23.03.1928
Efri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4437 í B-deild Alþingistíðinda. (3807)

103. mál, Landsbanki Íslands

Jón Þorláksson:

Það er aðeins örlítil athugasemd, sem jeg þarf að gera út af ummælum hæstv. fjmrh, um kaup úttektarnefndar bankans. Jeg hafði sagt það við 2. umr., að það væri fjármálaráðherra að úrskurða reikninga nefndarmanna. Hæstv. fjmrh. vill bera brigður á þetta. Hann heldur því fram, að af því að kaupið var óumsamið, verði eftir almennum reglum að greiða það, sem upp er sett. En hæstv. ráðh. hefir víst ekki athugað, hvaða ákvæði jeg setti í skipunarbrjef formanns úttektarnefndarinnar. Jeg skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp endinn á því skipunarbrjefi. Þar segir svo: „Kostnaðinn við nefndarstörfin ber Landsbanka Íslands að greiða eftir reikningum, sem fjármálaráðherra úrskurðar.“ Þetta orðatiltæki hefir alveg fasta merkingu og þýðir, að ráðherra hafi vald til þess að setja upphæð reikningsins niður, ef hún þykir of há.

Það fer ekki milli mála, að eins og frá var gengið af minni hálfu, þá er það algerlega á ráðherrans ábyrgð, hvað greitt var fyrir störf nefndarmanna. Eftir greinargerð hv. 1. þm. G.-K. sýnist svo, sem það hafi ekki verið ofgreitt, og hæstv. fjmrh. er þá ekki ámælisverður fyrir það að hafa greitt of hátt kaup fyrir þessi störf. En valdið hafði hann til þess að færa reikningana niður, ef honum hefði þótt þurfa.

Hæstv. ráðh. kom inn á nokkur atriði úr ræðu minni við 2. umr. Jeg þarf ekkert að segja um það frekar. Jeg hefi gert fulla grein fyrir mínum málstað við 2. umr. Það stendur fast, eins og tekið er fram í nál. okkar minnihl.manna, að með lagabreytingum þessum, sem hjer um ræðir, stefnir mjög að því að draga úr öllu eftirliti með rekstri bankans, sjerstaklega frá þingsins hálfu og þeirra, er þingið setur til eftirlits.

Það hefir glatt mig mjög, að hæstv. ráðh. hefir í raun og veru viðurkent þá hættu fyrir sparisjóði landsins, sem jeg hefi bent á í frv. Eftir er aðeins að draga afleiðingarnar af þeirri viðurkenningu með því að gera tilsvarandi breytingar á frv.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, sem var aðalatriði ræðu minnar, um brigðun á framkvæmdum gerðum af hálfu Alþingis. Líkti hann því við niðurlagningu tóbakseinkasölunnar 1925. En þar er ólíku saman að jafna. Engum einstaklingum var veittur neinn rjettur, sem brotinn væri, þótt einkasalan væri lögð niður með hæfilegum fyrirvara. Þá vísar hann í það, að ný lög breyti gömlum lögum. Í raun og veru er ekki um það deilt, heldur hitt, að hafi einhver öðlast rjettindi samkv. eldri lögum, þá verði þau ekki af honum tekin með nýjum lögum. Það er t. d. ekki hægt með lögum að breyta gerðum samningum. Hjer stendur svo á, að Alþingi og stjórn hefir ráðið menn til að starfa vissan tíma og gert við þá samninga, sem gefa þeim rjett þann tíma, sem skipun þeirra nær yfir, og sá rjettur verður ekki af þeim tekinn. Það er ekki hægt að taka embættismann bótalaust úr embætti án saka og setja annan í hans stað. En þessi rjettur, sem skipun í embætti veitir, nær þó ekki lengra en það, að hann kemur ekki til greina, ef embættið er lagt niður. Ef bankaráðið fjelli niður að lögum, fjelli og ráðning bankaráðsmanna niður um leið. Hitt er ekki hægt bótalaust, að setja aðra menn til þess starfa áður en kjörtímabil þeirra, sem nú gegna honum, er úti. Þetta gildir bæði um þá þingkosnu bankaráðsmenn og hinn stjórnskipaða formann. Nú á að sópa burt að forminu til allri yfirstjórn bankans og setja aðra menn í staðinn. Jeg álít það fortakslaust rýra sæmd þings og stjórnar að fremja nokkuð það, er ríki eða bankinn yrði að greiða skaðabætur fyrir. En það, sem á að fremja hjer að yfirlögðu ráði og vítalaust, er brot á grundvallarreglu, sem hvorki þing nje stjórn má fremja. Það kemur þessu ekkert við, hvort núverandi bankaráðsmenn eru nokkur „hvalreki“ fyrir bankann eða ekki, svo að jeg noti orð hæstv. fjmrh. Það hefir komið áður fyrir leiðinlega svipað atvik þessu. Starfsmanni var án saka vísað frá stöðu sinni og hann leitaði aðstoðar fógeta til þess að vera settur inn aftur. (JBald: Var það löggjöfin, sem gerði það?). Ó-nei, það var stjórnin, sem gerði það. En jeg tel það enga umbót eða framför, þótt leitað verði til löggjafarvaldsins til þess að framkvæma slíkt.

Þá mintist hæstv. fjmrh. enn ofurlítið á önnur atriði viðvíkjandi þessu máli. Hann sagði, að skylda sú til að geyma opinbera sjóði, sem á bankanum hefði legið, hefði þýtt sama sem að bankinn bæri ábyrgð á þessu fje. Þessari skyldu hefir ekki fylgt nein ábyrgðarkrafa fyrir ríkið. Það hefir ekkert staðið um það, að ríkið bæri ábyrgð á þessum sjóðum. Hinsvegar hefir þótt tryggilegt með öllu að láta þá ávaxtast í Landsbankanum, þar sem þeir nytu þar forrjettinda, ef til kæmi.

Hæstv. ráðh. vildi telja, að í þessu frv. væri ekkert nýtt. Það væri verið að færa fyrirkomulagið aftur í það form, sem milliþinganefndin hefði skapað, og stjfrv. 1926 hefði að mörgu leyti verið sniðið eftir till. sömu nefndar. Jeg vil benda á, að af höfuðatriðum þess frv., sem bygt var á áliti milliþinganefndarinnar, var ekkert sameiginlegt við þetta frv., nema eitt, og það er landsbankanefndin. Ríkisábyrgð var ekki nefnd á nafn í því frv. Með því var bankanum lagt nýtt stofnfje. Nú á að kasta því ákvæði burtu. Í þessu eru tvær höfuðbreytingar frá frv., sem lagt var fyrir þingið 1926. Landsbankanefndin er að vísu sett inn aftur. Jeg hefi altaf skoðað það ekki verulegt atriði, hvort hún væri eða ekki. En það er verið að nota þetta, að setja landsbankanefndina aftur inn, sem átyllu fyrir því að sópa í burtu allri núv. yfirstjórn bankans. Þetta er í rauninni þriðja höfuðatriði málsins. Þessi þrjú höfuðatriði, ábyrgðin, burtnumning stofnfjárins og röskun á yfirstjórn bankans, valda mestu um okkar afstöðu til málsins. — Þá þótti mjer leiðinlegt að heyra hæstv. fjmrh. enn halda því fram, að honum sje legið á hálsi fyrir að vilja ekki skýra frá því, sem honum væri ekki kunnugt um, nefnilega niðurstöðunni af matinu á bankanum. Jeg er nefnilega alveg viss um að form. fjhn. hefir ekki óskað eftir upplýsingum um annað en það, sem hæstv. ráðh. vissi og gat gefið upplýsingar um. Það var ekki annað, sem um var að ræða, en niðurstaða matsnefndarinnar, og hana fjekk hæstv. ráðh. Hann var ekki spurður um annað. Hann hefir nú færst undan að svara þessu, og er þá ekki hægt að byggja neinar till. um stofnfje á þessu mati, úr því að það liggur ekki fyrir. Þó að hv. 1. þm. G.-K. viti um þetta, þá veit jeg það ekki. Hvorki hefi jeg viljað spyrja hann um það, og hann mundi heldur ekki vilja svara því, enda er hann bundinn þagnarskyldu.

Jeg hefi nú líka að mestu leyti svarað hv. frsm. meiri hl. Hann vísaði í, að jeg hefði brotið loforð mitt gagnvart Hjeðni Valdimarssyni, sem var aðstoðarmaður í hagstofunni. Það hefi jeg alls ekki gert. Hann hafði fengið loforð um að þurfa ekki að fara í stöðu sína strax, og hafði hann neytt þess leyfis um 7 ár, og reyndar lengur en til stóð, því að í fyrstu var aðeins ætlast til, að það gilti meðan hann væri forstjóri landsverslunar. Jeg hjelt þetta loforð á þann hátt, að jeg gaf honum kost á að velja um og bauð honum að fara í þessa stöðu sína, ef hann vildi. Slíkt leyfi gat auðvitað ekki staðið óendanlega lengi. Hann varð nú að segja til, hvort hann vildi halda þessari stöðu. Annað eða meira var ekki hjer um að ræða. Enda hygg jeg, að ef þetta hefði verið nokkuð í þá átt, þó ekki hefði verið meira en brigð á vilyrði, þá hefði sá maður, sem þá var forsrh., sagt mjer til um það. Svo samviskusamur maður var hann. En hann áleit ekki neitt athugavert við það, þó þetta ástand væri látið taka enda.

Jeg efa það alls ekki, að hv. þingmeirihluti muni haga lögum landsins eins og honum þykir hentast og best. En jeg hefi nú sýnt fram á ókosti og galla þessara þriggja höfuðbreytinga á lögum bankans. Jeg álít þær óheppilegar, og jafnvel hættulegar, og það, að sópa burtu yfirstjórn bankans, getur ekki orðið lýtalaust í framkvæmdinni eða án skaðabóta til þeirra, sem fyrir þessu verða, ef þeir vilja halda fram sínum rjetti. Jeg held, að það út af fyrir sig sje bending um, að þetta sje nokkuð, sem ekki sje rjett að gera.