07.03.1928
Efri deild: 41. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3458 í B-deild Alþingistíðinda. (3213)

112. mál, vörutollur

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg ætla aðeins að kvitta við hv. 3. landsk. með nokkrum orðum, en sje annars ekki ástæðu til þess að fara í langt karp við hann. Hv. þm. sagði, að jeg hefði rokið upp. En hann sagði þetta svo oft áður í Nd., að jeg kippi mjer ekki upp við slíkt. En jeg vil leyfa mjer að spyrja: Hvenær er ástæða til þess að láta í ljós reiði sína, ef það er ekki þá, þegar fram koma eins ljettúðug og ábyrgðarlaus ummæli og hv. 3. landsk. og 2 flokksbræður hans í Nd. hafa leyft sjer að hafa um hönd í svo alvarlegu máli, sem hjer um ræðir. Hv. 3. landsk. mótmælti því, að hann og flokksbræður hans væru sjer ekki nægilega meðvitandi um þingmannsskyldu sína. En jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mjer að lesa upp úr nál. minni hl. fjvn. Nd.: „Auk þess . . . viljum við, í tilefni af því, sem tekið er fram í nefndarálitinu, láta þess getið, að við munum við 3. umr. bera fram till. um hækkun fjárframlaga til verklegra framkvæmda, jafnvel þó af því kunni að leiða nokkurn áætlaðan tekjuhalla á fjárlagafrv.“ — Vegna þess að stjórnin hefir leitað fjárframlaga utan fjárl. til ýmislegs, sem þeir standa á móti, ætla þeir í hefndarskyni að stuðla að því, að afgr. verði fjárlög með tekjuhalla. Ef þetta ber ekki vott um ábyrgðarleysi, þá veit jeg ekki, hvað það er, sem gerir það.

Að síðustu skal jeg geta þess í sambandi við það, er hv. þm. var að bregða mjer um fljótfærni, að þau tíðindi hafa nú nýlega gerst, að jeg held, að öðrum stæði það nær en honum að bregða mjer um slíkt.