01.03.1928
Neðri deild: 36. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

127. mál, skattgreiðsla h/f Eimskipafélags Íslands

Magnús Jónsson:

Það er lítið, sem okkur ber á milli, mjer og hv. 4. þm. Reykv. Jeg get gert hans orð að mínum að því leyti, að jeg álít óforsvaranlegt að gera fjelagið að gróðafyrirtæki meðan það nýtur að miklu leyti skattfrelsis. En menn verða að muna, að upphaflega lögðu þjóðræknir menn fje sitt í þetta fyrirtæki, án þess að það væri þar eins trygt og í sparisjóði. Og jeg hygg, að það sje ósanngjarnt að meina fátækum mönnum, sem lögðu sparisjóðsfje sitt í fjelagið, að fá af því ofurlitla vexti. Hinum, sem vel eru efnum búnir, má standa þetta nokkuð á sama.

Þótt fjelagið fái nokkurn beinan styrk frá ríkinu, þá er þar í raun rjettri ekki um styrk, heldur um borgun að ræða fyrir það, að fjelagið tekur að sjer að sigla á ýmsar smáhafnir, sem eru því óhagstæðir viðkomustaðir. Leyfi jeg mjer að efast um, að fjelagið sje betur statt fyrir þann styrk en án hans, því að það hefir áreiðanlega oft stórskaða af að koma á smáhafnirnar.

Jeg held, að það sje misskilningur hjá hv. 4. þm. Reykv., ef átt hefir að skilja hann svo, að í brtt. minni fælist einhver hvatning til fjelagsins um að greiða endilega 4% í arð. Vitanlega á það ekki að gera það nema það sjái sjer fært, en jeg hefi litla trú á, að svo verði fyrst um sinn. En jeg er hræddur um, að brtt. hv. 4. þm. Reykv., er hjer var samþykt og sviftir fjelagið að nokkru leyti athafnafrelsi þess, geti spilt fyrir fjelaginu og áliti þess, eins og þegar styrkþegi úr sveitarsjóði missir kosningarrjett. Jeg vil ekki láta þetta skattfrelsi kosta fjelagið slíkan rjettindamissi. Vænti jeg því, að hv. þdm. geti fallist á brtt. mína, sem er mjög sanngjörn, einkum í garð þeirra fátæku manna, sem illa máttu við því að missa fje sitt til fyrirtækisins, en vildu styðja gott málefni.