25.01.1928
Neðri deild: 6. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 2966 í B-deild Alþingistíðinda. (2748)

36. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það má heita furðulegt, að þegar jeg tek hjer til máls í þessari hv. deild, þá koma tveir hv. þm. eins og heimaríkir hundar á móti aðkomumanni og byggja rök ræðu sinnar á því, að leg hafi ekki leyfi til að tala hjer. Það lítur ekki út fyrir, að þessir hv. þm. sjeu of vel að sjer í þingsköpunum.

Háttv. 2. þm. G.-K. gleymir því, að í Hafnarfirði, sem er í hans kjördæmi, hefir verið farið þess á leit á mörgum þingmálafundum að fá kjördæminu skift. Fundir í Hafnarfirði hafa reynst svo andstæðir þm. sínum, að hv. 1. þm. G.-K. varð að fara bónarveg að þeim, svo að þeir bæru ekki fram till. andstæða vilja hans í járnbrautarmálinu. Þeir hafa nú þokað Hafnfirðingum, eða meiri hluta þeirra, yfir í þann stjórnmálaflokk, sem þeir telja sinn mesta andstöðuflokk. Hv. 1. þm. Reykv. heldur því fram, að það sje sjereinkenni Íhaldsflokksins, að hann sje vel sjeður alstaðar. Hann viðurkennir þó, að litlar líkur sjeu til, að hann nái meiri hluta í Hafnarfirði. Við framsóknarmenn vitum líka, að bændur ráða þar ekki, en við viljum þó ekki af þeirri ástæðu hindra það, að Hafnfirðingar nái rjetti sínum.

Við, sem höfum barist fyrir rjetti sveitanna, höfum líka um leið aflað okkur þar trausts og fylgis, enda höfum við ekki reynst eins gagnvart bændum landsins eins og íhaldsmenn hafa reynst alþýðunni í kaupstöðunum. Það sýndi sig best á þingmannafundi, sem haldinn var í stjórnarráðinu veturinn 1923, þegar íhaldsmenn vildu halda við hungri og harðrjetti í Hafnarfirði, aðeins vegna hagsmuna fárra útgerðarmanna þar. Þá sáðu þeir, nú kvíða þeir uppskerunni.

Þegar það kom til umr. hjer í deildinni að byggja meiri háttar sundlaug hjer í Reykjavík fyrir þennan bæ, og jeg, sem er kosinn til þings af bændum, gerðist flm. þess og líklegt er, að ýmsir aðrir fulltrúar bænda á þingi muni styðja þetta mikla hagsmunamál Reykvíkinga, þá rís upp, auk hv. 1. þm. Skagf., sem er að búa sjer til kosningabeitu handa Skagfirðingum, einnig hv. 1. þm. Reykv. og reynir á allan hátt að spilla því máli. Og hvernig var það um árið, þegar farið var fram á 5 þús. kr. styrk til sundlaugar í Þingeyjarsýslu? Þá reis alt Íhaldið gegn því og níddist þá sem oftar á hagsmunum sveitanna. Þannig var innrætið til sveitanna þá.

Við framsóknarmenn höfum þrásinnis bjargað hagsmunum sveitanna. En Íhaldið hefir aldrei bjargað neinu öðru en því, sem „passað“ hefir í „kram“ þrengstu hagsmunaklíku þess og þeirra manna útlendra og innlendra, sem lagt hafa því fje í kosningasjóð. (ÓTh: Er þetta dómsmrh.?). Það er maður, sem er að segja Íhaldinu satt og sem á eftir að segja því margt fleira satt, hvort sem hann verður þá dómsmrh. eða ekki.

Hv. 1. þm. Reykv. mintist á það, að þetta frv. væri afleiðing einhverrar verslunar við stjórnarskiftin í sumar. Hann virðist hafa gleymt því, að allir þm. Framsóknarflokksins í báðum deildum fylgdu málinu á síðasta þingi. Að koma fram með þessar getsakir hjer, mót betri vitund, er ekki annað en fölsun í málinu. Það er víðar falsað en í Norður-Ísafjarðarsýslu; fölsunin er líka flutt inn í þingið. Það er hart, að flokkur, sem hefir barist fyrir þessu sama rjettindamáli þing eftir þing, skuli vera borinn slíkum brigslum. Hv. þm. ætti að lesa þingtíðindin betur; til dæmis kynni hann þá líka að rekast á það, að við björguðum Hafnfirðingum í vandræðum þeirra 1923, og var þá ekki hægt að bregða okkur um kjósendadekur. (MJ: Hæstv. ráðh. ætti sem minst að tala um dekur).

Þá sagði hv. 2. þm. G.-K., að sýslunefnd Gullbringu- og Kjósarsýslu væri mótfallin skiftingunni. Mjer er nú satt að segja ekki kunnugt um það, og ekki heldur hitt, að sýslunefndin nái til Hafnarfjarðarkaupstaðar. Veit hann þá ekki, að hún hefir ekkert með stjórn bæjarmálefna þar að gera? Þessi hv. þm. ætti líka að lesa betur. (ÓTh: Þetta er vísindaleg fáfræði. Þetta er víst ekki að blekkja í málum!).

Háttv. 1. þm. Reykv. snerist á móti mjer í fyrsta málinu, sem jeg hefi borið fram hjer í deildinni, sem um leið var stærsta hagsmunamál Reykjavíkur, sem komið hefir fyrir þingið, og það er næsta skrítið, að einmitt hann skuli reyna að fæla mig frá að vinna fyrir þennan bæ. Það vill til, að Reykjavík er betri en þessi þm. hennar, svo að hún verður ekki látin gjalda hans; með öðrum orðum, hún fær ekki þá meðferð, sem hún ætti skilið, ef hún væri dæmd eftir þessum fyrsta fulltrúa sínum.

Sami háttv. þm. vildi fallast á að bæta við þm. fyrir Hafnarfjörð, ef Gullbringu- og Kjósarsýsla yrði áfram tvímenningskjördæmi. En hvað heldur hann þá, að yrði uppi á teningnum í sumum öðrum kjördæmum landsins, svo sem til dæmis Eyjafirði, SuðurÞingeyjarsýslu og víðar, ef þannig yrði farið að? Nei, það er ekki til neins fyrir háttv. þm. að vera að reyna að þvo sig með slíku; ástæðan er engin önnur en sú, enda er það beint játað, að hann vill ekki, að rjettlætið nái fram að ganga, af því að hann telur það óheppilegt fyrir sinn flokk.

Hv. þm. og hans f]okkur ætti heldur að reyna að ástunda meira rjettlæti og koma þannig fram gagnvart Hafnfirðingum og öðrum, að þeir þyrftu ekki að vera svona hræddir við kjósendur, því að það er þessi ótti eingöngu, sem veldur andstöðu íhaldsmanna við frv.