29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2870)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Nefndin hefir ekki getað orðið sammála um bæði þau frv., sem fram hafa komið um breytingar á þingsköpum Alþingis. Nefndin hefir að vísu öll orðið sammála um frv. á þskj. 221, en svo hefir komið fram annað frv. um utanríkismálanefnd, og um það hefir nefndin klofnað. Um þörf utanríkismálanefndar eru allir sammála, aðeins eru skiftar skoðanir um fyrirkomulag hennar. Meiri hl. lítur svo á, að samþykkja eigi frv. og kosin verði 7 manna nefnd, en vill gera þá breytingu, að hægt sje að vísa málum til þeirrar nefndar frá báðum deildum, en ekki aðeins frá sameinuðu þingi. Meiri hl. lítur svo á, að það muni vera meiri festa í störfum nefndarinnar, ef hún starfaði í einni heild, og eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefir aflað sjer um utanríkismálanefndir annarsstaðar, þá virðist fyrirkomulagið vera hið sama, að nefndin sje ein, en skiftist ekki eftir þingdeildum. Í Danmörku er það þannig, þótt þar sje ekki um sameinað þing að ræða, að kosnir eru 16 meðlimir þingsins í nefndina og jafnmargir varamenn. Sú nefnd á að ræða öll utanríkismál. Ennfremur getur nefndin heimtað fund, ef sex menn óska þess, og loks er nefndin bundin þagnarheiti, er ráðherra eða formaður nefndar óska. Haldinn er þingfundur í þingbyrjun, þar sem skýrt er frá því, hvað gerst hafi í nefndinni milli þinga. Við erum svo skamt komnir í utanríkismálunum, að jeg vildi ekki, að alt þetta yrði ákveðið um nefndina í upphafi, enda mundu skapast venjur um það með tímanum. Utanríkismálanefnd Dana er að því leyti hliðstæð því, sem meiri hl. hugsar sjer, að hún nær yfir alt þingið.

Mun jeg svo ekki fara um þetta fleiri orðum og mun leiða hjá mjer að ræða álit minni hl. og aðrar brtt., er fram hafa komið, þangað til um þær hefir verið rætt.