15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3742 í B-deild Alþingistíðinda. (3453)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. við þessa umr. Get að mestu látið nægja að vísa til greinargerðarinnar.

Eins og sjá má af greinargerðinni, hefir Strandarkirkju safnast talsvert fje á síðustu árum, og var sjóður hennar yfir 40 þús. kr. við síðustu áramót. En eins og menn líka vita, stendur kirkjan á sandi langt frá öllum mannabústöðum, og þykir það ekki hæfa. Á þinginu 1926 flutti jeg tillögu um það, að græða upp þennan sand, en sú till. var feld og því borið við, að kirkjan væri svo vel fjáð, að hún gæti sjálf staðið straum af því að græða landið í kringum hana. Samkvæmt þeirri bendingu sneri jeg mjer til sandgræðslustjóra og stjórnar Búnaðarfjelags Íslands, og liggur nú fyrir erindi frá báðum þeim aðiljum. Leggja

þeir til, að landið verði grætt upp, en eru að því leyti sama sinnis og 1926, að þeir álíta, að Strandarkirkja eigi eðlilega sjálf að leggja fje af mörkum til þess. En nú er það svo, að Strandarkirkja á ekki landið sjálf, en ef hún ætti að leggja fje af mörkum til græðslunnar, þá er það ekki nema eðlilegt, að hún eignist landið í kring, það sem grætt yrði. Lengra var ekki hugsað að ganga í fyrstu.

Strendur finna mjög til þess, að þeir sjeu einangraðir, einkum síðan þeir mistu prest sinn, er Selvogssókn var lögð undir Arnarbæli. En þaðan er 6–7 tíma leið út í Selvog og ilt að komast að vetrarlagi, svo að þess vegna fá þeir strendur ekki nema 2–3 þjónustur á vetri hverjum. Ennfremur er prestur í Arnarbæli nú tekinn að eldast, og þótt hann sje, sem kunnugt er, hinn mesti dugnaðarmaður, þá er hann nú farinn að verða miður fær til erfiðra ferðalaga.

Alt þetta hefir orðið til þess, að það hefir orðið að ráði með góðum mönnum þar eystra að gera tilraun til þess að kippa þessu í lag, þannig að Strandarkirkja fái landið til eignar og sjerstakan kirkjuprest.

Þar yrði þá eina sveitaprestakallið á landinu, sem hefði sjerstakan kirkjuprest, og teldi jeg það mjög vel til fallið, að sú kirkja, sem á svo merkilega sögu sem Strandarkirkja, yrði til þess fyrst að verða sjerstök kirkja með sjerstökum rjettindum, sem lifði einungis á sjálfri sjer og væri sjálfri sjer nóg, eins og var til forna.

Þetta mál er dálítið tvískift, og veit annarsvegar að landbúnaðarmálum, en hinsvegar að kirkjumálum. Þar sem málið er fyrst og fremst landbúnaðarmál, er eðlilegt, að það fari til landbn., og vil jeg leggja til, að svo verði að umr. lokinni, og það því fremur, sem þetta mál er miklu merkilegra og víðtækara en menn munu geta gert sjer ljóst í fljótu bragði.

Á því svæði, sem frv. getur um, var áður ágætis land. Þessa fyrstu tilraun þarf að gera bæði til þess að sýna mönnum þar, hvern árangur sandgræðsla getur borið, og til þess að kenna þeim, hvernig þeir eigi að fara að við sandgræðslu. Nú vill svo heppilega til, að í vor flytur merkisbóndi með uppkomnum sonum sínum á stærstu jörðina þar í nágrenni kirkjunnar, og má búast við, að þeir kraftar yrðu notaðir einmitt til þess að koma græðslutilraununum á rekspöl.

En þetta mál snertir ekki aðeins landbúnaðinn, heldur hefir það einnig, þótt merkilegt megi virðast í fyrstu, afarmikla þýðingu fyrir sjávarútveginn. En sú er ástæða til þess, að með þurkum fýkur allur sandur ofan af landinu og út á sjó, svo að fiskur legst frá ströndunum, og oft svo, að menn verða þar ekki fiskjar varir í 2–3 daga eftir sandfok, þótt áður væri þar nógur. Það er því ekki ofsögum sagt, að þetta mál er þýðingarmikið sjávarútvegsmál. Og það er ekki aðeins mín skoðun, heldur einnig skoðun fjölda manna þar eystra og margra merkra útgerðarmanna, að það þyrfti að gera miklu meira en gert hefir verið til þess að teppa þetta sandfok, af því að það mundi hafa stórkostlega þýðingu fyrir sjávarútveginn, ef tækist að verja Selvogsbanka fyrir því. Þetta vil jeg biðja menn að athuga vel í þessu máli.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að tala frekar fyrir þessu máli nú, en mælist til þess, að því verði vísað til 2. umr. og landbn.