21.02.1928
Efri deild: 28. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3518 í B-deild Alþingistíðinda. (3250)

113. mál, verðtollur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Án þess að jeg telji mjer bera nokkra skyldu til þess, get jeg þó, til hægðarauka fyrir hv. 3. landsk., sem virðist hafa tekið að sjer hirðprestsstörf hjer í deildinni, sem teljast má vel gert, þar sem hjer er enginn prestvígður maður, getið þess, að það er eins ástatt með þetta frv. eins og það, er næst var á undan á dagskránni (um breyting á lögum um vörutoll), að það er flutt að beiðni hæstv. stjórnar. (JÞ: Það er að segja, margir feður, en einn skrifaður). Um faðernið þarf ekki að deila, en jeg skal þó geta þess, úr því að háttv. þm. gefur mjer tilefni til þess, um það eina frv., sem jeg hefi sjeð með sex flutningsmönnum, að engar sönnur hafa verið færðar fyrir því, að það sje getið í lögmætu hjónabandi.

Um frv. þetta get jeg að mestu látið þau sömu orð nægja, sem jeg ljet fylgja því frv., sem hjer var síðast afgreitt til nefndar (frv. um vörutoll). Frv. er þó nokkuð annars eðlis en hitt. Hjer er að ræða um verðtoll, og að nokkru leyti verðtoll af varningi, sem má teljast lítt nauðsynlegur, en að nokkru leyti um verðtoll á varningi, sem ekki verður neitað, að er nauðsynlegur. Að þessu leyti er frv. nokkuð annars eðlis en hitt, en það má segja, að orsökin til framkomu þessa frv. sje hin sama, í fyrsta lagi að afla tekna í ríkissjóð, og í öðru lagi, að hjer stendur eins á með bæði frv., að þau hafa verið hjer áður sem lög og eru feld úr gildi á sama tíma. Að vísu er þetta frv. fært í nokkuð annan búning heldur en verðtollslögin voru í, á meðan þau voru í hámarki, en það má segja, að hjer sje tilgangurinn sá, að færa verðtollinn til svipaðs ástands og var fyrir 1926.

Jeg skal geta þess, að tekjuauki sá, sem vænta má, að fáist, ef frv. þetta verður að lögum, mun nema alt að 400000 króna, en þó verð jeg að taka það fram, að það er mjög erfitt að ákveða hann fyrirfram í tölum, vegna þess að það kemur margt undir sömu liði á tollreikningum, svo að mjög erfitt verður um nákvæma sundurgreiningu. Einnig vil jeg taka það fram, að þó að jeg og þeir, sem að frv. standa, telji, að nauðsyn beri til, að þessi tollauki verði í svipuðu formi og hjer er tekið fram í frv., þá er þó ekki útilokað, að eitthvað megi færa til, því að menn getur altaf greint á um það, hvaða vörutegundir eigi að tolla og hve hár tollurinn á ýmsum þeirra eigi að vera.

Annars er óþarft að fjölyrða um þetta frv. Jeg geri ráð fyrir, eftir þeim undirtektum, sem síðasta frv. fjekk, að þetta frv. fái einnig sömu meðferð í hv. deild, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til 2. umr. og nefndar, og sje jeg því ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál. Frv. eru svo skyld og runnin af sömu rótum bæði, að það, sem sagt var um hið fyrra, má næstum því segja um hið síðara. Jeg vona, að frv. verði vísað til 2. umr. og til fjhn. Jeg get svo látið þetta nægja, nema því aðeins, að einhver sjerstök ástæða gefist.