25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3338 í B-deild Alþingistíðinda. (3159)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Minni hl. hefir gert allítarlega grein fyrir skoðun sinni á þessu máli í nál. á þskj. 263. Við minnihlutamenn höldum því fram, að hagur útgerðarinnar standi ekki með þeim blóma, að rjett sje að leggja á hana kvaðir að nauðsynjalausu. Við drepum á það í nál. okkar, að þótt 8 st. hvíldartíminn sje lögfestur, þá muni starfsorka manna ekki hagnýtast betur en verið hefir. Og við höfum leyft okkur að halda því fram, að lítil þörf sje á því að lögfesta þennan hvíldarauka. Við vitum, að vinna sjómannanna er oft erfið, en menn verða að virða okkur það til vorkunnar, að við í þessu máli förum eftir svörum þeirra sjómanna, sem við höfum spurt um málið. Jeg hefi átt tal við ýmsa sjómenn, er við lögin hafa búið, og spurt þá um álit þeirra á þessu máli. Og sú rannsókn hefir orðið til þess, að jeg álít, að ekki eigi að lögfesta þennan hvíldarauka. Sumir þessara manna álíta hvíldaraukann nauðsynlegan, aðrir álíta hann aðeins æskilegan, og enn aðrir álíta hann hvorki nauðsynlegan nje æskilegan. Af þessu get jeg ekki dregið aðra ályktun en þá, að hvíldaraukinn sje ekki nauðsynlegur. Jeg hygg, að það sje rjett, sem sagt er í nál. minni hl., að hvaða stjett sem er mundi hafa svarað sömu spurningu á svipaðan hátt. Hitt játa jeg, að sjómannastjettinni er meiri þörf á aukinni hvíld en nokkurri annari stjett. En það er alls ekki sönnun fyrir þörf á lögfestum hvíldarauka.

Við höfum sýnt fram á það í nál. minni hl., að á saltfiskveiðum njóta sjómenn miklu lengri hvíldar en 6 tíma á sólarhring að meðaltali. Þá eru altaf miklar frátafir sökum óveðurs, og má nefna það dæmi, sem hv. frsm. meiri hl. drap á, að frátafir hafa orðið svo miklar undanfarna mánuði, að togararnir hafa að jafnaði ekki verið að veiðum nema annanhvern dag. Auk þess fá sjómenn altaf einhverja hvíld meðan skipin sigla í og úr höfn, en til þess fara frá 20 klst. upp í 3 sólarhringa. Og ennfremur eiga sjómenn algert frí, meðan skipin eru fermd og affermd.

Svona er ástatt um háannatímann, en á öðrum tímum árs er miklu minni þörf á auknum lögfestum hvíldartíma.

Á ísfiskveiðum er það svo, að hægt er að fylla skip á 4 dögum án þess að hinn lögfesti hvíldartími sje skertur. En hitt er tíðast, að sökum gæftaleysis og aflatregðu ganga til þess 10–14 dagar, og er þá auðsjeð, að þá er hvíldartíminn að meðaltali meiri en 6 tímar á sólarhring.

Ferðin til Englands tekur kringum 14 daga, og er þá hvílst í 16 tíma, en unnið í 8. Ennfremur má geta þess, að meðan skipin sigla milli landa, fær nokkur hluti skipshafnar landvistarleyfi, en heldur þó fullu kaupi. Það er því síst ástæða til þess að æskja lögfests hvíldarauka á ísfisksveiðum.

Það er rjett hjá háttv. 4. þm. Reykv., að jeg hefi skrifað nál. minni hl. Jeg hefi haldið því fram, að á botnvörpuskipunum vinni alt að 32 menn, er lög þessi ná til. Af því leiðir, að þeir eru ekki fleiri, og stundum færri. Hv. þm. er formaður Sjómannafjelags Reykjavíkur og ætti að vera kunnugt, að skipin eru misjöfn að stærð og mannfjöldi misjafn um borð. Jeg held, að mennirnir sjeu alt að 32; getur munað um 1–2 menn, en ekki fleiri. Það er augljóst, að ef stytta á vinnutíma hjá hverjum um 2 tíma á dag, þá á að margfalda þá tölu með 32, til þess að sjá, hve vinnustundirnar verða færri á hverjum degi. Það verða 64. Ef hver maður vinnur 16 tíma á dag, þá þarf 4 menn til þess að leysa sama verk af hendi.

Á saltfisksveiðum yrði því að fjölga um 4 menn, ef það væri hægt af öðrum ástæðum. Háttv. frsm. meiri hl. taldi það fjarstæðu, að fjölga þyrfti mönnum. Um það vil jeg vísa honum til háttv. 2. þm. Reykv. Hann gat þess í framsöguræðu sinni fyrir þessu sama máli í fyrra, að fjölga þyrfti um 2 eða 3 menn á vertíð. Þeir mega nú deila um, hvor hafi rjettara fyrir sjer, en þó hygg jeg, að hv. 2. þm. Reykv. fari þar nær sanni.

Broslegt var það, þegar hv. frsm. meiri hl. reyndi að hrekja útreikning okkar minnihlutamanna á þeim kostnaði, sem leiddi af hinum lögfesta hvíldarauka. Jeg staðhæfi, að kostnaðurinn við fjölgun 4 manna á saltfisksveiðum verði um 1200 kr. á mánuði. Menn hafa um 200 kr. í kaup á mánuði, sumir meira; auk þess borgar útgerðin fæði þeirra, um 100 kr. á mánuði fyrir hvern. Þannig er kostnaður útgerðarinnar á hvern mann um 300 kr. á mánuði. En 4x300 kr. eru 1200 kr. Annað er þó verra. Það er það, að ekki er hægt að fjölga mönnum á skipunum frá því, sem nú er, sökum rúmleysis. En af því leiðir, að aflabrögð verða minni. Mun ekki of í lagt, þótt talið sje, að það tjón, sem af því sprettur, muni nema tvöföldu eða þreföldu kaupi umræddra manna.

Jeg hefi nú — og reyndar mjög oft áður — leitt mjög sterk rök að því, að hinn lögfesti hvíldarauki verði útgerðinni mikill baggi. En hitt hefi jeg aldrei sagt, að hann mundi koma henni á knje.

Jeg játa, að þessi sjett, sem kannske er duglegasta stjett landsins, á við langa og stranga vinnu að búa. En af því leiðir ekki, að lögfesta þurfi fyrir hana aukinn hvíldartíma. Annars vil jeg benda hv. frsm. meiri hl. á það sem formanni Sjómannafjelags Reykjavíkur, að ýmsir sjómenn eiga við verri kjör að búa en togarahásetár. (SÁÓ: Hverjir eru það?). Það eru þeir, sem vinna á vjelbátunum. Þeirra aðbúnaður er allur verri og vinnan lengri.

Háttv. frsm. meiri hl. ræddi mikið um það, hve hagur útgerðarinnar væri glæsilegur, og hann benti í því sambandi á aflaskýrslu í Ægi, sem sýndi, að brúttótekjur af hverri veiðiför á ísfiski hefðu verið 1144 sterlingspund að meðaltali. Þetta er rjett, en hitt er alrangt, að kostnaður hafi ekki verið meiri en 800 sterlingspund að meðaltali.

Það er erfitt að segja nákvæmlega, hve kostnaðurinn hefir verið mikill. Hann er misjafn á hin einstöku skip. En gera má ráð fyrir, að hver veiðiför kosti að meðaltali 1000–1100 sterlingspund. (SÁÓ: Þeim ber þá ekki alveg saman útgerðarmönnunum). Hverjum ber ekki saman? Já, hjer er jeg, en hvar er sá, sem annað hefir sagt? — Hv. þm. getur ekkert sagt, af því að enginn hefir sagt annað.

Tekjuafgangur af þessum veiðum var svo lítill, að ógerningur er að byggja á honum. Hv. frsm. meiri hl. var að tala um, að afkoman 1927 hefði verið góð. Það er rjett, að afli var mikill 1927, en verðlag var með alversta móti, og skiftir það ekki minna máli en aflinn. Jeg er samt á þeirri skoðun, að afkoman 1927 hafi verið frekar góð, en hitt er vitað, að það hvíldi þungur skuldabaggi á útgerðinni frá fyrri árum. Öllu má ofbjóða, og það má ekki heldur íþyngja útgerðinni með nýjum kvöðum að óþörfu, því að án hennar mun ríkissjóður tæplega komast af eins og sakir standa.

Hv. frsm. meiri hl. segir, að það sje alröng staðhæfing, sem segir í nál. minni hl., að sex tíma hvíld hafi verið tekin upp áður en hún var lögboðin. Við þetta vil jeg þó standa og staðhæfa það á ný. Jeg hygg, að það sje rjett, að óskin um lögfestingu hvíldartímans hafi einmitt komið fram af því, að búið var að taka upp ákveðinn hvíldartíma. Jeg lýsi það alrangt, sem hv. 4. þm. Reykv. segir, að það hafi aðeins komið fyrir, að hásetarnir hafi fengið 4 tíma hvíld, þegar mikið var að gera. Vökuskipulagið var búið að taka upp, fyrst hjá Guðmundi Jónssyni og síðar hjá fleiri skipstjórum, áður en löggjöfin kom. Þetta hefi jeg staðhæft í viðurvist hans sjálfs, og jeg ætla, að hv. 4. þm. Reykv. hafi einnig verið þar viðstaddur. Og hv. þm. Ísaf. mun sömuleiðis hafa verið þar, því að þetta var á kosningafundi á Brúarlandi, og sá hv. þm. heyrði þetta líka, og var því ekki mótmælt. (HG: Ekki man jeg nú eftir því). Jeg skal gefa hv. þm. Ísaf. minnið með því að rifja upp fyrir honum atvik, er þarna kom fyrir. Við vorum að ræða um vökulögin. Kom þá maður ekki lítill fyrir sjer inn á fundinn. Þá sagði jeg eitthvað á þessa leið: „Undarleg er tilviljun örlaganna, þegar sjálfur höfundur vökulaganna er nú hjer kominn“. (HG: Þetta mun vera rjett). Já, jeg vissi, að hv. þm. Ísaf. mundi muna eftir þessu, þegar jeg rifjaði það upp, og að hann mundi viðurkenna það.

Jeg get verið fáorður um þær hnútur, sem háttv. frsm. kastaði að mjer. Hann sagði, að hvergi hefði verið eins mikill þrældómur og á Kveldúlfsskipunum við síldveiðina í sumar. Jeg held nú samt, að sjómennirnir, sem stunduðu síldveiðina, hafi haft miklu betra af Kveldúlfi en formanni Sjómannafjelagsins, sem hafði af þeim tugi þúsunda, vegna fávisku sinnar.

Að lokum vil jeg brýna það fyrir háttv. þdm., að hjer er mikið alvörumál á ferðum. Og það má alls ekki blanda því saman, að sjómenn eru alls góðs maklegir og hinu, að löggjöfin fari að blanda sjer inn í þetta mál. Jeg vil benda á það, að þegar þarf að leggja byrðar á þjóðina, er æfinlega byrjað á sjávarútveginum, og það af alveg eðlilegum ástæðum. En þá dugir ekki að vinna að því öllum árum að gera honum erfitt fyrir.

Ef svo væri, að með núverandi fyrirkomulagi væri verið að spilla heilsu sjómanna, þá væri alt öðru máli að gegna. En jeg ætla, að svo sje ekki. Jeg hefi haft fullan vilja og viðleitni á að kynna mjer þetta. Og jeg mundi álíta það blett á mjer, ef jeg sæi það sjálfur, að breytingin væri rjettlát, en berðist þó á móti henni.