20.03.1928
Neðri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4121 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

131. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Jóhann Jósefsson:

Jeg vil með fám orðum gera grein fyrir afstöðu okkar tveggja nefndarmanna, mín og hv. 2. þm. G.-K. Við höfum skrifað undir nál. með fyrirvara, bæði um orðalagið og ýmsar skoðanir, er þar koma fram, og einnig áskildum við okkur rjett til að bera fram fleiri brtt. en meiri hlutinn gat orðið ásáttur um.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir nú talað hjer langt mál og deilt á nefndina, eða meiri hluta hennar. Og þar sem við tveir, sem fram berum brtt. á þskj. 520, höfum þegar áður lýst okkur öðrum nefndarmönnum ósammála í ýmsum greinum, sje jeg ekki ástæðu til að deila við hv. þm. um það, hvorir rjettara hafi fyrir sjer, vísindamenn eða sjómenn, um gagnsemi eða skaðsemi dragnótarinnar. Geri jeg og ráð fyrir, að hv. frsm. meiri hl. reyni að gera hreint fyrir sínum dyrum sjálfur. — Hitt vita allir, að mikill ágreiningur er um skaðsemi eða skaðleysi dragnótar milli þeirra manna, sem ættu að hafa fult vit og þekkingu á málinu. Og þótt við hv. 2. þm. G.-K. ætlum ekki að leggja neinn dóm á þá deilu, þá viljum við þó fylgja banni gegn notkun þessa veiðarfæris svo langt, sem það skaðar ekki landsmenn sjálfa. Hv. 3, þm. Reykv. getur getið sjer nærri um, að við tökum tillit til þess, hvað skaðar eða batar þá menn, sem fengist hafa við þessar veiðar. Við erum báðir þingmenn fyrir kjördæmi, sem hjer hafa hagsmuna að gæta. Það er vitanlegt, að undanfarin ár hafa kolaveiðar ekki verið Íslendingum arðvænlegar, nema þriggja mánaða tíma á haustin. Þá hafa fiskimenn við Faxaflóa getað stundað veiðina, og hafa þeir selt kolann í togara eða falið þeim að koma honum í peninga fyrir sig. Í Vestmannaeyjum hafa nokkrir menn fengið sjer þetta veiðarfæri. Þó að þeir fengju nokkurn afla, hefir verið ilt að fá sómasamlegt verð fyrir hann yfir heitustu. mánuði ársins. Helst hefir verðið hækkað á haustin, einmitt þá mánuði, sem við hv. 2. þm. G.-K. viljum heimila veiðina. — Því verður ekki neitað, að útlendingar gera talsvert mikið að því að hagnýta sjer þessa veiði, þannig, að landsmenn hafa af því ekkert gagn.

Þegar alt er athugað, sýnist því vera mikið álitamál, hvort ekki sje rjett að setja dálitlar hömlur á veiðar með þessu áhaldi, hömlur, sem þó taki ekki til þess tíma, sem landsmönnum sjálfum er hentast að stunda veiðarnar og notadrýgst. — Hv. frsm. hjelt því fram, að enn mundu ekki margir hafa aflað sjer þessa veiðarfæris meðal innlendra manna. Það er rjett, að þeir eru ekki mjög margir, og fjarri því, að það sje komið í hvern bát. En jeg hygg, að það sjeu einmitt framsæknustu mennirnir í hverri veiðistöð, brautryðjendurnir á sviði fiskiveiðanna, sem fyrstir afla sjer nýrra veiðarfæra. Mjer virðist ekki rjett, að löggjafinn leggi stein í götu þessara manna, frekar en nauðsyn krefur. Fyrir það, að bestu menn hafa þreifað sig áfram um notkun þorskaneta, um lóðaveiði og máske dragnótaveiði, hefir opnast vegurinn að meiri atvinnu og betri fyrir fleiri menn á þessu sviði. Tilgangurinn með brtt. okkar hv. 2. þm. G.-K. er ekki annar en sá, að ekki sje lokað möguleikunum fyrir bjargræði landsmanna á þessu sviði þann tíma ársins, sem mest er nauðsynin. Get jeg lýst yfir því, að ef brtt. okkar verða ekki samþ., sjáum við okkur ekki fært að fylgja frv. Enda sýnist nógu langt gengið með því að banna dragnótaveiði með öllu 9 mánuði ársins. Einnig gerum við ráð fyrir, að heimildarlögin frá 1923 verði áfram í gildi, svo að þær sýslur, sem álitu það nauðsynlegt, geti bannað dragnótaveiði fyrir sínu landi.

Mjer sýnist ekki ástæða til að blanda mjer í þá deilu, sem er í að sígi milli hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) og háttv. flm. frv. (JörB og BSv), sem nú fylkja liði og búast til orustu.