20.03.1928
Efri deild: 52. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4328 í B-deild Alþingistíðinda. (3790)

103. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson):

Fyrir þeim breytingum á Landsbankalögunum, sem felast í þessu frv., er gerð grein í nál. meiri hl. á þskj. 477 og þar vikið nánar að því, hvernig á þessum breytingum stendur.

Í sambandi við þessar breytingar á lögunum verður ekki hjá því komist að víkja nokkru nánar að meðferð þessa máls á undanförnum þingum, þrátt fyrir það, að sú meðferð er flestum hv. þdm. í fersku minni.

Árið 1925 var skipuð milliþinganefnd í bankamálið, og skilaði sú nefnd áliti sínu á öndverðu þingi 1926. Var þetta álit allstór bók, er hafði rannsóknir nefndarinnar utanlands og innan að geyma, ásamt till. um, hvernig skipa skyldi seðlaútgáfunni. Varð niðurstaðan sú hjá meiri hluta nefndarinnar, að Landsbankinn skyldi fá seðlaútgáfuna í sínar hendur.

Áliti milliþinganefndarinnar fylgdi frv. til löggjafar um Landsbanka Íslands, er þáverandi stjórn gerði að sínu frv. og lagði fyrir þingið 1926. Einn úr milliþinganefndinni lagði fram sjerstakt álit og frv., en þær till. höfðu svo lítið fylgi hjá þjóð og þingi, að jeg sleppi því að fara frekar út í þær.

Í frv. milliþinganefndarinnar, sem stj. gerði að sínu frv., var svo ákveðið, að Alþingi skyldi kjósa 15 manna nefnd, sem hefði á hendi yfirstjórn Landsbankans. Átti þessi þingkosna nefnd að velja 4 menn í bankaráð Landsbankans, en ráðherra að skipa formann þess. Málið varð ekki útrætt á Alþingi 1926, og var það enn borið fram í svipuðu formi á síðasta þingi af þáverandi landsstjórn, og mun alment hafa verið búist við því, að stjórnin mundi fylgja frv. eins og hún hafði borið það fram. En það undarlega skeði í meðferð þessa máls í þessari hv. deild, þar sem stj. hafði óskoraðan meiri hl., að gerðar voru miklar efnisbreytingar á frv. stjórnarinnar, og sumar þess eðlis, að ekki er hægt að telja þær forsvaranlegar. T. d. var sett inn í frv. ákvæði til að takmarka ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum Landsbankans, þvert á móti skoðun alls almennings og þáverandi og fyrverandi stjórna fram að því. Meira að segja vissi jeg ekki betur en að þáverandi forsrh. og fjmrh. (JÞ) ljeti það álit uppi litlu áður, að sjálfsagt væri, að ríkissjóður tæki ábyrgð á erlendu láni handa Landsbankanum, af því að bankinn væri þjóðareign.

Jeg sje, að sagt er í nál. minni hl., að „Samkomulag“ hafi orðið um afgreiðslu bankamálsins á síðasta þingi. Jeg veit ekki, hvað meint er með því, nema átt sje við það samkomulag, sem þá varð um málið milli tveggja manna innan íhaldsfjölskyldunnar, sem staðið höfðu alla tíð á öndverðum meiði í því máli ; það var svona svipað „samkomulag“ og milli þeirra Heródesar og Pílatusar. En bæta má þó því við, að sjaldan mun talið, að alheimsfriður byggist á því, þó að þeir Heródes og Pílatus verði vinir.

Það eru því vísvitandi blekkingar að segja, að „samkomulag“ hafi orðið um afgreiðslu málsins í fyrra. Hjer í hv. deild var staðið á móti þessum breytingum af öllum andstæðingum Íhaldsmanna, svo að þar var a. m. k. ekki um neitt samkomulag að ræða. Enda var það stj. með flokksfylgi sínu, sem kom því til leiðar, að takmörkuð var ábyrgð ríkissjóðs á bankanum og að breytt var stjórnarfyrirkomulagi bankans frá því, sem bæði var í frv. stjórnarinnar og milliþinganefndarinnar.

Nú finst mjer rjett í þessu sambandi að benda á, hve harðvítugar umr. urðu um þetta má1 hjer í fyrra. Ætti það því ekki að vekja neina sjerstaka undrun hjá Íhaldsmönnum, þó að nú sjeu teknar upp að nýju þær breytingar, sem mestur ágreiningur varð um í fyrra. Það hefði kannske verið minni ástæða að gera þessar breytingar nú, ef lengra hefði liðið síðan bankalögin voru samþykt. En af því að öll skipun bankans er svo ný og ekki enn komin í fast horf, þá er auðvelt að koma þessum breytingum á. Minni hl., hv. íhaldsmenn, þurfa því ekki að kveina eða kvarta undan því, að þessar breytingar sjeu til truflunar á hinu nýja fyrirkomulagi bankans, þar sem það nýja fyrirkomulag er alls ekki ennþá að öllu leyti komið til framkvæmda.

Í frv. því, sem hjer er um að ræða, var í 2. gr. ekki gert ráð fyrir nema 2 milj. kr. stofnfje. Við nánari athugun þótti meiri hl. fjhn. þessi upphæð of lág og leggur því til í 2. brtt. á þskj. 477, að ríkissjóði sje heimilt að leggja fram alt að.3 milj. kr., sem sje viðbótarstofnfje bankanum til handa, og í 7. brtt. er ríkisstjórninni veitt heimild til að taka það fje að láni, eftir því sem þörf gerist. Í raun og veru breytist 5. gr. bankalaganna ekki neitt, því samkv. brtt. okkar verður stofnfje bankans eftir sem áður 5 miljónir króna. Af frv. stjórnarinnar í fyrra var ekki sjeð, að stjórninni bæri skylda til að leggja fram alt stofnfjeð í einu; við viljum heldur ekki skylda stjórnina til þess að leggja þetta viðbótarstofnfje alt fram í einu, en upphæð stofnfjár bankans verður, eins og áður er sagt, eins og það er ákveðið í núgildandi bankalögum. Enda álítur meiri hluti fjárhagsnefndar, að Landsbankinn þurfi að vera fjárhagslega sterkur. Og hann styrkist líka mikið við það, að ríkissjóður ber ábyrgð á honum. Og hann getur þurft á viðbótarstofnfje að halda vegna atvinnuveganna, ef framkvæmdir aukast við sjávarsíðuna og með aukinni ræktun landsins, eins og allir gera sjer góðar vonir um. Í 3. brtt. er lagt til, að bankinn greiði ríkissjóði 6% í vexti af því viðbótarstofnfje, sem ríkissjóður leggur bankanum, en þó aldrei meira en helming tekjuafgangsins, og engir vextir aðrir. Tekjur renna í ríkissjóð af innskotsfjenu, sem verða 2 milj. kr.

Það getur vel verið, að ríkissjóður komist hjá því fyrst um sinn að leggja fram þetta viðbótarstofnfje, enda fer um það að öllu leyti eftir því, sem bankastjórn, bankaráð og ríkisstjórn koma sjer saman um. Og komi til þess, að bankinn þurfi á viðbótarstofnfje að halda, þá verður það vitanlega einnig samningsatriði milli stjórnar bankans og ríkisstjórnarinnar, hvað mikið skuli lagt fram í einu.

Þá er næst breytingin á varasjóði bankans eins og honum er fyrir komið í 24. gr. núgildandi bankalaga. Meiri hluti fjhn. þykir fara betur á, að 3. gr. frv. sje breytt í það horf, sem segir í 4. brtt., og er það með tilliti til þess, sem jeg hefi áður sagt um vaxtagreiðslur bankans til ríkissjóðs af viðbótarstofnfjenu.

4. brtt. okkar meiri hl. fer fram á það, að í stað þess, að í frv. er ætlast til, að formaður bankaráðsins sje skipaður til 5 ára í senn, þá leggjum við til, að hann sje skipaður til 3 ára. Og er það í samræmi við það, sem nú er.

Þá er það 5. brtt. okkar meiri hl. Í frv. er gert ráð fyrir, að kosning bankaráðsins fari þegar fram á þessu þingi og að ráðh. skipi formann þess þegar lögin eru gengin í gildi. En þetta getur ekki staðist vegna þeirra ákvæða, sem í frv. eru um landsbankanefndina. Það er landsbankanefndin, sem þingið kýs, en hún aftur bankaráðið. Og við ætlumst til þess, að kosning í landsbankanefndina fari fram þegar á þessu þingi, ef frv. verður samþykt, eins og við leggjum til. Síðan kjósi nefndin bankaráð og stjórnin skipi formann þess.

Eins og áður er að vikið, var það till. meiri hluta milliþinganefndarinnar í bankamálum, að yfirstjórn Landsbankans yrði þannig skipuð, og verði þetta fyrirkomulag nú tekið upp, þá er alveg sjálfsagt, að breytingarnar komi til framkvæmda þegar eftir að lögin eru samþykt.

Nú hefi jeg gert nokkra grein fyrir tilgangi frv. og brtt. okkar meirihl.manna. En jeg hefi ekki minst á nál. minni hl. nema aðeins að litlu leyti ennþá. Þetta álit er alllangt, en jeg vil ekki segja rækilegt, af því að í þessu nál. hefi jeg rekið mig á mjög margar villur og blekkingar. Áður hefi jeg minst á ummæli hv. minni hl. um samkomulagið, sem hann segir, að hafi orðið um Landsbankalögin á þinginu í fyrra. En jeg get ekki annað en tekið til athugunar það, sem stendur neðst á 1. síðu nál. Þar er talað um mat það, sem fram átti að fara á bankanum samkvæmt lögunum í fyrra. Út af fyrir sig væri ástæða til þess að tala um, hvernig skipað var í matsnefndina af fyrv. hæstv. fjmrh. og þau laun, sem hún hefir fengið fyrir starf sitt, og má vera, að jeg komi að því síðar. En það er talsvert merkilegt, að einn nefndarmannanna á sæti í þeim minni hl., sem nú hefir gert þetta undursamlega nál. Nú skýrir hann svo frá, að matið hafi verið framkvæmt, en hæstv. fjmrh. hafi færst undan að skýra fjhn. frá niðurstöðum þess. Og sjálfur segist þessi matsnefndarmaður, hv. 1. þm. G.-K. (BK), ekki telja sjer heimilt að gera það. Þessi frásögn í nál. minni hl. er ákaflega villandi, Og það er alveg óhjákvæmilegt að leiðrjetta hana. Það, sem minni hl. leyfir sjer þarna að bera fram, er svo rangt sem mest má vera. Og það þarf svo mikla dirfsku til að halda því fram, að jeg er hissa á, að hv. 1. þm. G.-K. skuli treysta sjer til þess.

Eftir ósk minni hl. í fjárhagsnefnd var farið fram á það við hæstv. stjórn að fá upplýsingar um matið. Var leitað um það til viðkomandi ráðh. En sannleikurinn er sá, að hæstv. ráðh. hefir ekki fengið þessar upplýsingar frá matsnefndinni. Hún hefir látið honum í tje eina tölu órökstudda. Og þegar ráðh. fer fram á, að hún rökstyðji þessa tölu, þá neitar hún því. Hún neitar, matsnefndin sjálf, að gera hæstv. fjmrh. nokkra nánari grein fyrir matinu. Og svo dylgjar hv. 1. þm. G.-K. um það í nál., að hæstv. stjórn liggi á gögnum málsins. Og hann þykist sjálfur ekki vilja segja frá þeim í nefndinni. Ja, mikið var! Mikið var, að hann skyldi ekki fara að skýra frá því í nefndinni, sem hann dylur hæstv. stjórn.

En þetta er ekkert einsdæmi um meðferð sannleikans í þessu merkilega nál. Sömu blekkingarnar vaða uppi gegnum alt nál., þar sem ekki er beinlínis rangt sagt frá. Í niðurlagi 5. kafla er t. d. talað um, að dýrtíðaruppbót til bankaráðsmanna sje feld niður. Þetta leyfir hv. minni hl. sjer að segja, og þó stendur svo í 5. gr. frv., síðustu málsgr., (með leyfi hæstv. forseta): „Auk þess fá allir bankaráðsmennirnir dýrtíðaruppbót af allri launahæðinni, og reiknast dýrtíðaruppbótin með sömu vísitölu og dýrtíðaruppbót starfsmanna ríkisins.“

Um þetta segir hv. minni hl. í 5. kafla nál.: „Þá er feld burtu dýrtíðaruppbótin til bankastjóranna og bankaráðsmannanna, og mun það stafa af því, að laun þeirra þyki nú nægilega há án dýrtíðaruppbótar. Sennilegt er, að komast mætti að samningi um þetta án lagafyrirmæla eins og ástatt er.“

Hjer er auðsjáanlega alveg rangt sagt frá. E. t. v. ætlar hv. minni hl. sjer að hanga í því, að lögákveðin dýrtíðaruppbót til bankastjóranna sje feld niður. En núverandi bankastjórar sitja þó áfram að sínum launakjörum. Hjer skýtur nokkuð skökku við, eins og annarsstaðar í nál.

Jeg gat þess áðan, að freistandi hefði verið að fara nokkuð út í skipun matsnefndarinnar og launakjör hennar. Jeg ætla þó ekki að gera það í þessari ræðu, en fæ ef til vill tækifæri til þess síðar. En jeg ætla að geta nál. minni hl. enn með nokkrum orðum, eftir því, sem jeg hefi getað kynt mjer það. Margt af því eru endurtekningar af því, sem stóð í nál. meiri hl. í fyrra, t. d. hið hlægilega tildur um aðalbankastjórann. Vonandi sjá flestir hve afkáralegt er að setja slíkt í lög. Það er svo sem sjálfsagt, að bankastjóri hafi þekkingu á viðskiftamálum. En það er auðsætt, að aðalatriðið hjá hv. 1. þm. G.-K. er að miða öll ákvæði þessara laga við kreddur eins ákveðins manns, sem einu sinni var bankastjóri hjer á landi. Þá er í nál. mjög ítarlegur upptíningur á ýmislegu, sem felt sje niður í frv., t. d. þessar mörgu fundabókanir. Já, það er von, að honum þyki skaði skeður, hv. minni hl. Hv. deild eru víst enn í fersku minni allir þessir margvíslegu „protokollar“, sem hv. 1. þm. G.-K. var með í fyrra. Bankastjórarnir áttu altaf að vera að bóka. Þeir áttu að bóka samþyktir, bóka ágreining. Yfirleitt var ekki annað hægt að sjá en alt þeirra starf hlyti að fara í þessar óþrotlegu bókanir. Gott dæmi um, hve þetta bókfærslufargan var hlálegt, er ákvæðið um, að fjarverandi bankastjóri skyldi bóka ágreiningsatkvæði, ef hann væri ósamþykkur einhverju, sem gerst hefði í fjarveru hans. Gerum ráð fyrir, að bankastjóri fari til útlanda og sje nokkuð lengi burtu. Á meðan eru t. d. keyptar þúsundir víxla, auk annars, sem afgreitt er. Hann á ekki sjö dagana sæla, þessi vesalings maður, að pæla gegnum þetta alt saman á eftir, til að geta samþykt hvern einasta víxil eða bókað ágreining. Nei, störfin í bankanum eru svo mikil og svo margt, sem þarf að afgreiða, að engri átt nær að heimta samþykki bankastjóranna allra til hvers og eins. En það er eins og hv. 1. þm. G.-K. geri ráð fyrir stöðugu rifrildi og ósamkomulagi í bankanum. Það er eins og hann búist við einhverju svipuðu og kom fyrir ekki fyrir löngu síðan, þegar starfsmaður nokkur í bankanum hótaði embættisbróður sínum því, að hann skyldi rógbera hann og ofsækja og yfirleitt gera honum allan þann miska, sem hann mætti, svo lengi, sem hann gæti. Það er hugarfar þessa manns, sem hv. þm. gerir ráð fyrir, að muni ríkja í bankanum. En jeg held, að óþarfi sje að ímynda sjer slíkt. Löggjafarnir verða að byggja á samvinnu í bankanum, en ekki ganga út frá því, að bankastjórarnir noti hvert tækifæri til þess að sitja á svikráðum hver við annan. Það verður að treysta því, að í þeirra stöður verði valdir menn, sem trúandi sje til að vinna að málum bankans. Og hafi þeir það fyrir augum, þá þarf ekki að óttast, að alt lendi í úlfúð og ósamkomulagi milli þeirra. En hitt er alls ekki hættulaust, að leggja beinlínis drög fyrir deilur, eins og gert er í lögunum. Jeg vil ekki segja, að stuðningsmenn þeirra hafi ætlast til, að lögin hefðu slíkar afleiðingar. En ákvæði laganna gera alt til þess að ýta undir deilur.

Jeg vil biðja hv. þdm. að athuga snöggvast það ákvæði laganna, að 2 bankastjóra skuli þurfa til að gera ályktun, hversu smávægileg sem hún er. Hvernig verður nú þetta í framkvæmdinni? Daglega þarf að afgreiða fjölda lánbeiðna og brjefa. Eigi þetta að komast af, verður einn bankastjóri mjög oft að geta gert ályktanir, en það á þó auðvitað aðeins við hinar daglegu smærri afgreiðslur. Væri ekki svo, yrði blátt áfram óskiftandi við bankann. Alt þetta strit, fundasamþyktir, bókanir og afbókanir, liggur mjer við að segja, sem hv. 1. þm. G.-K. tókst að smeygja inn í lögin í fyrra, kemur niður á viðskiftamönnunum. Það er svo sem auðvitað, að bankastjórnin þarf að koma sjer saman um stóru drættina í starfi bankans, og það þarf einnig að gera, þegar um stór viðskifti er að ræða.

Þá hefir hv. minni hl. sjeð ástæðu til að leggja út af því, að orðið „Skriflega“ sje felt niður úr 36. gr., þar sem talað er um frávikning bankastjóra. Það stendur nefnilega í lögunum, að ráðherra skuli tilkynna bankastjóra „skriflega“, að honum sje vikið úr stöðunni, og hver sje ástæðan. En vitanlega er alveg óþarft að taka þetta fram. Það er svo sem auðvitað mál, að bankastjóranum yrði tilkynt frávikningin skriflega, ef til slíks kæmi. Hugsar hv. minni hl. sjer t. d., að ef núv. hæstv. fjmrh. ætlaði sjer að víkja frá bankastjóra, þá mundi hann fara niður í Landsbanka, ganga inn til bankastjórans og segja honum að hypja sig tafarlaust burt úr bankanum? Náttúrlega mundi þetta fara fram á fullkomlega formlegan hátt og skriflega, þótt orðið „skriflega“ sje felt niður. Og svo ber stjórnin auðvitað ábyrgð gerða sinna fyrir þinginu. Þetta ætti háttv. minni hl. að vita, og jeg þykist viss um, að hann viti það, en þetta sýnir, hvað smátt er til tínt. Annars væri sannarlega vert að tala dálítið nánar um V. kafla nál. og það, sem í honum felst. Þar stendur, að orðið „skriflega“ hafi verið sett inn í bankalögin 1909 „til þess að fyrirbyggja, að ráðríkur flokksráðherra gæti vikið bankastjóra úr stöðunni alveg tilefnislaust og einungis af flokksástæðum“. Og ennfremur segir svo (með leyfi hæstv. forseta):

„Nú á að fella burtu þetta eina orð „skriflega“ í niðurlagi 1. málsgr. 36. gr. bankalaganna, svo leiðin sje sem opnust til þess að víkja bankastjóra frá, sem t. d. ekki vill veita þau lán, sem flokksráðherrann eða bankaráðsformaðurinn í hans stað vill láta veita“.

Þessi orð eru ekkert annað en framhald af umræðunum í fyrra, þar sem hv. 1. þm. G.-K, var að ásaka sinn gamla vin og velunnara, Björn heitinn Jónsson, fyrir afsetning Tryggva Gunnarssonar. Öll ummæli nál. um „flokksráðherra“ o. s. frv. eiga við hann, því að ákvæðið 1909 var sett vegna hans. Jeg ætla ekki að fara að verja Björn heitinn Jónsson, en það finst mjer sjerlega einkennilegt og illa viðeigandi, að hv. 1. þm. G.-K. skuli hvað eftir annað vega í sama knjerunn og álasa honum í þessu máli. Um það veit hv. þm. auðvitað miklu betur en jeg, hvort Tr. G. hefir verið vikið frá af flokksástæðum eingöngu. En það er ekki annað en sjúkleiki, þegar hv. minni hl. er að tala um, að bankastjóra muni verða vikið frá af því að hann vilji ekki veita lán eftir því, sem „flokksráðherra“ þóknast. Það er rjett eins og hv. 1. þm. G.-K. lifi í minningu um einhvern þann tíma, þegar þetta var svo. Hugmyndir hans um bankastarfsemi eru tengdar við gamla atburði, því það veit hann, að það tíðkast ekki nú, að ráðherra fari niður í banka og heimti, að hin og þessi lán sjeu veitt. Jeg get a. m. k. ekki skilið, að hæstv. núv. fjmrh. fari að gera það. En ef nokkur meining ætti að vera í nál. nú, þá væri ásökununum um ofbeldi flokksráðherra beint gegn honum. Ef minni hl. veit nokkuð, hvað hann er að fara, þá er hann að gera honum getsakir um, að hann muni víkja bankastjórum úr embætti, ef þeir hlýðnist honum ekki um einstakar lánveitingar, og að hann muni reka þá burt með harðri hendi einn góðan veðurdag án þess að tilkynna þeim það skriflega.

Jeg hefi nú minst á ýmislegt í áliti hv. minni hl. Jeg hefi sýnt fram á, að þau mörgu smávægilegu ákvæði, sem hann vill halda í lögunum, eru lítils virði sem öryggisráðstafanir, en þó til mikils meins fyrir rekstur bankans. Þau eru öll miðuð við takmarkaða þekkingu eins manns, sem ekki getur hugsað sjer bankastarfsemi á annan veg en hún var í þeirri stofnun, sem hann veitti forstöðu. Honum finst óhjákvæmilegt, að alt logi í ófriði og illdeilum innan bankans. Mikil er trú hans á arfgengi hins illa í þeirri stofnun.

Það má vafalaust til sanns vegar færa, að bankaráð Íslandsbanka hafi á sínum tíma verið meinlega afskiftalítið um starfsemi þess banka, og bankaráði Landsbankans þyrfti að takast betur. En hjer þarf að gæta hófs. Og það dugir ekki, að bankaráðið sje sí og æ að flækjast fyrir bankastjórunum. Það dregur úr ábyrgðartilfinningu þeirra. Þeir venjast á að treysta á bankaráðið og kenna því um það, sem illa tekst. Auðvitað getur það komið fyrir, að þeir geri vitleysur, en betra er, að það komi fyrir einstaka sinnum, heldur en að þeir verði ábyrgðarlausir og hirðulausir um verk sín, af því að þeir telji aðra bera ábyrgðina.

Eftir að hv. minni hl. hefir lokið dylgjum sínum og ásökunum, sem jeg hefi nú getið um, hefir hann hótanir í frammi í niðurlagi nál. Þeir ganga svo langt, þessir hv. þm., að þeir fara að hóta Landsbankanum viðskiftastríði. Í VI. kafla standa þessi orð (með leyfi hæstv. forseta):

„Alþingi ætti og að muna, að Landsbankinn á sjálfur ekkert veltufje, en starfar eingöngu með fje einstakra manna, sem gætu þreytst á því að láta Landsbankann ávaxta fje sitt, ef augljóst yrði, að bankann ætti að nota til þess að styrkja aðstöðu sjerstakra stjórnmálaflokka í landinu, eða hag sjerstakra stjórnmálamanna.“

Þar sprakk blaðran! Íhaldsmenn þola ekki að vera í minni hluta. Þeir skilja það ekki enn, þessir fyrverandi forráðamenn, að þjóðin sparkaði þeim frá völdum 9. júlí síðastl. sumar. Þeir halda enn, að einhverjir þeir atburðir muni gerast, sem fái þeim ráðin í hendur. Mjer er mjög vel kunnugt um, að sumir þeirra hafa blátt áfram sagt: „Ef við fáum ekki að ráða, þá rekum við þessa dóna út úr þinginu.“ „Þessir dónar“, sem þeir ætla að reka út úr þinginu, er núverandi þingmeirihluti, sem hjer situr samkv. vilja þjóðarinnar. Fjöldi Íhaldsmanna skilur ekki, að þeir hafa mist völdin, að þjóðin hefir tekið þau af þeim, af því að þeir fóru illa með þau, og fengið þau öðrum í hendur. En forráðamenn flokksins, svo sem hv. 3. landsk. (JÞ) og hv. 1. þm. G.-K. (BK), ættu að skilja þetta. Þeir ættu að vita, að þeim sæmir ekki og þýðir ekki að hafa í hótunum, þó að aðrir en þeir sjeu í meiri hl. Heyrðu þeir minni hl. þingsins í fyrra hafa í hótunum í Landsbankamálinu? Hótuðu þeir að snúast gegn bankanum, ef ríkisábyrgðin yrði afnumin? Síður en svo. En nú er um greinilega hótun að ræða, og hún er eitthvað á þessa leið: „Ef Íhaldsflokkurinn fær ekki að ráða, látum við alla okkar fylgismenn taka fje sitt út úr bankanum.“ Er hægt að verja annað eins og þetta? Er þessi framkoma sæmileg fulltrúum þjóðarinnar á Alþingi?

Eins og nál. ber með sjer, leitaði nefndin samkv. ósk minni hl. álits bankastjórnar Landsbankans um frv. Auðvitað var ekki hægt að búast við því, að meiri hl. bankaráðsins, eins og það er nú skipað, mundi fallast á breytingarnar. Álit bankastjóranna var sumstaðar með og sumstaðar móti frv. Þeir taka til athugunar ýms smáatriði, og er ekki mikið á umsögn þeirra að græða um meginmál frv.

Jeg hefi nú gert grein fyrir brtt. meiri hl. og nál. minni hl. Hefi jeg gert það nokkuð rækilega, af því að óvíst er, að jeg taki til máls aftur við þessa umr.