12.04.1928
Neðri deild: 69. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4675 í B-deild Alþingistíðinda. (3912)

103. mál, Landsbanki Íslands

Hákon Kristófersson:

* Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. V.-Ísf., sem fann ástæðu til þess að beina nokkrum orðum til mín, þótt jeg hefði ekki talað neitt til hans. Jeg verð því að segja, að þessi virðulegi þm. hefir hjer annaðhvort sýnt af sjer slettirekuskap, eða hann hefir ekki treyst hæstv. forsrh. til þess að svara fyrir sig. Hv. þm. sagði, að jeg hefði viljað láta líta svo út, sem jeg ætlaði að bera af mjer sakir, en á hæstv. forsrh. Jeg sje nú ekki annað en að þetta geti vei staðist. En annars er það merkilegt, þegar menn hafa sæmilega dómgreind til að bera, eins og jeg álít þennan hv. þm. hafa, að þá skuli þeir nota hana til útúrsnúninga aðeins. Hæstv. forsrh. hafði einmitt borið á mig sakir; í sambandi við aðra menn. Hann fann hvöt hjá sjer til þess að ásaka mig fyrir það, að jeg hafði ekki verið viðstaddur atkvgr. við 2. umr. þessa máls. Reyndar hjelt jeg nú, að það heyrði heldur til hæstv. forseta þessarar hv. deildar en hv. þm. að víta mig fyrir það. En það var einhver lævísi bak við þessi orð hv. þm. Það var alveg eins og hann vildi drótta því að mjer, að jeg hefði ekki verið viðstaddur atkvgr. af einhverjum undirferlisástæðum. Jeg virði þetta ekki svara, — að minsta kosti ekki svo mikils, að jeg fari að skýra frá því, hvers vegna jeg var fjarstaddur. En það get jeg sagt, að mjer sárnaði stórlega að geta ekki verið viðstaddur atkvgr. um þetta stórmál, þótt jeg hinsvegar vissi, að það eitt mundi engin áhrif geta haft á málið. Mjer þótti leiðinlegt, að hann skyldi þá ekki eins snúa orðum sínum til hæstv. forseta og fleiri hv. dm. fyrir það, að þeir voru ekki viðstaddir. Því að það má ætlast til þess af honum, að hann vilji, að allir sjeu jafnir fyrir lögunum.

Þá vildi hv. þm. nota sjer það dæmi, sem jeg tók um drenginn, og ætlaði að gera sig mikinn mann yfir mjer með því. Auðvitað er hv. þm. það, en hann má þó ekki halda sig of mikinn. Og ef jeg hefði viðhaft ókvæðisorð í ræðum mínum, þá er það á valdi forseta eins að víta það, en kemur ekki hv. þm. V.-Ísf. hið allra minsta við. Aðfinslur hv. þm. í minn garð hafa því ekki við nein rök að styðjast.

Hv. þm. dróttar því að mjer, að jeg hefði átt að verða því feginn, að brtt. hefði ekki þurft að ganga gegnum nema einn hreinsunareld. Ef hann á við það, að hæstv. forseti hefði átt að vísa brtt. minni frá sem ólöglegri, þá get jeg sagt honum það, að jeg met ekki jafnmikils dóm hans um það atriði sem undangenginn dóm hins merka forseta Ólafs sáluga Briems.

Þar sem hann vjek að brtt. hv. 2. þm. G.-K., þá fór hann rangt með, eins og í öðrum tilfellum, en jeg vil að óreyndu vona, að hann hafi gert það óviljandi. Jeg sagði, að þar væri ekki ágreiningur um efni, og því væri ekki ástæða til þess fyrir mig að minnast á hana, þar sem líka hv. flm. hefði gert það sjálfur. Þess vegna skaut hv. þm. algerlega yfir markið með aðfinslur sínar til mín í því efni sem öðrum. Að öðru leyti ann jeg hv. þm. heiðursins af ummælum sínum í minn garð. En jeg fæ ekki sjeð, að það geti verið nein vörn fyrir órjettmætri framkomu stjórnarflokksins í þessari hv. deild, þótt íhaldsmenn í Ed. hafi gert eitthvað svipað þar í þann svipinn. Þótt einhver fremji órjett, þá heimilar það ekki öðrum að gera slíkt hið sama. En annars held jeg, að meiri hlutinn í hv. Ed. hafi verið nýbúinn að synja afbrigða um smávægilega brtt. við frv., svo að þaðan er byrjunin komin. Og það hefir verið sagt hingað til, að sá valdi miklu, sem upphafinu veldur.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en jeg fann ástæðu til að andmæla þessum óþinglegu og ótilhlýðilegu orðum hv. þm. V.-Ísf. í minn garð.

* Ræðuhandr. óyfirlesið.