuleit yfir vor- og sumartímann, en mörg heimili þannig sett, að konan er á meðan alein yfir börnunum. Komi veikindi upp á einhverju slíku heimili, hafa oft hlotist vandræði af, vegna þess að enginn var til að hjúkra. Úr þessu hefir fjelagið reynt að bæta, með því að ráða í þjónustu sína hjúkrunarkonu, er það hefir svo lánað til hjálpar á bágstöddum heimilum, sumpart fyrir mjög væga borgun eða þá enga, því þarna eins og annarsstaðar eru mörg heimili, sem vegna fátæktar eiga mjög erfitt með að láta nokkuð af hendi rakna. Fjelagið hefir einnig lagt í ýmsan annan kostnað og skuldar nú eitthvað, en sjer fram á, að það verði að draga úr hjúkrunarstarfsemi sinni, ef það nýtur ekki þessa styrks úr ríkissjóði. Þess vegna finst mjer það vel þess vert, að fjelagið njóti þessa styrks áfram, og þar sem hv. deild hefir svo að segja samþykt þetta í einu hljóði áður, vænti jeg, að hún sje sama sinnis enn.

Næsta brtt. mín er sú VI. í röðinni, um styrk til Stykkishólmsvegar. Þessi vegur hefir nærri undantekningarlaust verið tekinn upp í fjárlagafrv. stj., og er mjer því næsta óskiljanlegt, hvers vegna hann hefir verið feldur niður úr stjfrv. að þessu sinni. Það hefir nú staðið yfir í meira en fjórðung aldar að byggja þennan veg, og er mjer nær að halda, að enginn þjóðvegur hafi orðið eins útundan eða miðað jafnlítið áfram. Þessi vegur liggur þó yfir blómlegar búsældarsveitir og á auk þess að tengja saman hjeruðin við Breiðafjörð og Faxaflóa. Jeg þykist viss um, að þeir hv. þdm., sem riðið hafa um þessar blómlegu sveitir, sem af náttúrunnar hendi eru þann veg gerðar, að þar getur fjöldi manna lifað góðu lífi, hljóti að skilja þá nauðsyn, sem þessum hjeruðum er á því að fá þessum vegi sem fyrst lokið. Finst mjer því óþarfi að orðlengja frekar um það, en sný mjer að þriðju brtt. minni undir XXIX. lið á sama þskj., um 15 þús. kr. styrk til hafnarbóta í Ólafsvík, en í beinu áframhaldi er svo fjórða brtt. mín, undir XXXVI. lið, þar sem farið er fram á, að ríkissjóður ábyrgist 15 þús. kr. lán í sama skyni.

Eins og kunnugt er, voru á Alþingj 1919 afgreidd lög um hafnargerð í Ólafsvík, sem gert var ráð fyrir, að eftir þáverandi verðlagi mundi kosta um 750 þús. kr., og átti ríkissjóðurað leggja fram ¼ af þeim kostnaði, en taka ábyrgð á 3/4 hlutum kostnaðarins. Öll árin síðan hefir fjárhagur ríkissjóðs verið þröngur, og því ekkert viðlit að ráðast í þessa hafnarbyggingu. Hinsvegar hefir þó verið reynt að byrja á þessu mannvirki með því að byggja hafnarskjólgarð fyrir mótorbáta. Höfnin liggur, eins og kunnugt er, fyrir opnu hafi, og má segja, að ógerlegt sje eins og er að láta mótorbáta ganga þaðan. Það hafa á undanförnum 3 árum verið veittar úr ríkissjóði 44 þús. kr. til þessa hafnargarðs, en hreppurinn lagt til um 25 þús. kr., svo að búið er að vinna að þessum garði fyrir tæpar 70 þús. kr. Lengd garðsins er áætluð um 192 metrar, en búið að byggja 138 m., og vantar þá 54 m. til þess, að garðurinn sje fullgerður. Garðurinn skýlir bæði í vestan-, norðan- og austanátt; í sunnanátt er ekki um mikla sjóa að ræða, aðeins vindbáru, svo að þegar garðurinn er fullgerður, þá má gera ráð fyrir, að þarna verði nokkurnveginn trygt lægi fyrir mótorbáta. Botninn er ágætur, og hefir garðurinn alls ekki haggast þessi fjögur ár, sem bygging hans hefir staðið yfir, þrátt fyrir mikið hafrót, er á honum hefir mætt. En það er fyrir mjer mikils virði, þegar miðað er við alla þá tugi þúsunda, sem farið hafa forgörðum annarsstaðar við land, þar sem slíkar hafnarbætur hafa verið framkvæmdar. Það má því segja, að ekki vanti nema herslumuninn til þess, að þarna sje fengin örugg og trygg mótorbátahöfn. Og þegar sá herslumunur kostar ríkissjóð ekki meira en 30 þús. kr., en hinsvegar um það að ræða að lyfta upp mótorbátaútvegi í fjölmennu kauptúni, og með tilliti til þess, að þetta er lokastyrkur, finst mjer, að jeg geti vænst þess, að hv. deild taki vel í þetta mál. Mjer finst líka, að þegar Alþingi hefir áður lagt dóm sinn á nauðsyn málsins með því að leggja í þetta mannvirki tugi þúsunda, þá geti ekki komið til mála að kippa að sjer hendinni og stöðva verkið, þar sem ekki er eftir nema herslumunurinn til þess að ná markinu. Jeg hirði svo ekki um að hafa þessi orð fleiri, enda vænti jeg, að hv. deild sjái og skilji þá nauðsyn, sem liggur á bak við þessar brtt. mínar.