17.03.1928
Neðri deild: 50. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

15. mál, strandferðaskip

Gunnar Sigurðsson:

* Jeg ætla í mjög stuttu máli að svara hv. þm. V.-Húnv. Hv. þm. sagði gömlu fyndnisöguna, sem höfð er eftir bónda úr sveit, að „þar væri fallegt, þegar vel veiddist“. Mjer duttu í hug ummæli, sem lærður prófessor á að hafa haft um ritgerð, sem hann var að dæma: „Það, sem er gott, er ekki nýtt, og það, sem er nýtt, er ekki gott“. En jeg verð að segja hv. þm., að mjer finst óviðeigandi að vera að blanda náttúrufegurðinni þar austur frá inn í það, hvort þörf sje á bættum samgöngum eða ekki.

Aðalatriðið í þessu máli er það, að hjer er um að ræða langstærsta undirlendið á landinu og þar á að byrja á nýtísku samgöngum. Jeg mundi telja þetta jafnsjálfsagt, hvar sem jeg væri á landinu, svo að óþarfi er að bera mjer á brýn hreppapólitík.

Hv. þm. sagði, að mjer bæri ekki saman við frsm. meiri hl. um flutningsgjöldin að austan. Hann mun þar eiga við ummæli mín á nefndarfundi. Þær tölur, sem standa í nál. okkar, hefi jeg skrifað undir, og þær eru rjettar. En hitt sagði jeg, að það er ekkert fast skipulag komið á flutninginn að austan, og þess vegna er hann dýrari en hann þyrfti að vera.

*Hjer vantar kafla í ræðuna. P. O