15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3745 í B-deild Alþingistíðinda. (3454)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Jónsson:

Þetta mál kom svo snögglega til umr., að jeg er ekki allskostar við því búinn að taka til máls í því, með því að jeg hjelt, að jeg mundi hafa lengri tíma til stefnu, og líka af því, að jeg bjóst við, að hæstv. dómsmálaráðherra, sem líka er kirkjumálaráðh., mundi fyrst óska að láta í ljós álit sitt á því. En hann er sennilega bundinn við umr. í háttv. Ed. sem stendur.

Jeg er nú ekki svo mikill lögfræðingur, að jeg treysti mjer til að dæma um þetta mál til fullnustu, En mjer sýnist ýmislegt við þetta frv. vera talsvert athugavert og ástæða til þess fyrir landbn., sem væntanlega fær það til meðferðar, að athuga hitt og þetta í sambandi við frv.

1. gr. frv., sem líka er aðalatriðið í þessu frv., kveður svo á, að taka skuli fje úr sjóði Strandarkirkju. Jeg er ekki viss um, hvort þetta er hægt. Hvers eign er kirkjan? Hún er í vörslum safnaðarins, og jeg tel það því mjög vafasamt, hvort Alþ. getur tekið peninga hennar og ráðstafað þeim eftir sinni vild. Þetta þarf að athuga, því að það er skýlaust stjórnarskrárbrot að taka eignir manna og ráðstafa þeim með lögum. Það þarf að vita með vissu, í hvers eign landið er, áður en því verður ráðstafað. Því að þótt það sje nú sandauðn og eignarrjettur á því lítils virði, þá getur hann þó orðið nokkurs virði, ef landið yrði grætt.

Þá er mjer ekki vel ljóst, hvernig það má verða, sem gert er ráð fyrir í frv., að teknar sjeu 10 þús. kr. í einu og síðan 1000 kr. á ári úr sjóðnum til viðhalds og græðslu, og samt ákveðið að ala prest á fje kirkjunnar. Mjer skilst, að það muni líða langur tími áður en til þess geti komið.

Ennfremur sýnist mjer varhugavert að setja fje þessarar einu kirkju undir aðra umsjón en önnur kirknafje heyra undir. Jeg hefði haldið, að sú umsjón væri ákveðin með lögum um almennan kirknasjóð, en í þann sjóð á að renna það fje, sem kirkjum áskotnast umfram þarfir þeirra. Undan þeirri umsjón virðist nú eiga að taka fje þessarar einu kirkju og ráðstafa því á annan hátt.

Það er að vísu sagt í greinargerð þessa frv., að íbúarnir þarna í kringum kirkjuna hafi samþykt stuðning við þetta mál. Mjer skilst, að það verði að koma miklu nánari greinargerð frá þeim og þeir eigi að gera þessar ráðstafanir, en ekki Alþingi.

Sem sagt bjóst jeg ekki við þessu máli svo fljótt, svo að jeg læt mjer nægja að þessu sinni að benda landbn. á, að þörf er á að athuga vel ýms atriði frv. Og auðvitað mega hv. þm. ekki gleyma því, við hvern þeir eiga hjer, að það er Strandarkirkja sjálf, sem sagt er, að kunni að borga fyrir sig, hvort sem henni er gert betur eða ver. Reyndar er þetta sagt að nokkru leyti í spaugi, en jeg veit ekki, hvort það er svo mjög úr vegi að biðja nefndina að athuga líka þá hlið málsins.