28.03.1928
Neðri deild: 59. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3567 í B-deild Alþingistíðinda. (3307)

40. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað í Norðfirði

Frsm. meiri hl. (Gunnar Sigurðsson):

* Enda þótt hjer sje ekki um smámál að ræða, skal jeg reyna að vera stuttorður, því að ekki þykja mjer kvöldfundir svo skemtilegir, enda hefir málið verið þrautrætt áður, í hv. Ed.

Allshn. hefir klofnað í málinu. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og sjá má á þskj. 319.

Eins og mönnum er kunnugt, hefir Norðfjörður verið í hröðum vexti og jöfnum um mörg ár, og til glöggvunar vil jeg nefna nokkrar tölur, sem sýna þetta.

Árið 1900 var mannfjöldi á Norðfirði tæp 300. Í árslok 1910 400; 1925 940, 1926 994 og í árslok 1927 1040, og mun mannfjöldinn nú vera nær 1100. Það er mjög erfitt fyrir Norðfirðinga að sækja yfirvald sitt til Eskifjarðar og hafa engan heima á staðnum til að gæta laga og rjettar. Þarna eru skipakomur og siglingar miklar og því samfara mikil störf við innheimtu og þess háttar, sem er skiljanlegt, þar sem allar vörur eru fluttar beint þangað frá útlöndum, bæði það, sem kaupstaðurinn þarfnast og nærliggjandi hjeruð.

Jeg hefi kynt mjer þetta mál eftir föngum í nefndinni og síðan, og virðist mjer ekki gerlegt að neita að verða við bón þessa kaupstaðar. Hjer er svo mikilla tekna og áhugamála að gæta, að eðlilegt er, að einhver útgjöld verði við það. Það má fullyrða, að tollheimta og önnur opinber starfræksla mundi ganga betur, ef þar væri bæjarstjóri. Jeg talaði við landlækni, sem hefir verið þar og kynt sjer alla aðstöðu, og taldi hann til stórbóta, að frv. næði fram að ganga. Norðfjörður hefir verið bygður skipulagslítið, og taldi landlæknir, að því mætti breyta til mikilla bóta, ef duglegur bæjarstjóri starfaði að því.

Að því er snertir brtt. frá hæstv. forsrh. um það að breyta nafni bæjarins og láta hann heita Neskaupstað, þá hefir nefndin ekki tekið afstöðu til þess. En jeg fyrir mitt leyti er ekki trúaður á, að það takist að leggja niður nafnið Norðfjörður, og í því sambandi má benda á það, að ef þetta ætti að verða allsherjarregla, þá ætti t. d. að breyta nafni Ísafjarðarkaupstaðar í Skutilsfjarðareyri o. s. frv. En jeg held, að það muni aldrei takast að breyta þeim nöfnum, sem nú eru orðin föst við þessa kaupstaði. Jeg geri þetta samt ekki að neinu kappsmáli, en mun greiða atkvæði á móti því.

Jeg hefi þá í stórum dráttum skýrt frá því helsta, sem máli skiftir, og sje jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál, og vildi óska, að hv. frsm. minni hl. yrði eins stuttorður og unt er um það.

(*Ræðuhandr. óyfirlesið.)