09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jóhann Jósefsson:

Jeg hefi ekki tekið þátt í þessum umr. hingað til. En mjer þykir rjett að árjetta það, sem minni hl. hefir fært fram sem ástæður fyrir því að vera á móti frv., einkum vegna þess, að háttv. meiri hl. leitast ekki við í nál. sínu, sem er hálf önnur lína, að færa rök fyrir aðstöðu sinni til málsins. Verð jeg því að álíta, að háttv. meiri hl. geri rök háttv. frsm. að sínum og láti það nægja.

Háttv. frsm. meiri hl. hefir nú haldið ýmsu fram um þessi togaramál, bæði íslensk og útlend, og að mörgu leyti ekki farið rjett með það, sem hann hefir viljað leggja fram fyrir háttv. deild til þess að „upplýsa“ málið, t. d. það, sem hann hefir sagt um vökulög hjá öðrum þjóðum. Við 1. umr. þessa máls gaf hv. frsm. sem flm. það í skyn, að með þessu frv. væri ekki farið fram á annað en það, sem gerðist með öðrum veiðiþjóðum. Jeg veit með vissu, hvern veg þessu er háttað hjá Þjóðverjum og Bretum; hjá þeim er ekki til nein löggjöf um vinnutíma á togurum sjerstaklega. Á breskum togurum hefir það verið venja um nokkuð langt skeið, að hásetar fengju að hvílast minst 4 tíma á sólarhring. Vitneskju um þessa venju hefi jeg eftir heimildum, sem er viðtal við sjómenn sjálfa. Þessi venja skapaðist á sama hátt og 6 tíma hvíldin hjer á íslensku togurunum, af því að skipstjórarnir sáu, að þrotlaus vinna var til skaða. Síðan þessi hefð komst á, hvílast hásetar á breskum togurum undantekningarlaust minst 4 tíma, þótt afli sje góður og veiði stunduð af mesta kappi. Á þýskum togurum er ekki nein föst venja um hvíldartíma háseta og engin löggjöf. Þeir vinna ákaflega hart og strangt meðan þeir eru að fiska, en fiska þó ekki eins mikið að tiltölu og Íslendingar. Það er staðreynd, sem ekki verður mótmælt, að löggjöf um hvíldartíma á togurum Þjóðverja er ekki til.

Þá mintist háttv. frsm. meiri hl. í ræðu sinni á kjör skipstjóra á íslenskum veiðiskipum og sagði, að þeir hefðu hátt kaup, of hátt kaup. Aðalgallinn við kaupgreiðslu þeim til handa væri sá, að þeim væri goldinn ágóðahlutur af brúttóafla; slíkt ætti sjer ekki stað annarsstaðar. Það er ekki rjett. Hjá Þjóðverjum fær skipstjórinn prósentur af andvirði aflans, að frádregnum uppskipunar- og uppboðskostnaði. Þar með er sýnt, að þessi þjóð a. m. k. greiðir skipstjórum á fiskiskipum kaup miðað við brúttóafla. Jeg kalla það „brúttó“, þótt þessir tveir litlu liðir sjeu dregnir frá. Á breskum togurum er frádrátturinn meiri; þar mun vera dregið frá þeirri upphæð, sem selt er fyrir, kol, salt, ís og veiðarfæri, og útgjöld til útgerðarinnar, önnur en fæði.

Þá gat hv. frsm. þess, að laun íslenskra togaramanna — hann sagði fiskimanna, en jeg býst við, að hann hafi átt við háseta á togurum — væru vesalli en hjá öðrum þjóðum. Þetta er hæpin fullyrðing. Að minsta kosti er mjer fullkunnugt um, að þýskir togaramenn hafa miklu lakari kjör. (SÁÓ: Hvað hafa þeir?). Þeir hafa bæði prósentur af afla og mánaðarlaun. En mánaðarlaunin eru svo lág, að okkar menn vilja ekki líta við þeim. Það var til dæmis í Vestmannaeyjum núna nýlega, að þýskur togari kom inn og vildi fá háseta í viðbót. Maður nokkur hugðist að nota tækifærið og taka skiprúmið, en er hann heyrði um kaupið, fjell honum allur ketill í eld og sá hann sjer ekki fært að sinna boðinu. (SÁÓ: Hvað er kaupið hátt? Vill hv. þm. upplýsa það?). Fastakaupið er núna í kringum 90–95 gullmörk á mánuði. (SÁÓ: 100). Auk þess hafa þeir lifrarhlut. En það er aðeins helmingur lifrarinnar, sem fer til hásetanna. (SÁÓ: 3/4). Nei, helmingur, en hinn parturinn fer til útgerðarinnar. Að öllu samanlögðu er þeirra hlutur óneitanlega miklu lakari heldur en stjettarbræðra þeirra á íslensku togurunum. Það er ekki út í bláinn sagt, að yfir höfuð er miklu betur með háseta á íslenskum togurum farið heldur en á skipum annara þjóða. Hvar veit hv. þm. t. d. til þess, að hásetar fái landleyfi meðan verið er að flytja ísfisk til Englands, og fái þó fult kaup, nema hjer? Vitaskuld hagar hjer svo til, að það þykir ekki heppilegt að sigla til Englands til þess að selja aflann með alla hásetana, og eru því ávalt einhverjir eftir heima, en kaup þeirra skerðist ekki við það.

Jeg hefi átt tal við einstaka fiskimenn og spurt þá um álit þeirra á kjörum háseta á togurum, og síðan þetta frv. kom fram, hvað þeir hefðu um aukinn lögboðinn hvíldartíma að segja. Jeg ætla sjerstaklega að geta ummæla eins sjómanns, sem var áður bátaformaður í Vestmannaeyjum, en hefir nú verið 3 ár á togara. Þessi maður, sem er bæði skilorður og greindur, ljet svo um mælt, að þeir, sem ekki hefðu heilsu til þess að stunda sjósókn á togurum eins og vinnan og vistin gerðist þar nú orðið, hefðu ekki heilsu til þess að vera á sjó yfirleitt. Munurinn á því að vera á vjelbát og á togara væri svo mikill, að hann vildi ekki fyrir nokkurn mun breyta til aftur, fara af togaranum og taka til að stunda sjó á mótorbát, eins og hann gerði áður. Hann ljet þess getið, að sjer væri út af fyrir sig engin þökk á, að verið væri að flytja frv. sem þetta; hann óttaðist, að það yrði til þess að rýra lifrarhlut hásetanna. Jeg veit, að það er ekki mikið á því að byggja, sem einn maður segir um þetta. Það verður vitanlega ekki tekið sem heildarskoðun sjómanna, En jeg læt þess getið, að þá er jeg benti honum á, að fyrir lægi samþykt frá Sjómannafjelaginu um þetta, sagði hann, að það væri svo margt samþykt í landi, sem þeir, sem á sjónum eru, fengju ekki að hafa áhrif á sem skyldi. (SÁÓ: En undirskriftirnar?). Já, nú trúi jeg undirskriftir og áskoranir hafi komið frá togarahásetum sjálfum. Það getur vel verið, að þetta mál hafi verið svo flutt fyrir þeim hluta hásetanna, sem litu öðruvísi á þetta mál en þessi sjómaður, að þeir hafi fúslega skrifað undir áskorun um aukinn hvíldartíma, í þeirri trú, að þeir mistu einskis í við það.

Jeg hefi líka talað við annan háseta, sem sagði mjer hlut, sem mig furðaði mjög á. Hann hjelt því fram, að þorskveiðatíminn væri ekki strangari á togurunum en ísfiskitíminn, heldur oft þvert á móti. Um þetta mál eru deildar meiningar.

Jeg verð að taka undir með háttv. frsm. minni hl., að ekki er sannað, að nein ný þörf liggi fyrir á að auka löggjöf um hvíldartíma á togurum. Þegar togaraútgerðin var tekin upp hjer á landi, fóru menn að veiðum með meira kappi en forsjá. Íslendingar eru svo óvanir að fást við vinnu með öðru en höndunum einum, að það hefir sýnt sig, að þeir hafa á sumum sviðum, og sjerstaklega á sjónum, gert ráð fyrir, að vjelavinnan ljetti meira af mönnum en reynslan hefir sýnt.

Sjómenn endast ekki eins vel á vjelbátunum nú eins og á opnu skipunum áður: Það var algengt, að menn stunduðu sjósókn alla sína æfi, svo að segja frá því þeir fyrst gátu snert á ár og alla tíð upp frá því, og hjeldu þreki og kröftum fram á háan aldur. Það hefir sýnt sig sjerstaklega á vjelbátunum, að menn endast nú ekki eins vel og fyrrum.

Hv. frsm. meiri hl. gat þess í fyrstu framsöguræðu sinni, til þess að sýna, hve lítilfjörlega aukning á kröfum til útgerðarinnar hjer væri farið fram á, að sjer kæmi ekki á óvart, þótt þær kröfur yrðu auknar áður langt liði. Jeg skrifaði þetta niður hjá mjer, vegna þess að mjer hefir fundist hann vilja halda því fram, að því meir sem hvíldartíminn væri lengdur á togurunum, því betur aflaðist. Það leiddi meðal annars af sjer aukna vinnu. Það hljóta þó að vera einhver takmörk fyrir því, hvað teljast má hæfilegur hvíldartími. Fiskiveiðarnar eru háðar veðri og fleiru. Verður því einatt að vinna í skorpum. Höfuðstyrkur þessa atvinnuvegar hefir legið í því að grípa aflann þegar hann gefst. Hann er því næsta ólíkur verksmiðjuiðnaðinum, sem hægt er að setja af stað og stöðva, þegar hver vill. — Jeg vil taka undir það, sem hv. þm. Ísaf. sagði við 1. umr. þessa máls, að þjóðfjelagið hefði heimild til að gera ákvarðanir um öryggi verkamanna. Jeg vil kveða fastar að orði og segja, að því beri skylda til þess. Þess gætir líka allmikið í löggjöf allra þjóða. Þótt svo sje máske ekki litið á af þeim, er berjast fyrir rjetti vissra manna hjer á landi, þá hefir þó einnig verið gert talsvert hjer til þess að auka öryggi verkamanna bæði á sjó og landi. En jeg vil benda á það, að löggjöfin þarf að stilla mjög til hófs á þessu sviði og fara ekki lengra en það, sem reynslan og skynsemin benda til, að sje heppilegt. Ef fylgt væri þeim rökstuðningi hv. frsm., sem kemur fram í þessu frv., þá er gefið, að þangað myndi reka, að þá yrði atvinnuvegunum bundinn svo þungur baggi með ýmsum kröfum, að ekki yrði hægt að halda sumum greinum atvinnuveganna áfram, og yrði þá skaðinn beggja. Meiri hl. nefndarinnar þarf ekki að líta svo á, að við, sem erum í minni hl., sjeum mótfallnir því, að hásetarnir fái nauðsynlega hvíld. En þeir verða að kannast við það, að við höfum eins mikið til okkar máls, þegar við höldum því fram, að til þess þurfi ekki aukna löggjöf. Það hefir þegar verið bent á það, að áður en vökulögin gengu í gildi, voru útgerðarmenn og skipstjórar sjálfir farnir að sjá það, að best var unnið með því, að hásetarnir fengju næga hvíld. Jeg fæ tæplega annað skilið en þar sem atvinnan er komin á þennan rekspöl og þeir, sem um hana sjá, eru búnir að fá þann þroska, sem þeir að vísu höfðu ekki fyrst, að þeir muni stilla vinnunni svo í hóf, að mönnunum sje ekki ofboðið. Stjórnir togarafjelaganna virðat yfirleitt sýna nú orðið svo mikla sanngirni og vit, að ekki ætti að þurfa að lögbjóða meiri hvíld handa hásetum. Að minsta kosti þola íslensku togaraskipstjórarnir vel samanburð við skipstjóra annara þjóða. Og þar sem í öðrum löndum er engin löggjöf um þetta efni og hennar ekki talin þörf, þá ættum við ekki að þurfa að lögbjóða ný ákvæði um þetta. Enda er vitanlegt, að hásetar fá að njóta þeirrar hvíldar, sem starfið leyfir.

Einn þeirra; sem um þetta mál hefir talað, sagði, að versta verkið á togurunum hefði verið netabætingin. Jeg get vel trúað því, að svo hafi verið áður, meðan menn kunnu illa til þeirra verka og þurftu því mikinn tíma til þess. En eftir því sem leikni hefir aukist, hefir starfið minkað, enda munu íslenskir hásetar nú standa þar erlendum sjómönnum fyllilega á sporði. Jeg er sannfærður um það, að ef þingið vill fara að hlutast frekar til um það, hvernig verkum yrði hagað, sem jeg tel þó enga þörf, þá er önnur tegund skipa, sem engu minni ástæða er, að hlutast sje til um vinnutíma á, en það eru línuveiðararnir og stærri útilegubátar. Eftir því, sem mjer hefir verið sagt, þá er oft og einatt um miklu meiri vökur þar að ræða en á togurunum. Jeg vil ennfremur leiða athygli að því, að ef þingið á annað borð vill fara að skifta sjer af þessu máli eða gera ráðstafanir um vinnubrögð manna, þá er sjálfsagt ekki minni ástæða til að gera ákvarðanir um ýmsa landvinnu. Hví á þetta ekki að ná til sveitanna líka, t. d. til sláttarins? Við hann er þó oft lagt allmikið að sjer. Mætti því með sömu rökum lögbjóða vissan hvíldartíma við sveitavinnu.

Þá hefir meiri og minni hl. nefndarinnar greint á um það, hvort auka þyrfti starfskrafta á skipunum. Hv. frsm. meiri hl. vildi ekki kannast við, að þess þyrfti. En allir, sem jeg hefi talað við, hafa talið það óhjákvæmilegt. Afleiðingin af fjölgun háseta á togurunum er í bili sú, með þeim hætti, sem nú er á kaupgjaldi, að sá hluti hásetakaupsins, sem byggist á aflanum, yrði minni en nú, en jeg tel það víst, að krafa háseta verði sú, að hvergi skerðist þeirra hlutur af þessum ráðstöfunum.