07.04.1928
Neðri deild: 66. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4498 í B-deild Alþingistíðinda. (3853)

103. mál, Landsbanki Íslands

Forseti (BSv):

Það hefir að vísu aldrei verið skoðað sem afdráttarlaus skilyrði fyrir því að taka mál á dagskrá, að fram væri komið nál. um það, og hefir því stundum komið fyrir, að mál hafa verið tekin til umræðu jafnvel áður en nokkurt nál. hefir komið fram. Þessu hefir stundum verið beitt, þegar dregist hefir mjög úr hófi, að nefndir hafi skilað áliti um þau. En nú er ekki um það að ræða, að mál þetta hafi tafist fyrir þessar sakir, þar sem nál. frá meiri hl. er komið fram, og það fyrir svo löngum tíma, að það þarf ekki að sæta afbrigðum frá þingsköpum til þess að komast að. Þar sem fastlega hefir verið óskað eftir því frá meiri hl., að málið yrði tekið á dagskrá, þá hefi jeg eigi sjeð brýna ástæðu til að standa á móti því, að það verði tekið til umræðu í dag. Hinsvegar mun leitað afbrigða frá þingsköpum um brtt., sem lýst hefir verið, að koma myndu frá meiri hl. fjhn., en ekki hefir verið útbýtt enn.

Álit mitt er því það, að málið geti verið á dagskrá nú, þar sem nál. meirihl. hefir verið útbýtt fyrir tveimur nóttum, og verður það því tekið fyrir.