24.02.1928
Neðri deild: 31. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (3096)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg þykist sjá af greinargerðinni, að frv. sje borið fram vegna þess, að ekki hafa tekist samningar við prestinn. En jeg álít, að fá megi dómkvadda menn til að meta skaða prestsins, en kerið eigi að vera í eign kirkjunnar eftir sem áður. Finst mjer, að bændur mættu vel hlíta þeirri niðurstöðu. Jeg skal ekki segja um, hvort þörf er á nýrri löggjöf um þetta efni, en í þessu tilfelli virðist mega koma þessu fyrir eins og jeg hefi bent á. A. m. k. væri það viðkunnanlegra en að fara eignarnámsleiðina. Jeg mun greiða atkvæði með frv. til 2. umr., en jeg lofa engu um það að vera með því að samþykkja þetta frv., ef taka á þennan veiðirjett af kirkjunni.