04.04.1928
Neðri deild: 65. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4258 í B-deild Alþingistíðinda. (3710)

132. mál, hlunnindi fyrir lánsfélög

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Jeg get vísað í nál, fjhn. um ástæður fyrir því, að nefndin mælir með, að þetta frv. verði samþykt. Hún felst á, að skortur sje á lánsfje, og þessi leið, sem frv. fer fram á, er þekt annarsstaðar og hefir þótt reynast vel. Nefndinni þykir því rjett, að frv. nái fram að ganga með þeim breytingum, sem hún vill gera á því.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er við 1. gr. A-liður tillögunnar er þess efnis, að á eftir orðinu „fasteignalánsfjelög“ komi innan sviga „Kreditforeninger“, til þess að taka af allan vafa um, að átt sje við það, sem Danir nefna þessu nafni. Eftir tillögu nefndarinnar á að falla niður 3. gr., og er b-liður fyrstu brtt. um það, að fyrir „2.–4.“ í niðurlagi fyrstu greinar komi „2.–3.“. Önnur brtt. er um það, að 3. gr. falli niður. Í 3. gr. er svo um mælt, að heimilt sje að verja fje ómyndugra og opinberra sjóða til þess að kaupa vaxtabrjef fjelagsins. Nefndinni þykir óþarft að áskilja fjelaginu fyrirfram rjett til þess að ávaxta slíkt fje. Það er rjettara, að þær lánsstofnanir, sem fyrir eru, haldi sínum rjetti óskertum að þessu leyti, enda væri þetta ekki til þess að auka starfsfje í landinu.

Þriðja brtt. nefndarinnar er um það, að flytja 4. gr. í sæti 3. gr. Loks er fjórða tillagan þess efnis, að nýrri grein sje bætt inn, þar sem ákveðið sje, að lögin falli úr gildi, ef heimildin hefir ekki verið notuð fyrir 1. janúar 1930. Nefndinni þykir ástæðulaust að láta heimildina standa um ótakmarkaðan tíma, enda er líklegt, að ef vonir hv. flm. um fjáröflun rætast, geti lögin verið komin í framkvæmd fyrir 1. janúar 1930.