11.02.1928
Efri deild: 20. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3550 í B-deild Alþingistíðinda. (3287)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Jeg verð að gefa nokkrar upplýsingar út af ræðu háttv. 3. landsk. Hann sagði, að jeg vildi ganga vafasama braut í þessu máli, því að mörg væru þau kauptúnin, sem hefðu svipaða íbúatölu og Norðfjörður, t. d. Akranes. Jeg benti áður á, að ekki mundi á löngu líða áður en Norðfjörður færi fram úr Akranesi að höfðatölu, og þarf ekki að gera það aftur. Annars kemur hjer fleira til greina en íbúatalan ein. Jeg hefi borið saman útflutning frá þessum báðum stöðum. Norðfjörður hefir á síðari árum flutt meira út en nokkurt annað kauptún, já, meira að segja meira en Seyðisfjörður og öll Norður-Múlasýsla samanlagt. Samkvæmt Hagtíðindunum hefir Akranes ekki flutt út fyrir eina krónu. — Það er kannske prentvilla, og jeg hefi ekki átt kost á að athuga Hagtíðindin nema til ársins 1922. — Svo eru það tekjur ríkissjóðs. Jeg veit ekki um þær af Akranesi, en á Norðfirði skifta þær nokkrum tugþúsundum; jeg gæti trúað, að þær næmu í meðalári yfir 100 þús. krónum. Árið 1925 var tekju- og eignarskattur úr allri Suður-Múlasýslu 60 þús. kr., en úr Norðfjarðarhreppi einum nam hann 42 þús. kr. — með öðrum orðum, hann var það ár meira en 2/3 af öllum tekju- og eignarskatti úr sýslunni. Held jeg ekki, að sama verði sagt um Akranes. Auk þess hefir sigling til Norðfjarðár síðustu 10–15 árin verið miklum mun meiri en nokkursstaðar annarsstaðar á Austfjörðum. Norðfjörður dregur frá Seyðisfirði með hverju ári, enda liggur hann vel við. Að vísu koma fleiri millilandaskip til Seyðisfjarðar, en fiskiflotinn siglir meir á Norðfjörð, enda er hann meiri þaðan en frá nokkrum einum stað öðrum á Austfjörðum.

Jeg var búinn að skýra þetta áður, en varð að gera það aftur, af því að háttv. 3. landsk. gerði höfðatöluna að aðalatriði. En eins og jeg hefi sýnt fram á, kemur margt fleira til greina. Og Norðfjörður er að ýmsu leyti ekki sambærilegur við nokkurt kauptún á landinu — hann er meira að segja kominn fram úr Seyðisfirði, eins og jeg hefi sýnt fram á.

Háttv. 3. landsk. var að tala um, að það væri mjög varhugaverð leið að fara að fjölga embættum. Skal jeg ekki mótmæla því. En jeg skil ekki, hvað hann meinar með dagskránni, ef ekki verður nákvæmlega sama uppi á teningnum. Mjer skilst, að af báðum tillögunum leiði embættafjölgun, svo að munurinn ætti þá aðeins að vera í launamismun. Hann vill skipa mann með nokkru lögreglustjóravaldi; og þá kunna launin kannske að verða eitthvað lægri, en ef hann á að inna sömu störf af hendi, sje jeg enga ástæðu til að lækka þau. Annars er dómarastarfið á Norðfirði lítils virði, og jeg legg enga áherslu á, að það fylgi þessu embætti. Auk þess verður þess stutt að bíða, að bæði dómsvaldið og lögreglustjórnin verði endurskoðuð og vafalaust aðskilin.

Háttv. þm. (JÞ) var að tala um, að á Siglufirði hefði staðið sjerstaklega á. Það gerir það alveg eins á Norðfirði. Að vísu er einn hreppur sýslunnar norðar en Norðfjörður — eins og háttvirtur þingmaður rjettilega drap á —, en það er engu minni erfiðleikum bundið að komast frá Eskifirði til Norðfjarðar en frá Akureyri til Siglufjarðar. Landleiðin liggur yfir 2000 feta háan fjallgarð, svo að menn geta gert sjer í hugarlund, hversu greitt er hjer yfirferðar, enda er mjög erfitt að komast til Norðfjarðar öðruvísi en á sjó, og ómögulegt að koma við hestum, nema um hásumarið.

Það mun veitast erfitt að ganga á móti því, að þetta frv. sje fram komið af fullgildum ástæðum. Það er ákaflega erfitt að færa líkur fyrir því, að úr vandkvæðum kauptúnsins verði bætt á annan hátt en þann, er frv. gerir ráð fyrir.

Þá er næst að athuga till. háttv. minni hl. — Í nál. sínu viðurkennir háttv. 3. landsk., að sveitarstjórnarfyrirkomulagið á þessum stað sje orðið óviðunandi. En hann hyggst að bæta úr á annan hátt en þann að veita kauptúninu bæjarrjettindi. En jeg hygg, að það yrði aðeins stundarbót, ef farið væri að hans ráðum. Endanlega lausnin hlýtur að vera bæjarrjettindi. Dráttur á því, að sú lausn fáist, veldur tjóni fyrir kauptúnið og fjárútlátum fyrir ríkissjóð.

Aðferð háttv. 3. landsk. við það að reyna að víkja þessu máli frá finst mjer ekki allskostar viðeigandi. Ef hann hefði komið með till., sem strax kæmi til framkvæmda, þá væri það góðra gjalda vert. En ekki er svo vel, heldur leggur hann til, að þingdeildin víki frv. frá og skori á ríkisstjórnina að ráða fram úr þessu máli með því að undirbúa lög um heimild fyrir tilbrigðum frá sveitarstjórnarlögunum í þeim kauptúnum, er líkt er ástatt um og Norðfjörð. Jeg vil benda á það, að í niðurlagi nál. segir svo: „Tel jeg, að slík úrlausn mundi einnig nægja fyrir Norðfjörð fyrst um sinn“. Jeg er hv. þm. þakklátur fyrir það, að hann telur þetta ekki fullnaðarúrlausn. En spurningin er þá, hvort líkur eru til þess, að ríkissjóður geti sparað fje með því fyrirkomulagi, er hann stingur upp á. Jeg fyrir mitt leyti tel, að af því mundi leiða fjárhagslegt tap fyrir ríkissjóð og aukna erfiðleika fyrir kauptúnið.

Jeg vænti þess, að háttv. þingdeild hafi áttað sig svo vel á þessu máli, sem liggur nú fyrir henni til afgreiðslu í 3. sinn, að hún ljái því lið sitt, svo að úrlausn þess falli á þann eina rjetta hátt.