06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (3061)

56. mál, bæjarstjórn Ísafjarðar

Bjarni Ásgeirsson:

Það lítur nú út fyrir, að það ætli að verða stórt höfuðið á þessu máli, ef annaðhvort á að verða úr því vantrausts- eða traustsyfirlýsing til stjórnarinnar, eins og varpað hefir verið fram hjer í umr.

Ástæðan til þess, að jeg legst á móti brtt. á þskj. 250, er alls ekki sú, að jeg sje mótfallinn þeirri hugsun, sem í henni felst, heldur hitt, að jeg álít, að sá grundvöllur, sem þar er lagður fyrir meðferð slíkra mála í framtíðinni, sje hvergi nærri viðunanlegur. Í brtt. er ekki lagt annað til grundvallar en það, að Ísafjarðarkaupstaður eigi að taka að sjer að greiða kostnað af fátækraframfærslu, sem fallið hefði á Eyrarhrepp vegna fæðingar eða dvalar á jörðinni Tungu, ef lögin hefðu ekki verið samþ. En eins og allir vita, er það oft svo, að það eru fáar jarðir, bestu jarðirnar í sveitunum, sem halda sveitunum uppi. En ef það er svo, sem látið hefir verið í ljós hjer í umr., að þessi jörð, Tunga, sje ein af bestu jörðunum í þessari sveit, þá er sveitin svift þeim tekjum, sem hún hefði annars gefið af sjer til sveitarinnar, án þess að sveitin fái bætt nema lítinn hluta þess, sem hún hefði þurft að fá bætt, því að þarfir sveitarfjelaga eru, sem kunnugt er, meiri en einungis fátækraframfærsla.

Jeg tel því sjálfsagt, að leitað verði samkomulags milli hreppsins og bæjarfjelagsins, áður en þetta er ákveðið, og óvilhallir menn látnir meta tjón það, er hreppurinn verður fyrir við það, að jörðin er tekin undan honum, svo að það sje alveg trygt, að hreppurinn beri ekki skarðan hlut frá borði við það.

Hv. 2. þm. Árn. sló því fram, að það næði engri átt að leggja eins mikið á opinbert fyrirtæki eins og fyrirtæki einstakra manna. (MT: Jeg sagði þetta ekki; — að öðru jöfnu, sagði jeg). Við skulum hugsa okkur, að kaupstaður tæki allar bestu jarðir nærliggjandi hrepps og reisti á þeim stórbú eða önnur slík stórfyrirtæki; þá gæti farið svo, að ekki yrðu eftir nema ljelegustu kotin til þess að bera uppi þarfir sveitarinnar.

Jeg vil auðvitað ekki skerða hlut Ísafjarðarkaupstaðar í þessu máli, heldur vil jeg tryggja það, að hreppurinn bíði ekki halla af skiftum þessum. Þess vegna get jeg ekki verið með brtt. á þskj. 250, en vil skjóta því til hv. flm., hvort hann geti ekki komið fram með einhverja slíka brtt. við 3. umr. málsins, sem tryggi það, að hlutur hreppsins sje ekki fyrir borð borinn.