25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2960 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Jeg skal ekki svara hæstv. forsrh. öðru en því, að það sýnist auðsjáanlega vera meiri fengur í því fyrir bændur kjördæmisins að ráða vali á tveimur þm. heldur en aðeins einum. En nú er því svo varið, að meiri hluti af kjósendum kjördæmisins er bændur, þótt hæstv. ráðh. máske telji þá eina bændur, sem landbúnað stunda.

Jeg skal ekki víkja mikið að því atriði hjá hæstv. forsrh., þar sem hann sagði, að jeg hefði marglýst því yfir, að kjördæmaskipun væri órjettlát nú. Þó taldi hann, að jeg hefði aðeins sagt það utan þings. — Jeg mun hafa sagt það einmitt í hans eigin húsi og í einkasamtali við hann, að kjördæmaskipunin þyrfti endurbóta við. Jeg sagði, að ef hann hjeldi áfram að næra jafnaðarmenn á molum af borði okkar íhaldsmanna, kæmi til álita, hvort ekki væri rjettara að rjetta þeim væna sneið af framsóknarborðinu. En þótt hæstv. ráðh. vitni hjer í einkasamtal, er fór fram í hans eigin húsakynnum, þá skal það vera ávítulaust af mjer.

Jeg þarf ekki að svara hv. flm. miklu. Það, sem hann sagði, var fremur veigalítið. Hann talaði um, að atkvæðatölurnar við síðustu kosningar hefði ekki verið af marka, þar sem margir af verkamönnum hefðu verið farnir í atvinnuleit. En það var nú svo, að jafnaðarmenn fengu 280 atkv. færra nú en við kosninguna 1926, en íhaldsmenn 180 atkv. meira. Hv. þm. beindi þeirri áskorun til mín, að jeg safnaði mótmælum nokkur hundruð kjósenda í Hafnarfirði móti skiftingunni. Jeg skal gera það með því skilyrði, að hann verði á móti við minni áskorun til hans og gefi yfirlýsingu um það, að hann taki þá þau andmæli til greina.

Þá var það hæstv. dómsmrh., sem kom hingað úr efri deild Alþ. til að skifta sjer af þessu máli, og mátti þar um segja, að „enginn bað þig orð til hneigja“, sem er hluti úr gamalli vísu. (Dómsmrh. JJ: Hvernig er áframhaldið?). Úr því hæstv. mentamálaráðherra óskar þess, skal jeg gjarnan kenna honum þennan vísupart, en jeg tek það skýrt fram, að síðari hendingunni er ekki stefnt að hæstv. ráðh., en hún er þannig: „illur þræll, þú máttir þegja“.

Hæstv. dómsmrh. hefir lítið heyrt af þeim rökum, sem hjer hafa komið fram, enda ber ræða hans þess vott. Hann sagði, að margendurteknar óskir hefðu komið frá kjósendum í Hafnarfirði um skiftingu kjördæmisins. Þetta er alveg tilhæfulaust. Slíkar óskir hafa aldrei komið, nema einu sinni frá bæjarstjórninni þar og á einum þingmálafundi frá einum einasta manni. En þar á móti hefir sýslunefndin lagt á móti því.

Hæstv. dómsmrh. þekkir alls ekki þau rök, sem hjer hafa verið borin fram. Jeg veit ekki nema rjett væri fyrir hann að geyma frekari umræður um þetta mál, þar til hæstv. ráðh. hefir kynt sjer það betur. Vona, að hann við það komist á rjetta braut, og með þessu yrði hann síður til að hefja óþarft málæði í hv. deild.

Jeg er nú víst búinn með nokkuð mikið af þeim tíma, er mjer var leyfður. (Forseti BSv: Þetta er orðin löng athugasemd). Fæ jeg ekki að tala í fjórða sinn? (Forseti BSv: Þm. fær að bera af sjer sakir). Jeg vona þá, að einhver beri á mig sakir.