28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3514 í B-deild Alþingistíðinda. (3241)

112. mál, vörutollur

Jóhann Jósefsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að mótmæla eindregið þeirri hækkun á vörutollinum, sem hjer er farið fram á, og þó einkum kolatollshækkuninni. Hv. frsm. beggja hluta fjhn. hafa leitt saman hesta sína um þetta mál. En jeg verð að segja, að mig furðar stórlega, að því skuli vera haldið fram af öðrum hluta nefndarinnar, að hækka þurfi kolatollinn upp í það, sem hann var fyrir 1924. Annars virðist það vera stefna hæstv. stjórnar á þessu þingi að reyna að koma tollunum upp í það, sem þeir voru á þeim tímum, er fjárhagur ríkissjóðs var sem erfiðastur, og aðferðin, sem hæstv. stjórn hefir við þetta, er harla kyndug. Hún lætur einstaka þingmenn bera þessi frv. fram, og viðkomandi ráðherrar sjást hvergi í þinginu, þegar þau eru svo til umræðu. Þeir hirða ekkert um að mæta frekar fyrir það, þó að verið sje að ræða um gífurlegar skattaálögur á þjóðina, sem að margra dómi virðast algerlega óþarfar. Jeg get því ekki annað en mótmælt þessari aðferð hæstv. stjórnar, og jafnframt mótmæli jeg því, hvernig þetta þing beinir sí og æ öllum álögum á sama hluta þjóðarinnar, sem sje á útvegsmenn og þá, sem í kaupstöðum búa, um leið og það stórlyftir undir annan aðalatvinnuveg þjóðarinnar, landbúnaðinn.

Hv. frsm. meiri hl. fjhn. spáir því, að tekjur ársins 1929 muni ekki ná því, sem þær eru áætlaðar, en jeg þori að fullyrða, að hann heldur ekki á neinum þeim spáspilum, sem hægt er með sanni að spá slíku á. Þvert á móti bendir margt til þess, eins og háttv. 2. þm. G.-K. rjettilega tók fram, að afkoma þessa árs muni síst verða lakari en undangenginna ára, enda þótt ekki sje hægt að segja um það með fullri vissu ennþá, þar sem vertíðarlok eru ekki komin. En þeim mun djarftækara er það af hæstv. stjórn að vera að vega hvað eftir annað í þennan sama knjerunn, þegar ekki er full vissa fengin fyrir því, hvort í raun og veru sje nokkur vegur til þess, að hann þoli slíka blóðtöku sem þessa. Jeg hjelt, að háttv. jafnaðarmönnum ætti að vera það ljóst, að kolatollurinn kemur niður á fleirum en útgerðarmönnum einum; hann kemur líka hart niður á hinum efnaminni kaupstaðabúum, en fyrir þessum einfalda sannleika loka jafnaðarmenn augunum, og er sú framkoma þeirra alveg í samræmi við frv. það, er þeir báru fram snemma á þinginu og nýlega var afgreitt hjeðan, sem gekk í þá átt að auka byrðar manna í kaupstöðunum, sem þó annars eiga fult í fangi með afkomu sína. Annars þykir mjer það undarlegur viðburður, að ráðandi flokkar þingsins skuli í alvöru leyfa sjer að halda því fram, að ástandið núna krefjist sömu ráðstafana og ástandið 1924 krafðist. Slíkt er ekkert sambærilegt. Af því, sem nú hefir fram komið, þykist jeg þess fullviss, að svo framarlega sem þjóðin eða einhver hluti hennar hefir látið sjer detta í hug, að það yrði til bóta, að núverandi stjórn og fylgifiskar hennar rjeðu lögum og lofum í landinu, þá verður hún áreiðanlega fyrir hrapallegum vonbrigðum.

Að sjálfsögðu mætti margt fleira um það segja, hversu mjög hjer er órjettlátlega farið að í skattaálögum þessum, en jeg læt bíða að tala frekar um það þar til síðar.

Brtt. háttv. 3. þm. Reykv. bætir hjer óneitanlega dálítið úr, en jeg tel alla hækkun á kolatollinum óþarfa.

Það hefir óspart kveðið við hjá hæstv. stjórn, að tollalækkanirnar 1926 hafi ekki verið tímabærar, en því er aðeins haldið fram til þess að fóðra þessa skattaherferð stjórnarinnar á hendur landsmönnum.