16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3299 í B-deild Alþingistíðinda. (3119)

124. mál, laxveiði í Nikulásarkeri í Norðurá

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get leitt þessar umr. hjá mjer að mestu leyti. Jeg skal ekki þrátta við hv. 2. þm. G.-K. um þekkingu hans á laxgöngum og lifnaðarháttum laxins, en gaman hefði jeg af að eiga tal við hann um það efni og fræðast af honum. (ÓTh: Fyrir borgun, auðvitað). Jeg býð hv. þm. upp á það, að jeg borgi honum, ef hann veit meira en jeg, en hann mjer, ef jeg veit meira en hann.

Hv. þm. Borgf. dró ekki í efa, að hægt væri að ná þessu marki, ef frv. á þskj. 295 yrði samþ. En hann sagði, að þar sem um opinbera eign væri að ræða, yrðu bætur að haldast áfram til presta, en eftir þessu frv. eiga bæturnar að falla niður, þegar þessi prestur hættir prestskap í Stafholti, sem nú er þar.