02.02.1928
Efri deild: 12. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2907 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

35. mál, lokunartími sölubúða

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg get vísað til nál. míns, að jeg álít, að frv. veiti bæjarstjórnum of víðtæka heimild til þess að skerða atvinnufrelsi manna, — víðtækari en þá, sem almenningsheill krefur. En samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar má ekki skerða atvinnufrelsi, nema nauðsyn krefji, enda þarf lagaboð til. Jeg álít ekki, að sú forsenda sje til fyrir þessu frumvarpi.

Það álít jeg sjerstaklega rangt, að fá bæjarstjórnum vald til þess að takmarka atvinnufrelsi handiðnamanna, er einungis stunda atvinnuna sjálfir eða með aðstoð síns skylduliðs. Jeg sje ekki, að það verði borin fram nokkur ástæða fyrir slíkri skerðingu. En um ákvæði frv. alment vil jeg benda á það, að núverandi löggjöf um lokunartíma sölubúða í kaupstöðum miðar að því, að takmarka fyrst og fremst starfstíma þess fólks, sem vinnur fyrir kaup á slíkum stöðum; og svo er hún líka kannske nokkur takmörkun á rjetti til þess að hafa þær vörur til sölu, sem þar eru seldar. En það er yfirleitt sá útlendi varningur, sem til landsins flytst, þannig að að því leyti sem sú löggjöf þykir takmarka atvinnuna sjálfa með því að takmarka tímann, þá er það takmörkun á rjetti til þess að selja hjer útlendan varning. En jeg álít ekkert varhugavert við það, þótt innlend framleiðsla nyti þeirra forrjettinda fram yfir sölu á útlendum varningi, að mönnum sje frjálst bæði að stunda sjálfir sína vinnu og hafa afurðir handa sinna á boðstólum einnig á þeim tíma, sem ekki er leyft að hafa opnar sölubúðir fyrir erlendan varning.

Jeg get því yfirleitt ekki fallist á, að það sje rjettlátur grundvöllur, sem þetta frv. byggist á.