09.03.1928
Neðri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3407 í B-deild Alþingistíðinda. (3181)

44. mál, hvíldartími háseta á botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Jeg hafði ætlað mjer að sneiða hjá að tala meira, því að jeg verð að segja, að það er lítil ánægja að ræða mál við þá menn, sem ekki vilja skilja rjett rök. Það þýðir ekkert að tala um þetta mál af þekkingu. Hv. þm. vaða um alt annað efni, en gleyma því, að það eru aðeins örfáir dagar á ári hverju, sem ríður á öllum þeim krafti, sem til er um borð í skipunum, máske aðeins fáar klukkustundir í senn. Jeg mótmæli því sem alröngu, að nokkurntíma sje vakað 112 stundir á viku, eins og hv. þm. V.-Ísf. talaði um. Það eru svo sárfá tilfelli, sem vakað er 18 klst. tvo daga í röð, hvað þá meira, að þetta nær ekki nokkurri átt hjá hv. þm.Hv. fylgismenn frv. gleyma því og enn, að við aðrar fiskveiðar er oft vakað 2 sólarhringa samfleytt til þess að ná þeim afla, sem ekki fæst að öðrum kosti. En það er ekki til neins að tala um þessa hlið málsins við þá menn, sem vilja ekki eða mega ekki skilja hana. Meira að segja komst hv. þm. V.-Ísf. svo langt, að hann fór að tala um sálarlíf sjómannanna, og vildi víst jafna því til þeirra manna, sem starfa að verksmiðjuiðnaði. En það er alt annað að vera við veiðiskap heldur en yfir „skrallandi“ vjelum í verksmiðjum.

Eiginlega var það hv. þm. Ísaf., sem „jagaði“ mig upp úr sætinu. Þótt jeg segi eitthvað af þekkingu og skynsemi um þetta mál, er mjer ekki trúað, en það er satt hjá háttv. þm., að mjer hrýs hugur við því starfi, sem hann og hans nótar láta eftir sig. (HG: Var hv. þm. að tala um okkur áðan?) Hv. þm. veit vel, að jeg var að tala um upneldisstarfsemi þeirra kumpána meðal ungu kynslóðarinnar. Hann talaði um, hvort jeg hefði slíkt fólk í minni þjónustu. Nei, og aftur nei. Enda hefir háttv. þm. ekki þann aldur, að hann hafi getað alið upp starfsfólk mitt. Og jeg vona, að jeg þurfi aldrei á hans uppeldum að halda. — Um leið og verið er að gera þær kröfur, sem sjálfsagðar eru hjá dugandi þjóð, um meira kaup og aukin þægindi, má ekki draga úr því, að menn leggi fram alla sína krafta. Það er það ódæðisverk, sem jeg víti. Það verður ekki hrakið, sem jeg sagði; að með því að krefjast minni vinnu og meira kaups eru einhver takmörk fyrir því, hvað bjóða má hinum fátæku atvinnuvegum okkar. Jeg held því fram með fullum rökum, að minna verður afkastað, þegar ekki er hægt að hafa fólk til að vinna að öllu þær fáu stundir á hverju ári, sem ríður á kröftum allra, svo að hægt sje að koma aflanum undan. Ef menn eiga að hlífa sjer þessa fáu daga, er langt í hið fyrirheitna land, að öllum geti liðið vel. En þetta leitar alt jafnvægis á sínum tíma. Eins og tekið hefir verið fram, er enginn kostnaðarliður við sjávarútveginn hreyfanlegur, nema mannahaldið. Alt annað er háð útlendum markaði og óviðráðanlegum atvikum. Ef dregið er úr framtakinu, hlýtur það því að fara svo, að kaupið lækki; annars er engin leið, að útgerðin standist. Hv. þm. Ísaf. getur komið til mín og fengið að sjá, hvernig útgerðin stendur hjá því fjelagi, sem jeg er riðinn við. (HG: Má jeg það?). Já, háttv. þm. getur fengið að sjá mína pappíra og hve glæsilegir þeir eru: Samt hygg jeg, að margir hafi ljótari pappíra að sýna. En það er ekkert leyndarmál, sem í þessum skjölum segir; þau eru send bæði lögreglustjóra og skattstjóra. Og af þessum pappírum getur hv. þm. áreiðanlega sannfærst um það, að útgerðin stendur höllum fæti og að fremur þarf að vægja henni en íþyngja.

Jeg hefi haldið því fram, og það er enn óhrakið, að aldrei hefir verið þörf á löggjöf um þetta efni. Því að málið var komið í eins gott horf eða betra, áður en lögin voru sett. Tíminn hafði búið svo um, að alla daga var nógur svefn, nema örfáa sólarhringa á hverju ári, þegar uppgripaafli var.

Þá var hv. þm. að bera fyrir sig, að þetta væru fundarsamþyktir — fundarsamþyktir! En þeir menn, sem vinna á sjónum, eru ekki altaf á fundum. Það eru einhverjir aðrir, vanalega 20–30 menn, sem aldrei koma á skip og eru ekki eftirsóknarverðir.

Það er rangt, að vakað sje 18 stundir svo og svo marga sólarhringa í röð. En jeg ætla ekki að gefa mig meira við útúrsnúningum og rangfærslum hv. þm. Það endist enginn til að mótmæla því þvaðri öllu. Og jeg vil heldur forsmá það, sem hann og aðrir segja í þessu máli af þekkingarleysi og máske öðru verra.