24.03.1928
Neðri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3937 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

77. mál, einkasala á síld

Magnús Jónsson:

Mjer finst ekki geta komið til mála, að þessi umr. fari svo hjá, að ekki sje talað um þetta mál frá hálfu beggja nefndarhlutanna, og þar sem hv. frsm. minni hl. er ekki viðstaddur, vil jeg nota tækifærið til þess að láta í ljós mína skoðun á þessu máli.

Það er ómögulegt að neita því, að ólag hefir verið á síldarsölunni undanfarið, og er engin furða, þótt ýmsar raddir hafi heyrst um breytingar á fyrirkomulagi hennar. Þetta ólag á síldarsölunni stafar nokkuð af eðli þessa atvinnuvegar. Hann er óvissari og gengur skrykkjóttar en flestir aðrir atvinnuvegir. Það liggur í augum uppi, að þar sem markaður fyrir saltaða síld er mjög takmarkaður, en veiðin á hinn bóginn er mjög mismunandi, þar sem stundum geta borist á land reiðinnar ósköp og framleiðslan þar af leiðandi geysimikil, en svo koma ár, þegar mjög lítið veiðist, að þá er ekki að furða, þótt menn verði fyrir ljótum fleiðrum af slíkum atvinnurekstri. Og þá er líka von, að menn leiti einhverra ráða til þess að komast hjá þeim.

Samt virðist hafa vakað fyrir mönnum annað ólag en það, sem leiðir af eðli þessa atvinnuvegar, sem sje fyrirkomulag sölunnar. Svíar, sem eru aðalneytendur þessarar vöru, fiskuðu áður sjálfir mikið af síld hjer við land, en nú leikur orð á því, að þeir hafi aðra aðferð, sem sje þá, að hafa hjer hina svokölluðu „leppa“, og hafa þessir umboðsmenn nú náð miklu af framleiðslunni í sínar hendur. Menn láta illa yfir þessum ,,leppum“; þeir þykja uppivöðslusamir og ósanngjarnir. Það er sagt, að þeir gangi frá gerðum samningum o. s. frv., og er því ekki að undra, þótt menn vilji losna við þá. En það má vera, að þetta eigi ekki einungis við umboðsmenn útlendinga, heldur fari einnig ilt orð af innlendum mönnum, þar sem þeir standi stundum ekki sem best við samninga sína.

En þetta eru tvö ólík mál. Annarsvegar er að sjá gallana, hinsvegar er það, hvort einhverjar ákveðnar leiðir dugi til þess að bæta úr þeim. Og jeg sje ekki, að það frv., sem hjer liggur fyrir, bæti úr göllum þeim, sem verið hafa á þessum atvinnuvegi. Menn segja, að einkasalan muni útrýma „leppunum“, og verði Svíar þá að kaupa af einkasölunni. En svo getur farið, að betra sje að veifa röngu trje en engu. Minni háttar útgerðarmenn, sem ekki hafa sjálfir nægilegt fjármagn til þess að halda úti bátum sínum, hafa selt þessum umboðsmönnum útlendinga, sem nóg fje hafa, og hafa því getað greitt þeim við móttöku, og hefir þetta gert þeim mögulegt að stunda þennan atvinnuveg. En nú virðist mörgum ástæða til að óttast það, að þessir menn verði að hætta útgerð sinni, þegar þeir eru neyddir til að skifta við alveg fjármagnslausa einkasölu, sem ekki getur greitt þeim fyr en seint og síðar meir. Það er ómögulegt að neita því, að „lepparnir“, þótt illir hafi verið, hafa „finansierað“ síldarútveginn í þessu efni. Það liggur því mjög nærri að álíta, að þessi einkasala verði einungis fyrir þá, sem eru svo efnum búnir, að þeir geti beðið eftir greiðslum von úr viti. Jeg tel það megingalla á þessu frv. og lögunum frá 1926, að einkasalan hefir ekki krafta til að kaupa síld beint. Jeg hafði orð á þessu við mann, sem er mjög mikið með einkasölu, og áleit hann, að til mála gæti komið að nota fje frá Svíum, en jeg held, að það sje að fara úr öskunni í eldinn, ef reka á burt þá einkaleppa, sem nú starfa, en setja í þeirra stað á stofn allsherjar ríkisleppmensku. Hefi jeg nú sýnt, að þessi aðaltilgangur frv., að bægja leppunum burtu, geti orðið tvíeggjað sverð. Annar tilgangur með einkasölu er að halda uppi síldarverðinu. Það er alment álitið, að fyrsta síldin, sem veiðist, sje verðmest. En þegar mikið berst á land, bjóða allir fram í einu og hver niður fyrir hinn, svo að verðið getur fallið gífurlega á nokkrum dögum. Menn halda því fram, að einkasala, þar sem salan sje á einni hendi, geti bætt úr þessu.

Nú berast þær fregnir, að Svíar ætli að fiska mikið fyrir utan landhelgi í sumar. Jeg er nú orðinn svo gamall, að jeg legg ekki of mikið upp úr svona hótunum, en þetta er þó ekki ómögulegt. Það er kunnugt, að Norðmenn hafa fiskað nokkuð utan landhelgi, og þótt öll aðstaða sje auðvitað erfið hjá þeim, þá er þó ekki ómögulegt, að þeir geti gert einkasölunni þá glennu að gera henni ómögulegt að halda verðinu uppi.

Ef einkasalan fær á sig pólitískan lit, eða ef hún með klaufaskap brýtur af sjer sænsku síldarkaupmennina, þá er hugsanlegt, að þeir vilji mikið til þess vinna að koma henni á knje. Það er hægt að hugsa sjer, að ef einkasalan er rekin án þeirrar lipurðar og kunnáttu, sem nauðsynlegt er, þá kunni Svíar að taka til þess ráðs að kaupa lakari síld, saltaða á sjó, til þess að ríða einkasölunni að fullu. Meðan kjöttollurinn bindur okkur í báða skó og meðan þessi „vingjarnlega framkvæmd“ á fiskveiðalöggjöfinni er viðhöfð gagnvart Norðmönnum við síldveiðarnar, þá er jeg mjög hræddur um, að hæpið sje, að einkasalan geti staðið svo vel að vígi, að hún ráði verðinu með því að ráða yfir allri þeirri síld, sem markaðurinn krefst.

Þá er 3. atriðið, að einkasölunni er veitt heimild til að stöðva söltun síldar, þegar nóg þykir komið. Getur þetta þó varla komið til mála fyr en þeim, sem kostað hafa til þess að gera út til síldveiða, er bent á, hvernig þeir geti selt síldina, þegar söltun er bönnuð. Þetta er því óframkvæmanlegt fyr en fullkomnar bræðslur eru komnar upp. Auk þess sje jeg ekki, hvernig það þarf að standa í sambandi við einkasölu, að menn vilja gera ráðstafanir til að stöðva söltun síldar, þegar nauðsyn krefur. Menn geta alveg eins skipað nefnd í þessu skyni, sem fylgist með því, hve mikið er veitt, og hefir vald til að banna söltun, þegar nóg er komið.

Jeg verð að segja það alment um málið, að ef hægt væri, t. d. með stofnun verksmiðju, að tryggja eitthvert lágmarksverð á síld, þá væri það áreiðanlega best fyrir okkur Íslendinga

að geta látið sitja við það eitt að fiska síldina, því að reynslan hefir sýnt, að það er einmitt síldarverslunin, sem setur menn á hausinn og veldur skaðanum.

Fyrir þessu þingi liggja 2 skyld mál, sem bæði eiga að verða til þess að koma lagi á síldveiðarnar, sem sje stofnun síldarbræðslustöðva og síldareinkasalan. Þótt jeg sje ákaflega hræddur við þessar fyrirhuguðu verksmiðjur, sökum þess, hve geysimikið þær hljóta að kosta og hve áhættusamar þær eru, þá vil jeg þær þó heldur, ef þeim er skynsamlega fyrir komið, en einkasöluna. Hún er alveg gagnslaus, meðan ekki er með einhverjum ráðum hægt að bægja Norðmönnum burtu, og í öðru lagi gerir hún öllum öðrum en vel fjáðum mönnum ómögulegt að stunda síldveiðar.