26.03.1928
Neðri deild: 57. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4493 í B-deild Alþingistíðinda. (3838)

103. mál, Landsbanki Íslands

Ólafur Thors:

Það undrar mig, að þeir, sem mest hafa hvatt til þess að halda þessari umræðu áfram, sjást nú ekki á fundinum. Beini jeg þessu einkum til hæstv. dómsmrh. Jeg get vel skilið, að honum þyki þægilegt að láta okkur neðrideildarmenn sitja á fundum frá því snemma á morgnana til kl. 3 eða 4 á nóttunni, meðan hann lúrir sjálfur á hægum dýnum. Þetta er líka í ágætu samræmi við bannið gegn næturvinnu, sem nú á að fara að samþykkja.

Eiginlega var það þó ekki þetta, sem fjekk mig til að standa upp. Jeg greip áðan fram í fyrir hv. þm. V.-Ísf. og sagði, að ein syndin byði annari heim. Hann sneri því þá að mjer, að íhaldsmenn hefðu í fyrra samþykt ábyrgð á stofnfje bankans, án þess að fyrir lægju upplýsingar um hag hans. Engin ný ástæða væri til að heimta upplýsingar um þetta efni nú, þar sem ríkissjóður myndi, á því augnabliki, sem lögin gengju í gildi, ekki bera neina nýja eða aukna ábyrgð á bankanum. Jeg veit nú ekki, hvort skilningur hv. þm. á 5. gr. Landsbankalaganna er rjettur, en þótt svo sje álitið, er nokkur munur á því, hvort ríkissjóður ber ábyrgð á stofnfje bankans samkv. henni, eða tekur á sig almenna framtíðarábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. Því er ný ástæða til að spyrja um hag bankans, þegar á að taka svona almenna skuldbindingu á ríkissjóð.

Jeg veit ekki, hvað er verst við þetta frv., en eg hygg, að alt sje ilt um það. Það sætir undrum, eftir allan þann undirbúning, sem Landsbankalögin höfðu fengið, að á fyrsta þingi eftir að lögin eru sett skuli eiga að breyta þeim í verulegum atriðum. — Það, sem jeg tel stórvægilegast af þeim breytingum, sem nú á að gera, er það, að gera á ráðstafanir, sem draga allan merg úr sparisjóðum landsins, en verða samt sem áður bankanum til skaðræðis. — Þá er það undarlegt, að núverandi bankaráð, sem skipað er til ákveðins tíma, á að víkja sæti, þótt stofnunin eigi að halda áfram að vera til.

Jeg ætla ekki að telja fleira til, en jeg segi það svo hátt, að hæstv. dómsmrh. megi heyra, ef hann leynist nokkursstaðar í húsinu, að þetta frv. er svo formlaust og illa samið, að engum öðrum en honum er trúandi til að hafa samið það.