31.03.1928
Efri deild: 62. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

1. mál, fjárlög 1929

Guðmundur Ólafsson:

Jeg þurfti að segja fáein orð vegna tveggja brtt., sem jeg hefi borið fram og eru að finna á þskj. 642.

Þó að jeg hafi nú í nokkur ár átt sæti á þingi, þá hafa margir meiri æfingu mjer að tala fyrir brtt. við fjárlagafrv., enda hefi jeg venjulega haft lítið af slíku tægi í eftirdragi. En af því að erfitt er að fá menn til þess að halda kyrru fyrir í hv. deild og enginn var á mælendaskrá, er jeg fór úr sæti mínu, þá skal jeg ekki tefja lengi fyrir því, að hægt verði að ganga til atkv.

Jeg hefi borið fram VIII. brtt. á þskj. 642, um 12 þús. kr. til Langadalsvegar. Gæti jeg hagað orðum mínum líkt og hv. þm. Snæf. (HSteins) og sagt, að þessi vegur væri búinn að vera alllengi á leiðinni. Þegar best gekk, fjekk hann oft dálítið í fjárlögum, og komst veitingin til hans eitt sinn upp í 20 þús. kr. Annars eru 15 eða 16 ár síðan fyrst var til hans veitt, en venjulega hefir veitingin verið svo lítil, að henni hefir svipað til meðalainntöku hjá hómópata. Þó hefir þessi vegur talist og telst til þjóðvega; en mjög er honum ábóta- vant enn. Áður lá vegurinn t. d. ýmist uppi í háum brekkum eða niðri í engjum dalbúa.

Hv. 5. landsk. (JBald) talaði um það áðan, að sjer þætti mikið, ef það tæki 8 ár að leggja veginn yfir Fjarðarheiði, og kostar hann þó mörgum sinnum meira fje en hjer er farið fram á. Mjer kom í hug, er jeg heyrði orð hv. þm., að lengi hefði honum þótt treinast bygging Langadalsvegar, hefði hann átt að mæla fyrir honum. En fáist nú þessar 12 þús. kr., vænti jeg, að takast megi að gjöra það, sem ógert er af veginum, fært hestvögnum. Skal jeg þó ekkert um það fullyrða, en víða er fjár þörf, og læt jeg því við þessa upphæð sitja að sinni.

Þá á jeg XII. brtt. á sama þskj. Hún er við 14. gr. B.II., lokastyrkur til Árna Björnssonar, til háskólanáms. Þessi maður er úr mínu hjeraði og lauk stúdentsprófi fyrir 4 árum, að jeg hygg. Síðan hefir hann, svo að satt sje frá sagt, notið hins lögákveðna stúdentastyrks. Les hann tryggingafræði og hefir sókst námið vel eftir ástæðum. Hafa legið fyrir hv. fjvn. vottorð um próf hans í heimspeki og sömuleiðis fyrri hluta embættisprófs. Fái hann styrkinn, býst hann við að ljúka náminu í byrjun næsta árs. En hann er af fátækum kominn og hefir lítið fje fengið úr föðurgarði; hefir enda orðið að vinna fyrir sjer, með því að námsstyrkurinn hefir ekki hrokkið. Vona jeg, að hv. deild láti sjer skiljast, að meiri er þörf styrks, þegar svo stendur á, en ella. Ef til vill mætti segja, að hann hefði hafið námið af lítilli fyrirhyggju, en þegar svo langt er komið, ætla jeg að sjá megi, að hann hafi verið fyllilega fær um það. Og jeg vona, að orðið „lokastyrkur“, sem jeg nota um þessa upphæð, verði nú meira rjettnefni en oft áður í fjárlögunum. Jeg get fullvissað hv. deild um, að maðurinn er í góðu meðallagi greindur, hirði ekki um að taka dýpra í árinni, þótt venjulegt sje, enda af góðu bergi brotinn. Það er mjer kunnugt um. Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þessa brtt., en held, að enginn hv. þdm. mundi hafa ósóma af að greiða henni atkv.