09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3383 í B-deild Alþingistíðinda. (3173)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ekki fylgst alveg með þessum umræðum, og hefði líklega ekki talað, ef síðasti ræðumaður hefði ekki beint fáeinum aðvörunarorðum til Framsóknarflokksmanna, um að forðast þá villu, sem í því væri fólgin að standa með þessu frv.

Jeg verð að segja það, að mjer finst þeir menn vera undarlegir, sem í gær fylgdu 10 kistum druknaðra sjómanna til grafar, þar sem allur bærinn var með. Í kirkjunni voru töluð mörg alvöruþrungin orð um áhættu sjómannanna sem fórnuðu lífi, starfi og kröftum til að draga auðinn úr djúpinu fyrir sína þjóð. Í dag er verið að tala um þá sem eftir lifa, sem eiga eftir að starfa á þessum skipum, og þá koma eigendur þeirra, eins og háttv. 3. þm. Reykv. og hv. 2. þm. G.-K., og segja, að sjer þyki of mikið að láta þessa hermenn guðs, eins og þeir hafa verið kallaðir, fá 8 tíma hvíld á sólarhring. Jeg verð að segja það, að það er alveg óskaplegt, að það skyldi koma fyrir eftir daginn í gær, að deilt yrði um það, hvort sú stjett, sem á við erfiðust kjör að búa hjer á landi, skuli fá að sofa eins og læknisfræðin og allir, sem þekkingu hafa á þeim hlutum, segja, að nauðsynlegt sje fyrir starfandi menn. Jeg vona, að hv. þm. skilist það, að illa fer á því að gera hvorttveggja í einu, að syrgja þessa látnu menn og kvelja þá, sem eftir lifa.