26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3650 í B-deild Alþingistíðinda. (3364)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Sigurður Eggerz:

Það reyndist svo, sem jeg vissi fyrir, að það varð lítið um rök hjá einokunarmönnunum. Jeg er ekki í minsta vafa um, að hjer er um að ræða fyrirtæki, sem hefir mikla fjárhagslega áhættu í för með sjer fyrir ríkið. Við skulum dálítið íhuga þá leið, sem hv. þm. Ak., sem er flm. málsins, vill fara. Hann vill, að þeir, sem síldina veiða, afhendi hana í verksmiðjurnar gegn fyrirframgreiðslu, er nemi hjer um bil 5. kr. fyrir málið, en síðar greiðist svo uppbót, sem fer eftir því, hvernig fyrirtækið hefir gengið. Ef nú aðrar verksmiðjur bjóða framleiðendum endanlega greiðslu 10 kr. fyrir málið, gæti vel farið svo, að því boði yrði fremur tekið. sjerstaklega gætu þeir smærri vegna framleiðslukostnaðarins verið neyddir til þess að taka þessu endanlega boði, en svo gæti og verið, að hinir taki heldur endanlegu greiðsluna en að taka nokkra áhættu. Þannig gæti ríkisstöðin orðið neydd til að fara inn í samkepnina. Að öðrum kosti fengi hún ekki hráefni. En þá er áhættan komin í allri sinni dýrð. Á þeim árum, þegar lítil síld veiðist, getur svo farið, að verksmiðjurnar fái mjög litla síld, vegna þess að það borgar sig betur að salta hana, meðan markaðurinn fyrir saltsíld er rúmur og eftirspurn næg, og geta þær þá alls ekki borið sig.

Þetta vita menn ekki fyrirfram, og birgir verksmiðjan sig því upp með salt, tunnur, starfsfólk og annað, og þegar svo fer, að lítil síld fæst, hlýtur óhjákvæmilega að verða halli á rekstrinum. Óhöppin geta líka komið fyrir, þótt næg síld fáist. Ef til dæmis síld skemmist, getur það haft áhrif á alla framleiðsluna. Jeg sje ekki annað, hvernig sem á málið er litið, en að verksmiðjan hljóti að verða að haga sjer eins og hinar. Hún verður að keppa um síldina og kaupa hana fyrir vist, ákveðið verð. Af því er auðsætt, að hún verður að fá starfsfje, og þá væntanlega frá ríkissjóði. Og hversu mikið þarf það starfsfje að vera? Það skiftir hundruðum þúsunda. Jeg kem þá að því aftur — og jeg stóð aðeins upp til þess að slá því greinilega föstu —, að hjer er um að ræða stórkostlegt áhættufyrirtæki fyrir ríkissjóðinn. Jeg veit, að það þýðir ekki neitt að tala hjer gegn þessu máli; svo harðvítugan meiri hluta hefir það að baki sjer, sem ætlar að taka á sig ábyrgðina á því að setja ríkissjóðinn út í áhættu. Hinsvegar vil jeg, að þjóðin fái í tíma að sjá, hvað hjer er að gerast. Það kemur dagur eftir þennan dag, tímarnir breytast óðar en varir, meiri hlutar verða að minni hlutum áður en þeir vita af því, sjerstaklega ef þeir fara illa með ríkissjóðinn. Sá meiri hluti, sem nú hefir ekki tíma til að ræða málin, af því að hann er svo viss um sigur, kemst í minni hluta. En þjóðin vill, að hin rjettu rök sjeu dregin fram í málinu, og þegar það hefir verið gert, er jeg sannfærður um, að hún leggur ekki blessun sína yfir það, að sópað sje miljónum af ríkisfje út í áhættufyrirtæki. Jeg öfunda ekki þann þingmeirihluta, sem nú ætlar að taka á sig ábyrgðina á því.