04.04.1928
Efri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1219 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

1. mál, fjárlög 1929

Erlingur Friðjónsson:

* Jeg vildi segja fáein orð út af brtt. minni um athugasemd við 15. gr. 46., „Af fje þessu“ o. s. frv., sem hefir verið andmælt dálítið hjer í þessari hv. deild af hv. 6. landsk. (JKr) . Jeg vil reyndar ganga inn á, að það hafi verið nokkur rök fyrir því, sem hv. þm. mælti. Af hinu gæti ef til vill stafað sú hætta, að Danir vildu ekki leggja á móti því fje, sem þegar er búið að samþykkja hjer í deildinni, að lagt verði fram til orðabókarsjóðsins, og vil jeg ógjarnan verða til þess að spilla fyrir því, ef tillagan yrði samþykt, að í þennan sjóð safnist eins og vonað er eftir af þeim, sem óska eftir fjárveitingunni, svo að jeg ætla að taka þessa tillögu aftur. Við nánari íhugun hefi jeg líka komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje loku fyrir það skotið, að einhver fjárupphæð verði veitt til að greiða Gutenberg af því fje, sem safnast í orðabókarsjóðinn, sem endurgreiðslu fyrir þann halla, sem hún hefir orðið fyrir við fyrri útgáfu bókarinnar.

Jeg hefi svo ekki ástæðu til að segja fleira um þetta. Aftur á móti held jeg fast við tillögu mína um breytinguna við 15. gr. 50, þar sem farið er fram á, að orðin „fyrsta greiðsla af fjórum“ falli niður, því að það tel jeg fyllilega eðlilegt, að ekki sje verið að binda hendur þingsins við greiðslur til þessa manns; ef næstu þingum þykir það viðeigandi, að meira verði greitt honum en þegar hefir verið samþykt hjer í þessari hv. deild, þá geta þau sjálfsagt gert það, þótt ekki sje þegar gerð samþykt þar um.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.