29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3165 í B-deild Alþingistíðinda. (2873)

57. mál, þingsköp Alþingis

Halldór Stefánsson:

Jeg vildi aðeins stuttlega drepa á ástæðurnar fyrir brtt. minni á þskj. 265.

Það mun alment álitið, að þingin sjeu helst til löng og þar af leiðandi dýr, og hafa verið reyndar ýmsar leiðir til þess að stytta þau, en engar slíkar leiðir hafa náð fylgi meiri hl. þingsins. Þessi till. mín lýtur að því sama, þótt í litlu sje. Það er alkunnugt, hve mikill fjöldi mála liggur fyrir hverju þingi.

Í þingsköpunum er svo ákveðið, að fastanefndir skuli vera 7. Þykir afgreiðsla mála frá nefndum dragast stundum alllengi, og mun ástæðan fyrir því vera m. a. sú, hve mikill fjöldi mála liggur fyrir hverri nefnd.

Ef svo væri, að jafnmörg og umfangsmikil mál lægju fyrir hverri nefnd, væri ekki hægt að bæta úr þessu með öðru móti en að fjölga nefndunum að miklum mun. Álít jeg, að það mundi geta greitt fyrir afgreiðslu málanna, að fjölga nefndum allverulega, en húsnæði leyfir ekki, að öllu fleiri nefndir starfi; verður því að hverfa frá því. En það er mjög misjafnt, hvað mörg mál koma fyrir hverja nefnd. Sjerstaklega er það ein nefndin, sem langflest mál eru lögð fyrir, og það er allshn. Jeg hefi gert yfirlit um það, hvernig mál hafa legið fyrir nefndum á 4 undanförnum þingum að meðaltali. Það yfirlit er þannig:

Fjvn. 3¼. Fjhn. 18. Landbn. 10¼. Sjútvn. 9½. Mentmn. 7. Samgmn. 8¼. Allshn. 31¼.

Eins og sjest á þessu yfirliti, hafa langflest mál farið til allshn., og þar næst til fjhn. Í raun og veru teldi jeg rjett að skifta málaflokkum beggja þessara nefnda í tvent, en skrifstofustjóri hefir sagt mjer, að húsnæði leyfði ekki að fjölga nefndum um tvær. Hinsvegar væri hægt að bæta við einni nefnd, og hefi jeg því valið að kljúfa mál allshn. og skifta henni í tvent. Til allshn. kemur einn flokkur mála, sem er sjerstaklega stór, og það eru sveitar- og bæjarmál. Fyrir því hefi jeg lagt til, að skipuð yrði nefnd, sem kölluð væri sveitarmálanefnd, og hefði þessi mál með höndum. Þetta mundi án efa flýta afgreiðslu málanna. Jeg hefði ekki borið fram þessa brtt., ef ekki hefði legið fyrir frv. um breyting á þingsköpunum og ýmsar aðrar breytingar verið fram bornar. Annars vil jeg skjóta því til hv. allshn., hvort hún vildi ekki athuga það; hvort ekki væri líka hægt að skifta málum fjhn., sem hefir flest mál með höndum, að fráskilinni allshn.