04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

1. mál, fjárlög 1929

Erlingur Friðjónsson:

Það ræður af líkum, að hæstv. forseti fái ekki að ganga til atkvæða strax um þetta mál, því að allmargir eiga enn eftir að lýsa tillögum, sem. þeir flytja við þessa umr. fjárlaganna. Jeg ætla að fara hjer örfáum orðum um þær tillögur, sem jeg hefi hjer fram að færa, og skal þá strax geta þess, út af orðum hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að jeg geri mig að sönnu sekan um það að flytja hjer fram tillögu, sem sennilega er í hans augum afturganga, af því að hún var fyrst borin fram við 2. umr. þessa máls, en kemur nú fram aftur í dálítið annari mynd. Jeg kem síðar að því að tala fyrir þeirri till. og mun þá gera nokkra grein fyrir því, hvers vegna jeg hefi komið með hana aftur í breyttri mynd.

Fyrsta till., sem jeg ber fram, var tekin aftur við 2. umr., en hún er um styrk til útgáfufjelags Flateyjarbókar á Akureyri. Síðan þessi tillaga kom fram við 2. umr., hefir verið samþykt nokkurt fjárframlag til útgáfu fornra bóka til útgáfufjelags, sem ætlar að gefa þær út, og meðal þeirra bóka, sem þetta fjelag ætlar að gefa út, verður að minsta kosti nokkur hluti af Flateyjarbók, en líklega ekki öll. Það er því ef til vill hægt að færa það fram sem rök fyrir að fella þennan styrk, sem jeg fer fram á, að veittur sje til útgáfunnar á Akureyri, að hún verði gefin út að nokkru leyti eða ef til vill að öllu leyti af þessu útgáfufjelagi fornra bóka. En jeg hefi samt leyft mjer að koma aftur með þessa tillögu, en hefi sett við hana varatill., sem lækkar fjárupphæðina um helming. Jeg veit, að jeg þarf ekki að flytja langt mál fyrir hv. deildarmönnum um það, að hjer er um að ræða mjög þarft verk, þar sem er útgáfa þessa merkilega rits, svo að það er óþarft að hafa ummæli mín um þessa tillögu mjög mörg. Jeg ætla því ekki að fara fleiri orðum um hana.

Jeg hefi borið hjer fram tvær brtt., sem ekki fara fram á nein fjárútlát fyrir ríkissjóð, heldur eru þær fram komnar vegna þess, að við 2. umr. þessa máls var samþykt að greiða Jóni Ófeigssyni kennara , 2000 kr., og í þeim lið er innifalið ákvæði, sem mjer þótti algerlega óþarft að láta fylgja þeim lið. Þetta ákvæði, sem hjer er um að ræða, eru orðin „fyrsta greiðsla af fjórum“. En ef þingið gengur þannig frá þeirri fjárupphæð, sem þegar er búið að samþykkja að greiða Jóni Ófeigssyni, þá er um leið búið að binda næstu þing því skilyrði að greiða 2000 kr. árlega næstu þrjú ár, þar til þessi maður hefir fengið 8000 kr. greiddar sem uppbót fyrir vinnu við aðstoð á útgáfu ísl.-danskrar orðabókar, sem gefin hefir verið út af Sigfúsi Blöndal. Fjvn. leit þannig á, að það væri ekki ástæða til að greiða Jóni Ófeigssyni meira heldur en hann er þegar búinn að fá fyrir þessa aðstoð. Maður þessi hefir fengið um 20000 kr. fyrir aðstoð sína við útgáfuna, og þótt það sje fært fram sem rök fyrir meiri greiðslu handa þessum manni, að hann hafi unnið miklu meira verk við útgáfu bókarinnar heldur en samið var um við hann upphaflega, þá leit fjvn. svo á, að maður þessi hafi fengið fulla greiðslu fyrir sitt verk, þótt honum væri ekki greitt meira. Samningurinn við þennan mann kvað hafa verið á þá leið, að hann fengi 400 kr. laun á mánuði fyrir 4 tíma vinnu á dag. En eftir sögn þeirra manna, sem hafa farið fram á, að honum væri greidd þessi uppbót, 8000 kr., á þessi maður að hafa unnið helmingi meira, eða 8 stundir á dag. En jafnvel þótt maðurinn hefði unnið svo, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að með þessum launum hafi hann fengið álíka hátt kaup og þingmönnum er ætlað fyrir setu sína á Alþingi, og jeg vil ekki viðurkenna annað en að það sje sæmilegt kaup fyrir hvern starfsmann sem er, á meðan það er viðurkent sæmilegt kaup fyrir íslenska þingmenn, sem mjer dettur ekki í hug annað en að telja sæmilegt kaup. Fyrst þingið hefir nú samþykt að greiða 2000 kr. til viðbótar handa þessum manni, vildi jeg reyna að forða þinginu frá að greiða 6000 kr. í viðbót, eins og verður að vera, ef liðurinn verður orðaður eins og hann nú stendur í fjárlagafrv. Fyrir því er brtt. borin fram.

Brtt. 1 undir sama rómverskum tölulið er um það, að af því fje, sem þegar er búið að samþykkja, að veitt verði til útgáfu ísl.-danskrar orðabókar, 4000 kr., verði veittar 2500 kr., ef Danir leggja þar á móti 8000 kr., svo að þarna myndast 12000 kr. orðabókarsjóður, verði greitt prentsmiðjunni Gutenberg, sem stendur alveg eins á með og Jón Ófeigsson, að hún hefir skaðast um 20000 kr. á því að prenta bókina. Fyrst nú þingið hefir gengið inn á það að greiða í þennan orðabókarsjóð 4000 kr. og gerir ráð fyrir, að Danir leggi þar á móti helmingi hærri upphæð, og að útgáfa þessi hefir upphaflega verið kostuð af Dönum og Íslendingum í sameiningu, þá tel jeg, að það sje eðlilegt, að nokkur hluti fjárins gangi til að greiða þann halla, sem prentsmiðjan Gutenberg hefir beðið, fyrst Alþingi hefir samþykt að greiða Jóni Ófeigssyni nokkuð. Fjvn. leit þannig á, að það væri slíkt samband á milli þessara liða, að ef annar væri samþyktur, þá væri og rjett að taka hinn til greina að einhverju leyti. Jeg hefi sem fjárveitinganefndarmaður leyft mjer að koma fram með þessar brtt. við þessa tvo liði, sem það samband er á milli, er jeg nú hefi skýrt frá.

Þá á jeg eftir að ræða þá brtt., sem jeg mintist á í upphafi máls míns, að telja mætti afturgöngu í þessari hv. deild. Það er tillaga um það, að ríkisstjórnin ábyrgist alt að 100000 kr. lán til barnaskólabyggingar á Akureyri, gegn þeim tryggingum, er stjórnin tekur gildar. Jeg flutti tillögu um þetta við 2. umr. fjárlagafrv., að ríkisstjórnin ábyrgðist alt að 120 þús. kr., en sú tillaga var feld með litlum atkvæðamun. Eftir því sem jeg framast gat kynt mjer aðstöðu þingsins til máls eins og þessa, þá sá jeg ekki og get ekki sjeð enn þá ástæðu, sem þessi hv. deild gæti haft til að fella aðra eins tillögu og þessa, og jeg benti á það við 2. umr., að þingið 1921 hefði gengið í ábyrgð fyrir alt að 2600000 kr., var mestur hluti þeirrar ábyrgðar fyrir togarafjelög í Reykjavík, en nokkuð fyrir klæðaverksmiðjuna á Álafossi, og það er öllum kunnugt, að ríkið gengur í ábyrgð fyrir einn og annan, og þá ekki síður fyrir kaupstaði landsins en aðra. En fyrst og fremst verður þó að taka tillit til þess, að sá, sem beiðist ábyrgðarinnar, sje fær um að standa svo straum af ábyrgðinni, að ekki komi á herðar ríkinu að greiða upphæðina fyrir þann, sem hlut á að máli.

Jeg geri ekki ráð fyrir því, að hv. deild geti greitt atkv. á móti þessari till., því jeg álít, að hjer sje ekki að ræða um neina hættu fyrir ríkissjóð. Og þó þetta væri felt hjer um daginn, þá býst jeg ekki við, að það hafi verið af því, að hv. dm. hafi álitið, að nokkur hætta stafaði af þessari brtt. minni, heldur hafi þeir verið í svo miklum vígahug, að meginþorri allra brtt., sem þá voru bornar fram, voru feldar. En nú vona jeg, að þessum vígahug verði stilt svo til hófs, að önnur eins till. og þessi verði ekki feld aftur. Væri auðvelt fyrir mig að benda á mörg dæmi þess, að ríkið hefir tekið á sig ábyrgðir, sem eru miklu vafasamari en þessi og minni ástæða hefir verið til. T. d. stendur á sama þskj. og þessi till. mín er á önnur till., sem fjvn. er einhuga um, að samþ. verði, en sem jeg fæ ekki sjeð, að sje á neinn hátt eðlilegri en mín. En það er ábyrgð fyrir mann til þess að koma upp gistihúsi hjer í Reykjavík. Jeg tek í þessu sambandi ekkert tillit til þess manns, sem hjer ræðir um, heldur aðeins aðstæðnanna. Hjer er að ræða um einstakling, sem að sönnu ætlar að koma upp fyrirtæki, sem ýmsir þegnar ísl. ríkisins munu njóta þæginda af, þegar það er komið á laggirnar. En það sama má segja um barnaskólann á Akureyri, því þeir verða óefað margir góðir borgarar, sem þar koma til með að fá sína fyrstu fræðslu. Og því betur verða þeir undirbúnir, sem skólinn er betur útbúinn og fullkomnari, það hefir verið viðurkent af þjóðinni, að ríkið ætti að styrkja barnaskólana, og jeg held, að það sje eins náið samband milli þeirra og ríkisins eins og ríkisins og gistihúss í Reykjavík.

Jeg veit nú ekki, hvort ástæða er til þess að segja fleira um þetta, en skal að endingu geta þess, að þetta er í raun og veru aðeins formsatriði. Væri þessarar ábyrgðar alls ekki þörf, ef hægt væri að fá lán innanlands. En ef leitað er eftir lánum erlendis, þá eru þau vandræði á því, að lán fást þar trauðla nema hægt sje að leggja fram ríkisábyrgð. Væri því ekki um slíkt að ræða hjer, hefði Akureyrarbær ekkert við þessa ábyrgð að gera, því ef hann tæki lán innanlands, gæti hann auðveldlega lagt fram fullgildar tryggingar, sem að öllu leyti mundu verða teknar til greina.