13.04.1928
Neðri deild: 70. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

1. mál, fjárlög 1929

Lárus Helgason:

* Þegar háttv. þm. Borgf. var í dag að átelja gerðir Ed. og fanst, að hún hefði hagað sjer öðruvísi í meðferð sinni á fjárl. en hún hefði átt að gera, tók hann sem dæmi, að hún hefði skorið niður styrk til Sláturfjelags Suðurlands, sem ekki hefði numið nema 1/10 kostnaðar þess fyrirtækis, er það ætlaði að ráðast í, á sama tíma og hún hefði veitt styrk, er nam ¼ kostnaðar, til hliðstæðra fyrirtækja. En hv. þm. tók ekki nógu djúpt í árinni, því þessi styrkur, er feldur var niður, nam aðeins 1/15 kostnaðar. Jeg get ekki fallist á, að hv. þm. Borgf. hafi farið nokkuð of hörðum orðum um aðgerðir hv. Ed. í þessu máli, og yfirleitt neita jeg því, að við hv. þm. Borgf. höfum verið of harðorðir í garð hv. Ed.

Þá vildi jeg lítilsháttar leiðrjetta það, sem komið hefir fram í ræðum tveggja hv. þm. um þetta mál. Hv. 1. þm. Árn. (JörB) taldi það að vísu miður farið, að þessi styrkur til Sláturfjelags Suðurlands var feldur niður, en gat þess þó, að það skifti í raun og veru ekki miklu máli og því ekki stór skaði skeður, þó svona færi. Þetta álit hv. þm. mun stafa af því, að hann er ekki nógu kunnugur þessu. Það má að vísu segja, að 10 þús. kr. sjeu ekki mikil upphæð, en þegar um það er að ræða að leggja út í ný fyrirtæki, sem eru máske nokkuð vafasöm, þá geta þó 10 þús. kr. gert talsvert gagn. Það er því alls ekki rjett, að enginn skaði væri skeður, þó þessi styrkur væri feldur niður, því afleiðingin af því er sú, að vafasamt verður, hvort stjórn Sláturfjelagsins sjer sjer fært að halda niðursuðunni áfram. En það væri mjög til hins verra, ef hún væri lögð niður. Stjórn Sláturfjelagsins vinnur líka fyrir fjöldann, og er því vandlifað fyrir hana. Og ef eitthvað mishepnast, þá er henni kent um alt. Af þessum ástæðum hefði það verið ekki svo lítill styrkur fyrir hana að hafa þessar 10 þús. kr., ef einhver mistök kynnu að verða á þessu. Hv. 1. þm. Rang. (EJ) var á sama máli og jeg í þessu, en bætti því þó við, að í raun og veru væri það ekki nema eðlilegt, að þessi styrkur hefði verið feldur niður, því hann væri í raun og veru ekkert annað en gjöf. En þetta er ekki rjett hjá hv. þm. Það mætti þá með sama sanni segja, að allir styrkir væru gjafir. Styrkirnir samkv. jarðræktarlögunum og úr byggingar- og landnámssjóði væru þá líka gjafir. En það er ómögulegt að kalla þessa styrki gjafir, því þeir hafa það hlutverk að auka getu og velmegun þjóðarinnar. Vilji hinsvegar einhver endilega kalla þetta gjafir, þá er vitanlega ástæðulaust að meina það. En þetta eru þá áreiðanlega gjafir, sem ekki verða síður til góðs gefandanum, þ. e. ríkinu, heldur en þiggjandanum.

Eins og kunnugt er, hefir verið gerð tilraun til þess að flytja nýtt kjöt til Englands, og hefir þá komið í ljós, að ekki muni vera hægt að fá þar markað nema fyrir besta kjöt. Alt lakara kjötið er þá útilokað frá þeim markaði. Ef niðursuðu væri nú komið hjer upp, eru allar líkur til þess, að hægt væri með henni að gera þetta lakara kjöt hæft til þess að seljast á erlendum markaði, og væri þá mikið unnið. Þetta snertir því alla þjóðina, og því ekki hægt að segja, að þessi styrkur sje gjöf til einstaks fjelags. Þessu vildi jeg ekki láta ómótmælt, enda þótt að fullu hafi nú verið frá því gengið.

Jeg sagði áðan, að hv. þm. Borgf. hefði ekki verið of harðorður í garð Ed. og að jeg vildi ekki viðurkenna, að jeg hefði verið það heldur. Þetta ætla jeg að leyfa mjer að endurtaka, því þegar sú aðferð er höfð, að gerðir Ed. eru látnar standa óbreyttar, þá hvílir ekki svo lítil ábyrgð á henni. Hinsvegar er jeg alls ekki samþykkur því, að þessi aðferð sje höfð, og jeg hefi ásett mjer að vinna að því, að hjer eftir verði Nd. ekki útilokuð frá því að ráða einhverju um endanlega útkomu fjárlaganna.

*Ræðuhandr. óyfirlesið.