06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3253 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Frsm. minni hl. (Magnús Guðmundsson):

Það er rjett hjá hv. frsm. meiri hl., að nefndin hefir ekki getað orðið ásátt um þetta mál. Minni hl. nefndarinnar telur rjett, að bæjarbúar sjálfir velji bæjarstjóra. Mjer finst það ekki vera í samræmi við stefnu jafnaðarmanna, að vilja ekki láta kjósendur sjálfa ráða vali bæjarstjóra. Jeg skal játa, að jeg tel þetta ekki stórkostlegt brot á hugsjón þeirra, en hitt liggur þó miklu nær.

Þá vík jeg að því, sem aðalágreiningurinn var um, hvort Tunga skyldi leggjast undir lögsagnarumdæmi Ísafjarðar eða ekki. Nú er svo háttað málum, að Hnífsdalur, þar sem mikill meiri hluti íbúa Eyrarhrepps er, hefir samkv. sveitarstjórnarlögunum heimild til að verða sjerstakur hreppur, og ákveðnar óskir hafa komið fram í þá átt. Sá hluti Eyrarhrepps, sem eftir yrði, er svo lítill, að hann gæti varla verið sjerstakur hreppur áfram, ef Tunga verður tekin undan. Oddviti Eyrarhrepps átti tal við allshn. um þetta mál. Sagði hann, að ef Eyrarhreppur skiftist, myndu bændur í Skutulsfirði sennilega ekki ófúsir á að sameinast Ísafirði. En ef Tunga væri lögð undir Ísafjarðarkaupstað nú strax, taldi hann, að hreppnum yrði gert erfiðara fyrir um að komast að hagkvæmum samningum við kaupstaðinn, því að þá vissu allir, að þeir væru neyddir til sameiningarinnar.

Minni hl. nefndarinnar taldi engan veginn rjett að veikja afstöðu hreppsbúa gagnvart kaupstaðnum, og væri sjálfsagt að gefa þeim hluta Eyrarhrepps, sem ekki fylgdist með Hnífsdal, möguleika til að vera sjálfstæður hreppur áfram, ef hann gæti ekki náð viðunandi samningum við Ísafjarðarkaupstað. Það líður því sennilega ekki á löngu áður en Ísafjörður fær Tungu og meira til, þótt málinu verði ekki ráðið til lykta í þetta sinn.

Það virðist ekki vera í góðu samræmi við sveitarstjórnarlögin, er samþykt voru í fyrra, að ætla nú að koma þessari breytingu á án samþykkis Eyrarhrepps. Í 3. gr. laganna segir svo:

„Atvinnumálaráðherra hefir heimild til að skifta hreppi, sameina hreppa og breyta hreppamörkum. Eigi má neina slíka breytingu gera nema eftir beiðni hreppsnefnda þeirra, er hlut eiga að máli, og meðmælum sýslunefnda, nema þegar svo stendur á sem í 4. gr. segir“, — nefnilega, að þorp hafi 300 íbúa eða fleiri.

Hjer er trygt með lögum, að ekki megi breyta hreppamörkum, nema samþykki hlutaðeigandi hreppsnefnda komi til. Þessi lög eru að vísu ekki grundvallarlög, og því hægt að breyta ákvæðum þeirra, en ekki virðist vel við eiga, að breytt sje hreppamörkum án samþykkis hlutaðeigenda á næsta ári eftir að þessi lög eru sett. Gæti þó verið rjett að samþ. lög um þetta, ef brýn nauðsyn væri fyrir Ísafjarðarkaupstað að fá þessu komið í kring nú þegar. En sem stendur verður ekki sjeð, að Ísfirðingar hafi önnur óþægindi af núverandi ástandi en þau, að Tunga verður að greiða útsvör til Eyrarhrepps. Nú mun ætlun kaupstaðarins að koma þar upp kúabúi, og virðist hann þá vel geta staðið sig við að greiða nokkurt útsvar af atvinnurekstri sínum. Þetta er því órjettmætt kappsmál af kaupstaðarins hálfu. — Miklu rjettara er að styðja Eyrarhrepp, svo að hann þurfi ekki að lúta hvaða boðum sem er af hendi kaupstaðarins, er til samninga kemur. Minni hl. allshn. leggur því eindregið til, að frv. verði samþ. með brtt., sem eru á þskj. 290.