27.03.1928
Efri deild: 58. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4283 í B-deild Alþingistíðinda. (3740)

82. mál, áfengislög

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð alment um 13. gr. Satt að segja held jeg, að hv. 3. landsk. ætti vel að geta sætt sig við, að frv. standi óbreytt, og mjer þætti fyrir mitt leyti nokkru verra, ef greinin yrði feld niður. Tilgangur hennar er að greiða fyrir því, að lögreglan geti haft hendur í hári áfengissalanna. Og lögreglan á við svo mikla erfiðleika að stríða, ekki síst hjer í Reykjavík, að ekkert má láta ógert til að styðja hana.

Það er alveg rjett hjá hv. 3. landsk., að töf sú, er úrskurður hefir í för með sjer, getur oft orðið til þess, að þeir grunuðu vari sig og sleppi úr greipum lögreglunnar. Og í framkvæmdinni mundi þetta oft hafa þau áhrif, að lögreglustjóri fyrirskipaði húsrannsókn án þess að hafa áður gefið út dómsúrskurð, enda er hann í sjálfu sjer þýðingarlítill, þegar hvorttveggja er á valdi sama manns.

Þess er áreiðanlega mikil þörf að kreppa að þeim mönnum, sem gera sjer brot gegn áfengislögunum að atvinnu. Það hefir enn ekki tekist nægilega, og valda seinar aðgerðir frá hálfu hins opinbera nokkru um.

Í stjórnarskrárákvæði því, sem hv. 3. landsk. mintist rjettilega á, er tekið fram, að undanþágur megi veita frá því með sjerstökum lögum. Og sú eina undantekning, sem farið hefir verið fram á, er um áfengislögbrjótana. Þeir eru nú löggæsluvaldinu manna erfiðastir. Tel jeg hið mesta ólán, ef greinin yrði feld niður, því að þá yrði alt erfiðara um framkvæmd laganna.