06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (3057)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Haraldur Guðmundsson:

Hæstv. forsrh. skýrði frá því áðan, að það hefði komið til kasta stjórnarinnar að úrskurða, hvort það væri löglegt, að bæjarstjórn Akureyrar kysi bæjarstjóra þar, og fjell úrskurðurinn þannig, að bæjarstjóri skyldi kosinn af borgurum samkv. lögum um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Það þýðir víst ekki að deila við dómarann, og mun jeg því sætta mig við till. minni hl. um, að það ákvæði laganna haldist óbreytt.

Þá kem jeg að hinu atriðinu, um stækkun lögsagnarumdæmisins, enda skiftir það að mínum dómi meira máli. Það fyrsta, sem kom fram hjá andmælendum frv. þessa, var það, að ekki hefði verið leitað samkomulags við hreppsnefnd Eyrarhrepps um skiftinguna. Þetta er ekki nema hálfur sannleikur. Um þetta hefir verið rætt við einstaka hreppsnefndarmenn, flesta held jeg, þó að eigi hafi formlega verið leitað samþykkis hreppsnefndarinnar. Jeg býst við, að þó að þess hefði verið leitað nú, þá hefði það engan árangur haft.

Hv. þm. N.-Ísf. taldi það móðgun við hreppsnefndina, að bera þessa kröfu fram hjer án þess að bera hana fyrst undir hreppsnefnd þessa. Í tilefni af þessum ummælum háttv. þm. vil jeg minna hann á, að hið sama hefir áður verið gert, þegar Seljaland var lagt undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins.

Háttv. þm. Mýr. fanst hætt við, að hreppurinn yrði hlunnfarinn, ef brtt. meiri hl. yrðu samþ. Þetta er alveg óþarfur ótti hjá þessum háttv. þm., því að í niðurlagi greinarinnar er sett ákvæði um, að ef ekki náist samkomulag um fjárskifti og skulda og ómagaframfærslu milli Ísafjarðarkaupstaðar og Eyrarhrepps, skuli atvmrh. skera úr, og jeg get tæplega búist við, að hv. þm. beri það vantraust til núverandi atvmrh., að hann óttist, að ráðh. fari að „hlunnfara“ hreppinn til hagsbóta fyrir kaupstaðinn. Jeg tel víst, að sá úrskurður verði þannig, að báðir aðiljar geti vel við unað.