29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

57. mál, þingsköp Alþingis

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er fjarri mjer að vilja halda uppi löngum umr. um þetta mál. Jeg vildi aðeins benda hv. meiri hl. nefndarinnar á, að það getur oft borið svo að, að samningar við önnur lönd sjeu löggjafarmál. Má þar benda á Spánarsamninginn, sem fyrst var gerður sem bráðabirgðasamningur, en síðan staðfestur með lögum, svo að þetta var beinlínis löggjafarmál, og þetta er einhver þeirra mikilsverðustu samninga, sem hjer hafa verið gerðir. Þetta nægir til að benda á það, að slík mál getur vel borið að sem löggjafarmál.

Svo þótti hv. frsm. meiri hl. það óviðfeldið, þegar ekki væri um löggjafarmál að ræða, að þau þurfi að fara í nefnd í hvorri deild fyrir sig. En þá er ekkert hægara fyrir stjórnina en að kalla til báðar nefndir og láta þær starfa saman. (HjV: Á þá að vísa málunum til nefndanna frá sameinuðu þingi?). Nei, jeg er hjer að tala um það, þegar stjórnin vill leita ráða til nefndanna um mál, sem ekki á að setja lög um.

Þá er brtt. hv. 1. þm. N.-M., um að skifta allsherjarnefnd. Mjer líst vel á hana vegna þess málafjölda, sem á hverju þingi er vísað til hennar. En náttúrlega getur maður ekki búist við því, að það flýti eins mikið fyrir störfum nefndanna eins og ef hægt væri að bæta við nýrri nefnd án þess að taka af kröftum þeim, sem í öðrum nefndum eru.

Hv. frsm. meiri hl. var að tala um, að það væri galli á till. hv. þm. Dal., að það hvíldi engin skylda á stjórninni að kalla nefndina saman. En jeg er sannfærður um það, að hver stjórn sem er finnur sjer ljúft að kalla saman nefndina og láta hana gefa sjer ráð og bera hluta af ábyrgðinni, því að það er oft svo um utanríkismálin, að þau eru mjög ábyrgðarmikil.

Það var gott, að hv. 2. þm. Eyf. mintist á stólana hjer í salnum. Það var einmitt talað um í nefndinni að hreyfa því, en það gleymdist hjá okkur báðum frsm. En það verður að segja það eins og er um stólana hjerna, að það er ekki nokkrum manni ætlandi að sitja í þeim til lengdar, og þess vegna vil jeg mjög eindregið taka undir það að skora á hæstv. forseta að sjá um, að þetta verði síðasta þingið, sem við þurfum að sitja á svona stólum. Svo þyrfti líka að útvega fáeinar pappírskörfur, til þess að við getum komið frá okkur ýmsu pappírsrusli, sem annars flýtur hjer, eins og sjá má, um öll borð. En aðalatriðið er þó um stólana, sem jeg vona, að hæstv. forsetar taki til athugunar.