26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 3966 í B-deild Alþingistíðinda. (3571)

77. mál, einkasala á síld

Pjetur Ottesen:

Það má með sanni segja um þetta þing, að það verði nokkurskonar síldarþing. Hjer liggja nú fyrir ekki minna en fjögur eða fimm frv., sem öll snerta síldarútveg; það eru fyrst og fremst þau tvö, sem nú eru á dagskrá, frv. um einkasölu á útfluttri síld og frv. um stofnun síldarbræðslustöðva. Auk þess eru a. m. k. tvö frv. um breytingu á tollum af síld og síldarafurðum, og í fimta lagi liggja fyrir tillögur um það, að gefa eftir toll af þeirri síld, sem seld var til Rússlands síðastl. sumar. Og því verður ekki neitað, að það skín út úr öllum þessum frv. umhyggjan fyrir þessum útvegi. Samkv. frv. um stofnun síldarbræðslustöðva á ríkissjóður að leggja fram miljón króna og auk þess að taka að sjer rekstur verksmiðjunnar og þá stórvægilegu fjárhagsáhættu, sem af því leiðir. Það er svo fast hrint á eftir um þetta, að af því að ekki er gert ráð fyrir, að þessi fyrirhugaða síldarverksmiðja geti tekið til starfa í sumar, þá á, heldur en að ekkert verði aðhafst af því opinbera, að gefa stjórninni heimild til

þess að taka bræðsluverksmiðju á leigu, sem sje rekin fyrir reikning ríkissjóðs í sumar. Þau frv., sem fyrir liggja um tolla í ríkissjóð af síld og síldarafurðum, skilst mjer vera þess eðlis, að ef nokkuð ber út af um árferði, verði þau hrein ívilnunarlöggjöf handa síldarútvegsmönnum, — að það verði allmikil lækkun á þeim tollum, sem ríkissjóði hlotnast af þessari útgerð í meðal- eða ljelegum árum.

Það verður varla hjá því komist, þó við 2. umræðu sje, að ræða nokkuð alment um málið og að umræðurnar snúist einnig nokkuð um næsta málið á dagskránni, frv. um stofnun síldarbræðslustöðva, og vænti jeg, að hæstv. forseti taki ekki hart á því.

Það er nú svo, að síldveiðarnar eru orðnar stór þáttur í atvinnulífi þjóðarinnar. Það virðist miklu frekar vera sú stórfelda hagsmunavon, sem togar menn meira og meira út í þennan atvinnurekstur, heldur en sá raunverulegi hagsbótaárangur, sem af þessum atvinnurekstri hefir yfirleitt orðið fyrir þjóðina; því það virðist ekki leggja neinar hömlur á viðleitni manna í þessa átt, þótt þeir verði þráfaldlega fyrir stórtöpum og verkafólkið fyrir atvinnumissi.

Það er nefnilega þetta seiðmagn, sem fylgir öllum fjárhættuspilum, er þarna kemur fram, þessi óhóflega þrá að kasta teningum um gæfuna.

Þó að jeg að sjálfsögðu fari ekki langt út í það á þessu stigi málsins að ræða um næsta málið á dagskránni, heimild stjórnarinnar til þess að reisa og starfrækja síldarbræðslustöð fyrir ríkisreikning, þá vil jeg taka undir það, sem háttv. þm. Dal. sagði, að þar sje mjög teflt á tæpt vað um það að leggja fje ríkissjóðs í hættu fyrir þennan atvinnurekstur. Á jeg þar við þá miklu fjárhagsáhættu, sem því fylgir að reka verksmiðjuna fyrir ríkisreikning. Og jeg verð að segja það, að mjer komu hálfkynlega fyrir sjónir þær tillögur, sem meiri hl. sjútvn. flutti við 2. umr. frv. um stofnun síldarbræðslustöðva. Eins og kunnugt er, var samþ. till. í því máli í Ed., þar sem ríkisstjórninni var heimilað að selja samvinnufjelagsskap síldarútvegsmanna þessa verksmiðju, þegar hún væri komin upp, ef ósk um það kæmi fram. Og jeg býst við, að það, að þetta ákvæði komst inn í frv., hafi meðal annars valdið því, hve góðar undirtektir þessi hugmynd hlaut í Ed. En þegar hjer er komið, flytur meiri hl. sjútvn. till. um að fella þetta atriði alveg burt. Mjer þótti þetta undarlegt, meðal annars af því, að að þessari till. stóðu tveir samvinnumenn, sem sje hv. 1. þm. S.-M. og hv. 1. þm. Árn., — að þeir væru nú að hverfa frá samvinnugrundvellinum og komnir þarna algerlega inn á ríkisrekstur. Þetta fyrirbrigði er eitt af mörgu talandi vottur þess, hvað stjórnarflokkurinn er háður vilja stuðningsmanna sinna, sósíalistanna. Hingað til hefir það verið svo, að ríkissjóður hefir notið allmikilla tekna af þessum atvinnurekstri, án þess að leggja nokkuð beint í hættu hans vegna. En með því að víkja inn á þá braut, sem nú er gert ráð fyrir, nefnilega að reisa og reka fyrir ríkisfje stórar síldarverksmiðjur, þá er vitanlega algerlega snúið við blaðinu, því að afleiðingin af því hlýtur að verða sú, að allmikil áhætta er færð yfir á herðar ríkissjóðsins. — Hitt virðist mjer, að hefði verið miklu heppilegri leið í þessu máli, sem borin var fram till. um hjer í fyrradag, að ríkissjóður styddi fjelag útgerðarmanna til þess að koma upp síldarbræðsluverksmiðju, en að honum yrði ekkert blandað inn í rekstur hennar. Það er ekki hægt að bera því við, að þýðingarlaust hefði verið að heimila fje í þessu skyni, af því að ekki fengjust menn til framkvæmda, því að eftir því sem mjer er best kunnugt, eru síldarútvegsmenn nú um þessar mundir að bollaleggja um möguleika á því að koma upp síldarverksmiðju og mundu taka fegins hendi atbeina ríkisins til þess að hrinda því máli í framkvæmd. Mjer virðist því liggja miklu nær að beina nokkru fjármagni úr ríkissjóði — ef það á annað borð þykir óhjákvæmilegt — inn á þá braut heldur en að fara að óþörfu að stofna þarna til ríkisrekstrar.

Svo að jeg snúi mjer að því frv., sem hjer er nú beint til umræðu, frv. um einkasölu á útfluttri síld, þá vil jeg taka það fram enn út af því, sem hv. þm. Dal. sagði, að jeg get ekki sjeð, að neinstaðar í frv. sje ráð fyrir því gert, að ríkissjóður eigi að leggja einkasölunni rekstrarfje eða taka á sig neina fjárhagsáhættu af rekstri hennar. (SE: Jeg sagði, að það mundi geta farið svo). Mjer virtist hv. þm. ganga út frá því. En það er einber fjarstæða. Það er nefnilega sá stóri munur á þessu frv. og frv. um síldarbræðslustöðvar, að þar á ríkissjóður að taka á sig stórmikla fjárhagsáhættu, en með þessu frv. alls enga. Enda er skýlaust ákvæði um það í frv., að kostnað allan við þennan rekstur eigi að greiða af síldarafurðum. Það er nú svo, eins og kunnugt er, að skoðanir skiftast mjög um það, hvort heppilegra sje, að frjáls verslun ráði eða verslunin sje meira eða minna skipulagsbundin. En það er líka jafnkunnugt, að ýmsir menn, sem annars eru fylgjandi frjálsri verslun, þeir viðurkenna, að svo sje háttað um síldarsöluna, til dæmis að taka, að það sje að minsta kosti ekki alveg útilokað, að bæta mætti úr þeim göllum, sem eru fram komnir í frjálsri verslun með þá vöru, með því að skipulagsbinda söluna. Og til þess liggur fyrst og fremst sú ástæða, að markaðurinn fyrir saltsíld er ákaflega takmarkaður. Og jeg vil biðja menn að gæta þess, að bótin í þessu efni liggur að minstu leyti í því að setja einkasölu á síldina; hún liggur í hinu, að takmarka söltunina, leggja hömlur á það, að of mikið berist á þennan þrönga markað. Hv. þm. Dal. gat þess, að það væri svo mikið veitt af síld utan landhelgi af útlendingum, að það skifti litlu, hvort framleiðslan hjer væri takmörkuð eða ekki; markaðurinn offyllist fyrir því. Eftir því sem mjer er sagt um þetta, hygg jeg það sje ekki allskostar rjett að draga þessa ályktun, og það liggur í því, að sú síld, sem er veidd og söltuð úti á hafi, verður varla verkuð á þann hátt, sem markaðurinn krefst; eða það er a. m. k. miklu minni trygging fyrir því. Jeg held þess vegna, að þetta útiloki ekki alveg, að eitthvað megi vinna með þeirri aðferð að takmarka útflutning á saltaðri síld. Hinsvegar virðist mjer, að sumir menn líti ekki öfgalaust á úrlausn málsins á þessum grundvelli, og vil jeg í því sambandi benda á það, sem fram kom í nál. meiri hl. Þar segir svo: „Það er óneitanlegt, að dráttur sá, sem orðið hefir á skipulagi á sölu síldar, hefir bakað landsmönnum ómetanlegt tjón“. — Jeg geng inn á, að það geti legið einhver úrbót í þeim væntanlegu takmörkunum á útflutninginum, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En að það liggi alt í skipulagsleysinu, hvernig farið hefir um sölu síldar, það hygg jeg sjeu öfgar. Það er vitanlegt um þennan atvinnurekstur sjerstaklega, að það kemur svo ákaflega margt til greina, sem gerir hann hæpinn; það fyrst og fremst, hvað misbrestasöm veiðin er, og svo er alkunnugt, að þessi atvinnurekstur er afskaplega kostnaðarsamur.

Svo eru aðrir, sem halda því fram, að ekki sje til neins að skipulagsbinda söluna nema jafnframt verði komið upp síldarbræðsluverksmiðju, en það er aftur bygt á því, að ekki sjeu dregin saman seglin með síldarútgerð þá, sem nú er, heldur verði þar jafnvel færðar út kvíarnar. Þessi skoðun kom mjög greinilega fram á fundi, sem síldarútvegsmenn hjeldu hjer í bænum nýlega, þar sem samþ. var tillaga sú, er háttv. minni hl. sjútvn. vitnar í í nál. sínu og sem hann leggur, að því er virðist, til grundvallar fyrir því að leggjast á móti frv. Um þessa tillögu segir minni hl.: „Till. þessi hefir verið send sjútvn. með tilmælum um, að nefndin beiti sjer gegn einkasölufrv., og þótt vjer leiðum hjá oss að leggja dóm á þá skoðun fundarins, að hættulegt sje að hefta frjálsa síldarverslun, fyr en landsmenn hafa fengið umráð yfir verksmiðjum, viljum við verða við ósk fundarins um að leggja til, að frv. verði felt“.

Það, sem einkennilegt er við þessa ályktun minni hl., er það, að hann leggur til, að frv. verði felt samkvæmt till. þessa fundar, án þess að leggja nokkum dóm á það, hvort till. sje á rökum bygð eða ekki.

Jeg býst nú við, að hjer sjeu öfgar á báðar hliðar og að í þessu sem öðru muni það vera svo, að á milli öfganna liggi leið til nokkurrar úrlausnar á málinu; það megi takast að finna úrræði, sem takast mætti að færa út á svið raunveruleikans. Jeg er nú enn á sömu skoðun og jeg var 1926, þegar frv. um síldarsamlag lá fyrir þinginu, að reynt sje að gera eitthvað í þessu efni; þó jeg hinsvegar hafi ekki trú á því, að takast megi að bæta úr göllunum að fullu, þá má þó vera, að eitthvað megi fyrirbyggja af þeim, og því tel jeg ekki rjett að sporna á móti tilraununum í þá átt.

Þar sem nú til er heimild í lögum frá 1926 til þess að gera ráðstafanir í þessum efnum, þá kemur nú til athugunar, hvort nauðsyn beri til að gera frekari ráðstafanir en þau lög heimila. Eins og kunnugt er, hafa þessi lög aldrei komist til framkvæmda, en það stafar af því, að þeir aðiljar, sem hrinda áttu af stað framkvæmdum, hafa ekki komið sjer saman um að beita lögunum, og því situr alt í sama farinu, án þess þó að þær ástæður, sem lágu til grundvallar fyrir því, að þau lög voru sett, sjeu horfnar. Jeg fyrir mitt leyti tel þess vegna ástæðu til að athuga það enn á ný, hvort ekki væri rjett að gera tilraun í þá átt, sem bent er til í þessu frv., en samkvæmt því verður þegar á þessu ári gerð tilraun með skipulagsbundna verslun á saltsíldinni.

Frv. það, sem hjer liggur fyrir, er að mínum dómi stórgallað; hvort jeg get fylgt því út úr deildinni, fer eftir því, hvort gallar þeir, sem jeg tel á því vera, verða lagfærðir eða ekki.

Jeg skal þá fara nokkrum orðum um einstök atriði frv. og benda á gallana og þær leiðir, er jeg tel líklegastar til að bæta úr þeim.

Það er þá fyrst, að í frv. þessu er gert ráð fyrir, að stjórn einkasölunnar verði svo skipuð, að val þeirra manna, sem veita eiga fyrirtækinu forstöðu, verði meira eða minna pólitískt. Og að einu leyti er þar gengið inn á nýja og hjer óþekta braut, þar sem svo er ákveðið, að einn fulltrúinn skuli tilnefndur af Verkalýðssambandi Norðurlands. Það er mjög vafasamt, hvort slík íhlutun gefst vel. En hitt virðist afareðlilegt, að þeim mönnum, sem verða að láta af hendi framleiðsluvöru sína í hendur einkasölunni, síldarútvegsmönnum, sje trygður rjettur til þess að hafa íhlutun um skipun stjórnarinnar. En það leiðir af sjálfu sjer, að þetta nær því aðeins tilgangi sínum, að um sje að ræða almenna þátttöku síldarútgerðarmanna, en þau missmíði, sem á því eru í frv., minnist jeg á síðar. Í samlagslögunum frá 1926 er gert ráð fyrir, að ríkisstjórnin skipi stjórn samlagsins til 4 ára, en útgerðarmenn taki svo stjórn þess í sínar hendur smátt og smátt. Eftir því fyrirkomulagi, sem farið er fram á í frv., er það augljóst, að stjórn þessa fyrirtækis hlýtur að verða pólitísk. En þegar svo er um hnútana búið, þá er ólíkt minni trygging fyrir því, að til grundvallar fyrir vali manna í stjórn fyrirtækisins verði lagðir hæfileikar þeirra og þekking á því starfi, sem þeir eiga að inna af hendi, en ef þeir menn, sem þessa atvinnu reka, hefðu valið í sinni hendi. Þetta atriði tel jeg, að fullkomlega verði að taka til athugunar, því að það dregur úr örygginu fyrir því, að þessi tilraun að skipulagsbinda söluna nái tilgangi sínum. Það gæti meira að segja tekist svo til, að það eitt, hvernig stjórnin væri mönnum skipuð, yrði þess valdandi, að það væri ver farið en heima setið.

Þá eru það ákvæðin um útnefningu síldarútvegsmanna á einum fulltrúa í stjórnina, sem jeg vildi minnast á. Það er gert ráð fyrir, að þessi fulltrúi skuli útnefndur af Útgerðarmannafjelagi Akureyrar. Hvað þetta snertir, að binda nefndarskipunina við eitt ákveðið útgerðarmannafjelag á Norðurlandi, er það að segja, að jeg er alveg undrandi yfir, að slík till. skuli koma fram á Alþingi, því að hjer er um landsfyrirtæki að ræða, að svo miklu leyti, sem landsmenn taka þátt í síldveiðum. Hjer eiga því allir, sem síldarútveg stunda, velferð sína undir. Með þessu ákvæði er því svo greinilega gengið á snið við það, sem telja verður sjálfsagt, að undrun sætir. Og jeg er alveg undrandi á því, að meiri hl. sjútvn. skuli hafa getað lokað svo augunum fyrir jafnaugljósum ágalla sem þessum, að hann skuli ekki koma með neina till. til þess að kippa þessu í lag. Hann fer í kringum þetta atriði eins og köttur í kringum heitan graut, gerir aðeins vesallegar tilraunir til þess að verja þetta óverjandi ákvæði, með því að vera að tala um landfræðilega legu í sambandi við síldveiðarnar, sem ekkert kemur þessu atriði málsins við og er því helber vitleysa. Það er þess vegna alveg sjálfsagður hlutur, að allir síldarútvegsmenn á landinu verða að eiga jafngreiðan aðgang að því að taka þátt í vali eins fulltrúans í stjórnina. Eins er það, ef á annað borð á að fara að láta verkalýðssamböndin hafa íhlutunarrjett um val á einum manni í stjórnina, þá verður þetta ákvæði laganna að hafa víðara svið, því að það eru fleiri verkamenn en verkamenn á Norðurlandi, sem vinna við þennan atvinnuveg.

Þá vil jeg taka undir það, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði um ákvæði 6. gr. frv., þar sem nefndinni er heimilað að taka eignarnámi bryggjur o. fl., sem einstakir menn eiga eða ráða yfir, ef einkasalan þarf á því að halda. Það getur verið nokkuð harkalegt að gera þetta skilyrðislaust, því að eins og hv. þm. benti á, getur sá, sem hlut á að máli, verið búinn að gera ráðstafanir til þess að nota þessi mannvirki sjálfur, og getur því slíkt eignarnám orðið til þess að eyðileggja atvinnurekstur hans. Annars er jeg hissa á, að hv. 1. þm. S.-M. skuli ekki hafa haft opin augun fyrir þessu, því að hann er vanur að standa vel á verði fyrir kaupstaðina og rjett þeirra, þegar um eignarnám og því um líkt hefir verið að ræða.

Þá kem jeg að 4. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að umboðsmenn, skipaðir af framkvæmdarstjórunum, hafi í samráði við útflutningsnefnd og framkvæmdarstjórana alla umsjón með meðferð síldarinnar, flokkun eftir gæðum, umbúðum o. fl. Með öðrum orðum, það er verið að nema úr gildi lög um síldarmat og leggja niður opinbert eftirlit með þessum hlutum. Það má vel vera, ef valið á útflutningsnefndinni og framkvæmdarstjórunum tekst vel, þá sje þessum málum ekki ver fyrir komið á þennan hátt heldur en þeim er skipað nú. En jeg vil fá skýringu á því hjá hv. meiri hl., hvernig hann hugsar sjer að samrýma ákvæði 4. gr. við ákvæði 14. gr., þar sem svo er ákveðið, að atvinnumálaráðuneytið semji reglugerð um skoðun á síld og nánari framkvæmdir einkasölunnar. Jeg fæ ekki sjeð, hvaða þýðingu það í sjálfu sjer getur haft að heimila stjórninni að gefa út slíka reglugerð; mjer finst það beinlínis geta orðið til hins verra. Það gæti auðveldlega komið fyrir, að fljótlega þyrfti að breyta til um verkunaraðferð á síldinni, sjerstaklega ef nýr markaður fengist, því kröfurnar um verkun síldar og matvæla yfirleitt eru mjög mismunandi í hinum ýmsu löndum. Það mundi reynast mjög óheppilegt fyrirkomulag, ef bíða þyrfti eftir reglugerðarbreytingu í hverju einstöku tilfelli, slíkur seinagangur sem er á öllum opinberum afgreiðslum. Annars óska jeg, að nefndin taki þetta til athugunar.

Þá er ákvæði í þessari sömu grein, undir tölulið 4., sem jeg vildi vekja athygli nefndarinnar á. Jeg býst við, að það vaki fyrir fleirum en mjer, að einn af kostum þess að gera þetta skipulag á síldarsölunni sje sá, að á þann hátt sje ef til vill hægt að vinna meira að útbreiðslu síldarmarkaðsins. Þegar rætt var um síldarsamlagslögin 1926, var talað um, að verja mætti 5% af arðinum af síldarsölunni til nýrrar markaðsleitar. í 4. lið 4. gr. frv. þessa er sagt, að gera skuli tilraunir með nýjar aðferðir við verkun síldar og opnun nýrra markaða. Nú vil jeg spyrja hv. meiri hl., hvort þetta eigi að byggjast á ákvæðum 8. gr. frv., að ekki megi verja nema ¼% af andvirði síldarinnar til þessara hluta. Annars virðist mjer, eftir orðalaginu á þessari grein, að þetta geti verið töluvert tvírætt. Mjer skilst helst, að annaðhvort hafi framkvæmdarstjórnin alveg óbundnar hendur í þessum efnum, eða þá, að hún megi ekki verja nema ¼% af verði síldarinnar til markaðsleitanna. En sje svo, að aðeins megi verja ¼% af síldarverðinu í þessu skyni, þá verð jeg að segja, að mjög hafi dregið, úr áhuga þeim, sem verið hefir meðal útgerðarmanna fyrir því að vinna að auknum síldarmarkaði. Hitt tel jeg líka varhugavert, að leggja það alveg á vald útflutningsnefndarinnar, hve miklu fje hún verji til þessara hluta.

Í 8. gr. stendur: „Sjóðum þessum skal stjórnað af útflutningsnefnd samkvæmt reglugerð, sem samin verður um meðferð þeirra, staðfestri af atvinnumálaráðherra“. En 4. lið 4. greinar finst mjer mega skilja svo, að þar hafi nefndin óbundnar hendur. Hvernig beri að skilja þetta, vildi jeg fá upplýst hjá nefndinni. En sem sagt jeg legg áherslu á þetta markaðsleitarákvæði, því að jeg býst ekki við, að kostir þessa fyrirkomulags sjeu svo miklir, að draga megi úr þeim atriðum, sem með mestum líkum má telja kosti þess.

Af fagmönnum á þessum sviðum hefir verið bent á ýmsa agnúa, sem verða myndu á framkvæmd sumra ákvæða frv. Og meðal annars hefir það verið gert af hv. 2. þm. G.-K., og virtist mjer hann hafa mikið til síns máls, t. d. í því, að of skamt væri gengið í till. meiri hl. að afla útvegsmönnum rekstrarfjár. Á þetta legg jeg samt enga áherslu, því jeg tel það þjóðarskaða að blása þennan atvinnuveg svo út, að framleiðsla hans verði svo mikil, að það eitt út af fyrir sig verði til þess að lækka afurðaverðið, og eins og stundum hefir átt sjer stað, að gera svo og svo mikið af síldinni verðlaust. Það á við hjer sem annarsstaðar, að kapp er best með forsjá, og það er því meiri nauðsyn, að hjer sje í þessu efni fullrar forsjár gætt, þar sem síldarútvegurinn er landbúnaði okkar þungur í skauti.

Brtt. hv. meiri hl. eru smávægilegar. Þær fjalla eingöngu um smærri fyrirkomulagsatriði. Annars býst jeg við, að auk þessa, sem jeg hefi nú bent á, þá sje ýmislegt í þessu máli, sem þörf sje að athuga nánar, og það rækilega, ef það á að ganga fram.

Hv. 2. þm. Eyf. ber fram brtt., sem jeg er honum sammála um. Því verður ekki neitað, að Siglufjörður er miðstöð síldveiðanna á Norðurlandi og að sjálfsagt er í því tilfelli, sem till. hljóðar um, að taka tillit til þeirrar aðstöðu.

Það er svo ekki fleira, sem jeg vildi segja að þessu sinni. En jeg vænti þess, að hv. nefnd taki til athugunar þau atriði, sem jeg hefi bent á, og þó að hún sje ekki viðbúin að gefa svör við því nú þegar, þá geri hún það þó síðar. Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi borið fram, mun jeg greiða frv. atkv. til 3. umr. Hvort jeg fylgi því út úr deildinni eða ekki, fer eftir því, hvað verður lagað af þeim misfellum, sem jeg tel á því vera.