09.03.1928
Efri deild: 43. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3476 í B-deild Alþingistíðinda. (3222)

112. mál, vörutollur

Frsm. 1. minni hl. (Jón Þorláksson):

Það fer nú altaf að verða auðveldara og auðveldara að hleypa hæstv. dómsmrh. upp, og þarf talsverða varúð að viðhafa til þess að hann geti haldið þeirri stillingu, sem með þarf til að geta borið ábyrgð orða sinna. Í seinustu ræðu sinni kallar hann afstöðu mína til fjármálanna glæpsamlegt athæfi, og lætur sjer jafnvel sæma að hóta mjer tyftun úr sæti dómsmálaráðherra. Hvað er svo þetta glæpsamlega athæfi? 1922 bar jeg fram till. um fjárveitingu til símalagninga með þeirri athugasemd, að ef ekki væri fje fyrir hendi, fjelli framkvæmdin niður. Sá maður, sem kallar þetta eða tilsvarandi till. nú glæpsamlegt athæfi, er sannarlega ekki fær um að bera ábyrgð orða sinna. Þeim manni, sem lætur sjer slíkt um munn fara, er framar öllu þörf á læknisaðhlynningu.

Nú sá hæstv. dómsmrh. uppreisnir alstaðar, á Ísafirði, í Bolungarvík og hjer á Alþingi. — Hann kallar það uppreisn, ef fram eru bornar tillögur, sem ekki falla honum í geð. Hvenær skyldi nokkur maður á nokkru löggjafarþingi hafa látið sjer annað eins um munn fara? Mjer finst æ verða meiri og meiri ástæða til þess að biðja flokksbræður hans að athuga í fullri alvöru, hvort slík framkoma samrímist þeim kröfum, sem gera verður til manns í ráðherrasæti.

Það stendur sannarlega ekki á því að hann dragi ályktanirnar. Ef menn hafa aðra skoðun en hann um fjárhagsatriði og bera fram brtt. á þann hátt, sem þingsköp mæla fyrir, þá kallar hann það uppreisn. Ekki stendur heldur á hótunum, því að nú endurtekur hann í þriðja sinni þá hótun sína að strika út úr fjárlögunum allar fjárveitingar til þeirra kjördæma, sem kosið hafa íhaldsmenn á þing. Þetta gefur góða bendingu um það, hvað hæstv. ráðh. ætlast fyrir, ef hann næði því takmarki, sem hann keppir að, nefnilega að vera einvaldur í landinu. Það yrði nú að vísu aldrei lengi, sem veldi hans stæði yfir, en þetta yrði auðsjáanlega eitt af því, sem gerast myndi.

Það erum ekki við íhaldsmenn, sem berum fram hóglátar till. um fjárveitingar til síma, brúa og vita, sem. erum að eyðileggja Framsóknarflokkinn. Það er hæstv. ráðh. sjálfur, sem sýnir betur og betur með degi hverjum, hve hraparlega flokknum hefir mistekist um ráðherravalið, þegar hæstv. dómsmrh. var skipað í þann sess.