02.04.1928
Neðri deild: 63. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4085 í B-deild Alþingistíðinda. (3600)

77. mál, einkasala á síld

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg vil svara því fyrst, sem hv. þm. Borgf. sagði síðast. Hann taldi að það, að jeg og hv. þm. Vestm. bærum fram brtt. við frv., sýndi, að við gætum sætt okkur við frv. Jeg verð að segja, að mig rak alveg í rogastans, þegar jeg heyrði aðra eins firru frá jafnreyndum og greindum þm. og hv. þm. Borgf. er. Það er alkunnugt og algengt, að þótt menn vilji ekki una vissu frv., þá reyna þeir að lagfæra það með brtt. sínum og greiða atkvæði á móti því á eftir. (PO: Það er mjög óvanalegt). Jeg er ekki gamall þingmaður, en jeg veit ró, að hv. þm. Borgf. hefir gert þetta sjálfur. (PO: Nei). Þetta er heldur ekki annað en heilbrigð skynsemi. Betri er hálfur skaði en allur, og ef líkur eru til, að frv. nái fram að ganga, þá reyna andstæðingar auðvitað að lagfæra það eins og hægt er, áður en svo verði. Það er því broslegt að vera að tala um stríð milli holdsins og andans, þótt við berum fram brtt. til að bæta þetta vankantaða frv. og greiðum svo atkv. á móti því, en ekki með því, eins og hv. þm. Borgf.

Hann sagði, að jeg væri að afrækja frv. frá 1926 með því að leggjast á móti þeirri heimild að banna söltun á veiðitímanum. Hann sagðist ekki minnast þess, að jeg hefði verið á móti slíku banni þá. Jeg þykist vita, að hv. þm. segi þetta satt, að hann muni ekki eftir þessu. En jeg verð að ætlast til þess af honum, að hann trúi því, sem jeg segi um afstöðu sjálfs mín til þessa máls, og jeg veit, að hann muni gera það. Afstaða mín til þessa ákvæðis var sú sama þá og nú, að það var mjer þvert um geð.

Hv. þm. Borgf. játaði í fyrri ræðu sinni, að ráðstafanir þær, sem gera ætti samkv. frv. áður en söltun hefst, væru tryggilegar, en þó ekki nógu tryggilegar. Jeg spurði, hvaða fyrirbrigði gætu komið fyrir á miðri vertíð, sem gerðu nauðsynlegt að stöðva alla söltun. Hv. þm. benti á það, sem einnig var líklegast, að oss væri nauðsynlegt að afla oss vitneskju um afla Norðmanna. Jeg tók það fram, að slíka vitneskju væri ekki hægt að taka til greina. Það er hreint og beint að gefa Norðmönnum undir fótinn um að auka sína söltun, eftir því sem við minkum söltun hjá oss. Jeg held heldur ekki, að hægt sje að fá þessa vitneskju, svo ábyggileg sje. Það er hægara að vita um síldarafla Íslendinga sjálfra heldur en hvað einstök erlend skip afla, þótt þau komi stöku sinnum til hafna, og það er með öllu ómögulegt að fá vitneskju um heildarafla þeirra á ákveðnum degi. Ef það væri auðvelt, þá ætti einnig að vera auðvelt fyrir innlenda síldarframleiðendur að dæma um, hvort halda bæri áfram söltun eða ekki. En reynslan sýnir, að menn vita sjaldan, hvað til síns friðar heyrir í þessu efni og kunna sjer ekki hóf um síldarsöltun.

Hv. þm. taldi, að jeg hefði sagt, að nauðsynlegt væri, að því væri haldið leyndu, hve mikið væri saltað. Það sagði jeg ekki, en hitt sagði jeg, að Norðmenn mættu ekki hafa ástæðu til þess að halda, að við höguðum okkar söltun eftir því, hvað þeir gerðu. Við verðum að skapa okkur venju og fara svo eftir henni án tillits til þess, er Norðmenn gera á hverjum einstökum veiðitíma.

Jeg fæ ekki sjeð, að það þurfi að valda neinu hneyksli, þó söltun verði umfram neytslu. Því ef svo fer, að söltun verður meiri en góðu hófi þykir gegna og ekki selst alt til Svíþjóðar, þá má selja síldina annarsstaðar, þó fyrir lægra verð sje. Þetta fæ jeg ekki sjeð, að komi nokkuð í bág við það, sem heimilað er í lögunum, því útflutningsnefndin er ekki bundin við neitt ákveðið verð, nje heldur er það ákveðið, hvað miklu fje skuli varið til markaðsleitar. Henni er einungis falið að ráðstafa þessu á sem hagkvæmastan hátt. Ef síldin því er meiri en neytsla Svía krefur, þá er sjálfsagt að leita eftir markaði annarsstaðar. Mitt ráð dugir því fullkomlega, ef það er krufið til mergjar.

Þá sagði hv. þm., að það væri lítill búhnykkur að salta mikið af síld, ef verðið væri lágt. Þetta er vitanlega alveg rjett, en jeg vil benda honum á það, að ekki er hægt að girða fyrir, að slíkt geti hent sig, því það er ekki hægt að segja um það fyrirfram, hvað sje hæfilegt að salta mikið. Slíkt kemur ekki greinilega í ljós fyr en eftir á.

Loks sagði hv. þm., að það væri rökrjett áframhald af aðstöðu okkar hv. þm. Vestm. til laganna frá 1926, að við værum nú með einkasölunni, þó ekki væri jafnframt sett upp síldarbræðslustöð. Jeg skal játa það, að ef ekkert hefði breytst frá því 1926, þá hefði alveg eins mátt koma upp einkasölu án bræðslustöðvar 1928 eins og 1926. En þá var alt öðru máli að gegna en nú, eins og jeg áður hefi sýnt og sannað.

Svo vildi hv. þm. halda því fram, að sáralítill munur væri á lögunum frá 1926 og þessu frv., er hjer liggur fyrir. Sagði þó, að það væri rjett, að eftir þessu frv. yrði stjórn fyrirtækisins svo skipuð, að þeir menn, er ættu sæti í henni, ættu ekkert undir því, hvernig gengi, en eftir lögunum frá 1926 skyldu þeir stjórna fyrirtækinu, er mest áttu undir því komið, að vel gengi.

Að endingu ætla jeg svo að staðhæfa það, að afstaða mín til þessa máls nú er fyllilega í samræmi við þá skoðun, sem jeg hefi áður haft á þessu máli, en framkoma hv. þm. er ekki í samræmi við það, sem hann hefir áður haldið fram. Það er það, sem skilur á. milli okkar. Sje jeg svo ekki frekari ástæðu til þess að þreyta hv. þdm. með þessu, enda er mjer það ekkert keppikefli að deila frekar um þetta mál, og síst við minn ágæta flokksbróður, hv. þm. Borgf.