03.04.1928
Neðri deild: 64. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3432)

92. mál, síldarbræðslustöðvar

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg veit satt að segja ekki, hvernig hægt er að svara öðrum eins manni og hv. þm. Dal. Það væri ef til vill hægt, ef leyfilegt væri að leiða vitni á móti honum í þessari hv. deild. En það er hægt að leiða ótal vitni um framkomu hans gagnvart jafnaðarmönnum, og mundi það þá sjást í hverju einstöku tilfelli, hvernig hann hefir reynt að vingast við og skríða fyrir þessum flokki, sem hann nú reynir að svívirða, vegna þess að hann heldur, að það falli í góðan jarðveg hjá öðrum flokki, sem hann heldur nú einna vænlegastan til þess að koma sjer upp í valdasessinn.

Hv. þm. Dal. sagði, að það hefði verið af rjettlætistilfinningu, að hann náðaði Ólaf Friðriksson. Jeg vona vegna hv. þm. sjálfs, að þetta sje satt, en hitt er víst, að hann ætlaði ekki altaf að fara eftir þessari sannfæringu sinni. Jeg get leitt ótal vitni að því, hvernig við jafnaðarmenn áttum tal við hann um málið um það leyti og að hrært var í honum eins og grautarpotti af mönnum af öllum flokkum — jafnvel af hæstarjettardómurunum — út af þessu máli. Enda kvað svo ramt að, að hann hvað eftir annað skifti um skoðun á klukkutíma fresti, og máttum við aldrei af honum líta. Endirinn varð reyndar sá, að hann náðaði Ólaf Friðriksson, en hv. þm. Dal. var samt ekki ákveðnari en svo í málinu, að eftir að hann var kominn til Danmerkur, urðum við jafnaðarmenn að senda þangað sjerstakan mann frá Englandi, sem þar var staddur, til þess að herða á honum, og fyrst er tveir danskir stjórnmálamenn, þeir Borgbjerg og I. C. Christensen, höfðu lagt að honum að náða Ólaf Friðriksson, tók hann endanlega órjúfanlega ákvörðun um að gera það. Jeg skal ekki segja, hvort þetta er drengskapur eða ódrengskanur hjá hv. þm., en mikilmannlegt er það ekki.

En sem dæmi um drengskap hans í stjórnmálum vil jeg nefna, að þegar skifting Gullbringu- og Kjósarsýslu, sem hann hafði altaf fylgt og lofað hafnfirskum jafnaðarmönnum að fylgja, ef þeir kysu hann á þing (sem þeir þó voru svo vitrir að trúa ekki og gera ekki), kom hjer til umræðu, þá reyndi hann að festa vináttu sína við Íhaldsflokkinn með því að snúast gegn þessu rjettlætismáli, og tók það til bragðs til að gera grein fyrir atkvæði sínu að bera upplognar sakir á jafnaðarmenn. (Forseti hringir).

Jeg krefst þess að fá að segja sannleikann!