15.02.1928
Neðri deild: 23. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3749 í B-deild Alþingistíðinda. (3456)

86. mál, Strandarkirkja og sandgræðsla í Strandarlandi

Magnús Jónsson:

Það er misskilningur, að jeg sje á móti því, að einhverju af fje Strandarkirkju verði varið til þess að græða upp sandinn. Hugmyndin er falleg og rjett að verja fje til þess að framkvæma hana á sínum tíma. Jeg vildi aðeins vekja athygli á ýmsu, sem athugavert kynni að vera í þessu máli, t. d. að hve miklu leyti Alþingi hefir rjett til að ráðstafa fje kirkna. Jeg veit ekki með vissu, hve mikið einstaklingseignarhald, ef svo mætti að orði kveða, Strandarkirkja hefir á því fje, sem hjer er um að ræða.

Hv. flm. segir, að sóknarnefndin hafi verið með því að verja fje kirkjunnar á þennan þátt. Nefnd sú, sem væntanlega fjallar um málið, fær sjálfsagt öll plögg þess til meðferðar, þar á meðal álit biskups og forráðamanna kirkjunnar, og verður að rannsaka þau vandlega.

Það mundi gleðja mig, ef þetta mál fengi heppilega lausn. Og eigi er það mjer síður ánægjuefni, að kirkjan skuli launa hv. flm. fyrirhöfn sína með góðu veðri. En þess ber að minnast, að öllum þeim, sem ætlað hafa að vinna kirkjunni tjón, hefir hún launað grimmilega, svo að þeir hafa jafnvel látið líf, æru og efni — og það þótt í hlut hafi átt stiftamtmaður, biskup, prófastur og prestur.

Jeg skal ekki bera á móti því, að kirkjan geti launað prest sinn. En jeg vil leyfa mjer að benda á orð hv. flm. sjálfra í greinargerð frv., að „svo dýran guðsdóm ber víslega að byggja með hinni mestu prýði, eftir því sem gerist hjer á landi, og þarf til þess ófa fje“. Vil jeg benda á, að ekki mega menn gerast mjög djarftækir til kirkjusjóðsins, ef nægilegt fje á að vera fyrir hendi til þess að reisa það veglega guðshús, sem verið er að tala um.

Jeg vil nú láta rannsaka vel, hvort þörf er á að setja lög um fje kirkjunnar og að hve miklu leyti Alþingi er heimilt að ráðstafa því.