02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4036 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

77. mál, einkasala á síld

Sigurður Eggerz:

Mjer fanst hv. 1. þm. S.-M., hvað rökfimur, sem hann annars er, ekki takast að hrekja neitt af því, sem jeg hefi haldið fram í þessu máli.

Fyrsta atriðið, sem hann mintist á, var það, hvort stefna frjálsrar verslunar hefði verið brotin með þessu frv. Á því er enginn vafi. En við það er auðvitað ekkert að athuga fyrir þá, sem ekki standa á grundvelli frjálsrar verslunar. Jeg hefi hvað eftir annað spurt hæstv. stj. að því, hvort hún og flokkur hennar stæði á þessum grundvelli, en aldrei fengið neitt svar. Hinsvegar minnist jeg þess, að fyrir 3 árum, þegar jeg var í Ed., spurði jeg einn af foringjum Framsóknarflokksins, núverandi hæstv. dómsmrh., um aðstöðu flokksins í þessum málum, og mjer skildist, að flokkurinn stæði á grundvelli frjálsrar verslunar, með nokkrum takmörkunum þó, t. d. einkasölu á tóbaki. Ef flokkurinn stendur ekki á þessum grundvelli, er engin von, að hann geri mikið úr því, þó að frá honum sje vikið, en standi flokkurinn hinsvegar á grundvelli frjálsrar verslunar, er eðlilegt, að við hinir spyrjum, þegar einokun er á ferðinni, af hverju eigi að víkja af þessum grundvelli. Jeg sýndi fram á það, að með einkasölu er ekki hægt að ná því marki, sem er aðalatriðið í þessu frv., að takmarka söltun, svo að markaðurinn yrði betri. Það liggur í því, að við ráðum ekki einir yfir síldinni. Síðasta ár voru veiddar utan línu 190 þús. tn. Ef nú söltunin utan línu eykst, þá getur hún orðið svo mikil, að sú síld, sem söltuð er þar, yrði ein ærið nóg til þess að fylla markaðinn. Ef við ætluðum að takmarka markaðinn við 250 þús. tn., gæti niðurstaðan orðið sú, að alt yrði veitt utan línu. Niðurstaða einkasölunnar verður sú, að þeir, sem veiða utan línu, fá nóga hvöt til að sækja veiðina fastara. Þar sem takmarka á söltunina innan línunnar, þá mundi það ýta undir söltun þeirra utan línunnar.

Þá er það mjög líklegt, að þeir, sem ráða yfir markaðinum í Svíþjóð, muni reyna, þegar alt er komið á eina hönd, að halda verðinu. niðri, þangað til einokunin er búin að selja. En það verður hún að gera sem fyrst, ef leið hv. 1. þm. S.-M. er farin og einkasalan fær ekkert fje til umráða. Það má í þessu sambandi minna á kjötsöluna til Noregs, eins og jeg gerði hjer að framan, en þá benti jeg á, að kjötverðið hefði lækkað þangað til búið var að selja, en svo fór verðið að hækka.

Mjer skildist á hv. frsm., að hann legði ekki mikið upp úr gömlu mörkuðunum og vildi opna nýja. Það er auðvitað æskilegt að opna nýja markaði. En ætli veiti af gömlu mörkuðunum líka?

Háttv. frsm. neitaði því, að nokkur áhætta fyrir ríkissjóð væri falin í einkasölunni. En ef einkasalan fær ekkert fje til umráða, mundi það leiða til þess, að ýmsir framleiðendur yrðu að hætta við þessa atvinnugrein. Frá Siglufirði ganga t. d. 100 reknetabátar. Hvaðan eiga þeir að fá fje? Það verður ekki gengið framhjá því, ef ríkið á að taka fyrir kverkarnar á atvinnu landsmanna. Hv. 2. þm. G.-K. spurði í þessu sambandi, hvaða lánsmöguleikar væru nú fyrir hina smærri framleiðendur. Jeg get strax bent hv. þm. á, að aðstaða þessara manna var auðvitað önnur til þess að fá lán meðan þeir rjeðu yfir síldinni og gátu veðsett hana; en þegar einokunin er komin á, þá er búið að taka veðið af framleiðendunum.

Hv. frsm. vitnaði í það, hvað einkasalan hefði gefist hjer vel. Jeg skal ekki fara út í það, en mjer finst rjett að geta þess, að svo virðist, sem einkasalan á tóbaki, sem hjer var borin upp, muni ekki verða tekin upp aftur. Og jeg vil taka það fram, að jeg segi ekki þetta til ámælis hæstv. stjórn, heldur til hróss, en allmikið bendir þó í þá áttina, að trúin á tóbakseinkasölunni sje farin að minka. Hv. frsm. sagðist ímynda sjer, að ef einkasalan kæmist á, mundu þeir, sem veiða fyrir utan línu, eiga erfiðara með að sækja veiðina en nú, vegna þess, að þeim yrði ekki leyft að veiða í verksmiðjur. En gerir einkasalan nokkra breytingu í þessu efni? (SvÓ: Jeg sagði, að stj. hefði þetta í hendi sinni). Það gilda sömu lög og áður um þetta efni, og hv. þm. hefir borið þetta fram af því að hann var algerlega rökþrota. En það sýnir, hvað málstaður einkasölunnar er vondur, þegar jafnrökfimur maður og hv. 1. þm. S.-M., sem hefir leitað að rökum fyrir einkasölunni í marga daga og nætur, getur ekki komið með nokkur frambærileg rök.

Í 5. gr. frv. stendur: „Framkvæmdarstjórninni er heimilt að taka fje að láni út á síldina, jafnótt og hún er fullverkuð til útflutnings, og skifta því í rjettum hlutföllum milli síldareigenda“ o. s. frv. Jeg sje ekki betur en að einkasalan sje í þessu tilfelli lántakandi. Og ef lánið er ekki greitt, — stendur þá ekki ríkissjóður á bak við framkvæmdarstjórnina og verður að greiða lánið? Jeg skil ekki í því, að þeir menn, sem standa fyrir einkasölunni, hvað góðir sem þeir kynnu að verða, fari að taka á sig hallann. Í b-lið 6. gr. stendur: „Framkvæmdarstjórninni er heimilt að liðsinna viðskiftamönnum einkasölunnar um útvegun á tunnum og salti til verkunar á síldinni, ef orðið getur án fjárhættu fyrir einkasöluna“. Hvað sýnir nú þetta? Það sýnir, að þeir góðu menn, sem bera einkasöluna fyrir brjósti, sáu, að það var óhugsandi að koma svona stórverslun á laggirnar án þess að hafa fje. Enda stríðir það á móti öllum lögmálum í viðskiftum að reka fyrirtæki án fjár. En svo til þess að gefa eitthvað í aðra hönd er þetta sett, að liðsinna. Hvaða þýðingu á þetta liðsinni að hafa? Einkasalan á einungis að segja til þess, hverjir sjeu góðir og hverjir sjeu ekki góðir. Eins og það sje nokkur hjálp. Bankarnir geta sjálfir aflað sjer upplýsinga um það. Einkasalan hefir ekki vitund betri skilyrði til að gefa slíkar upplýsingar heldur en bankarnir hafa sjálfir.

Það er sorglegt, að þótt hægt sje að hrekja allar ástæður einkasölumanna, þótt einokunarmennirnir geti ekki komið fram með neitt nýtilegt máli sínu til stuðnings, þá er máli þessu trygður meiri hluti hjer á Alþingi. Mjer blandast ekki hugur um, að þegar einokunin er komin á laggirnar, þá sýnir það sig, að hinir smærri, fátækari atvinnurekendur neyðast til að hætta sinni atvinnu. En þegar fjeleysið fer að kreppa að þeim, þá er jeg ekki í vafa um, að þeir koma fram með harðar kröfur um, að þeim verði ekki kastað út á gaddinn. Og þeir hafa fullan rjett til að krefjast þess, þegar hið opinbera gerir ráðstafanir til að grípa fyrir kverkar þeim, að hið opinbera veiti þeim stuðning, til að þeir geti haldið áfram atvinnu sinni. Það mun hæstv. stjórn fljótt fá að finna, að stuðningsflokkur hennar líður ekki, að farið sje svona með þessa menn. Hann mun heimta, heimta, heimta, og er hann hefir heimtað þrisvar sinnum, þá opnast ríkissjóðurinn.

Hv. frsm. meiri hl. brosir. Það er óþarfi. Þetta er stutt svo föstum rökum, að ekki er hægt að brosa þau niður. Allir þdm. vita, að ekki er hægt að reka verslun án þess að hafa fje; það er ekki hægt að framleiða án fjár. Það er ekki nóg að liðsinna framleiðendum með því að segja, að þessi sje góður, en þessi ekki góður. Það dugir ekki; það opnar ekki bankana.

Jeg hefi farið mildilega með frv. þetta. Jeg hefi ekki minst á margt, sem ástæða væri þó til að tala um. — Það mun sýna sig, að í kringum þessa einokun vex upp spilling, þótt vel verði af stað farið. Hv. 2. þm. G.K. mintist á eina freistinguna. Ef framkvæmdarstjórar einkasölunnar eiga að ákveða, hvenær hætta skuli að salta, þá gæti farið svo, að þeir ljetu þar stjórnast af eigin hagsmunum. Þeir gætu fengið sjer leppa og gert út sjálfir. Þeir eru þá ekki heiðarlegir menn lengur, en í þessar stöður geta valist menn, sem eru upp og ofan, og það er ekki hægt að ganga framhjá þessu.

Jeg sá nýlega í blaði munnmælasögu um gamla skrattann. Þegar hann þurfti að koma sínu máli fram, koma sjer í mjúkinn hjá einhverjum, þá felur hann hornin og klaufirnar og kemur fram eins og prúðmenni og lokkar og tælir, eins og kunnugt er. Eins er það með einokunarskrattann. Nú sýnir hann á sjer bestu hliðina, hvíslar mjúklega til hægri og vinstri, en þegar hann er búinn að hvísla allri versluninni inn á eina hendi, þá mun koma að því, að hann sýni bæði hornin og klaufirnar. Og þá munu menn sjá, hvort ekki er skyldleiki milli gömlu einokunarinnar og nýju einokunarinnar.