19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 4838 í B-deild Alþingistíðinda. (4044)

64. mál, hvalveiðar

Ásgeir Ásgeirsson:

Jeg skal ekki vera langorður. Jeg skal fúslega játa, að mjer sárnaði áðan við hv. 4. þm. Reykv., en það var meðal annars af þeirri ástæðu, að þetta er í þriðja sinn, sem jeg ber þetta sjálfsagða frv. fram og mæti þessari ósanngjörnu andúð, frv., sem engum gerir tjón og er í alla staði meinlaust. Það má þó vera, að fáeinir hvalir missi lífið, ef það verður samþykt, en fyrir þær sakir sje jeg ekki, að ástæða sje til að amast við því, og allra síst hjá þjóð, sem lifir á kvikfjárrækt og fiskiveiðum. Nei, við getum ekki bygt búskap okkar á því, að ekki megi taka neina skepnu af lífi.

Það hefir því ekki verið nefnt nokkurt dæmi, sem sýni það, að frv. þetta skaði nokkurn mann. Aftur á móti hefir verið sýnt fram á með skýrum rökum, að það geti orðið til hagsbóta fyrir landslýðinn. Það er því harla undarlegt, að sumir hv. þm. skuli geta verið á móti þessu. Hv. frsm. minni hl. talaði um „bremsu“, sem sett myndi verða á þetta mál í Ed. Þessi „bremsa“ er sameinaðir nokkrir íhaldsmenn og jafnaðarmenn í þeirri deild, og ef þeir halda, að þeir bjargi landinu með því að vera á móti þessu litla og sanngjarna máli, þá eru þeir um það. Jeg öfunda þá ekkert af því bjargráði. Og hafi þeir jafnaðarmennirnir gaman af að ganga með Jóni Þorlákssyni, sem nú er páfi íhaldsins, þá eru þeir á nýjum leiðum. Eftir öðrum götum hugði jeg, að þeir myndu leiða þjóðina.

Þá gerði hv. frsm. minni hl. ráð fyrir, að mörg sjerleyfi myndu koma á eftir þessu. En til þess að fyrirbyggja þann ótta, vil jeg gera honum það tilboð að ganga inn á brtt., þar sem ákveðið væri, að aðeins skuli veitt eitt sjerleyfi í þessu efni, og það bundið við 3–4 veiðiskip. Það er tilætlun okkar flm., að svo verði, þó ekki standi það beint í frv. Þá sagði hann, að annað eins gæti skeð eins og það, að ríkið færi að gera út á hvalveiðar, og nefndi þeirri tilgátu sinni til stuðnings síldarmálin, sem ríkið væri farið að blanda sjer í nú. Út af þessum ummælum hv. þm. vil jeg taka það fram, að á því verður að gera skýran greinarmun, hvort ríkið blandar sjer í þessi mál á þann hátt að annast sölu afurðanna og iðnað, eða það fer sjálft að ausa upp úr auðsuppsprettum sjávarins. Jeg fyrir mitt leyti er hræddur um, að það verði langt í land, þangað til ríkið sjálft fer að reka búskap eða gera út veiðiskip. Á þessu tvennu, að sækja auðinn í skaut náttúrunnar og hinu, að reyna að skapa rjettláta skiftingu á arðinum, er mikill munur. Þá tæpti háttv. frsm. minni hl. á sjerleyfi Shellfjelagsins og sagði, að annað eins gæti skeð eins og það, að fjelag fengi með yfirvarpi töluverð rjettindi. En þar sem hann vitnaði í ávítur núv. stj. í garð fyrv. stj. út af gerðum hennar í því máli, virðist mjer hann ætti að treysta núv. stj. til þess að veita það sjerleyfi, sem hjer ræðir um, þeim einum, sem sannað geta fult lögmæti síns fjelagsskapar. Að nefna Shellfjelagið í þessu sambandi er því til ágóða fyrir þetta mál.

Þá vildi hann halda því fram, að hjer myndi ekki verða um svo vandasama vinnu að ræða, að þörf yrði að fá erlenda verkamenn til þess að inna hana af hendi, en bætti því svo við, að hann byggist samt við, að þeir yrðu fengnir þrátt fyrir það, þó að þeirra væri ekki þörf. Slíkar getsakir sem þetta eru til þess eins að ergja háttv. þingdeild. Þær hafa ekki við hin minstu rök að styðjast og eru með öllu óþarfar. Hv. þm. hlýtur að vita, að til er löggjöf um rjett erlendra manna til þess að stunda atvinnu hjer á landi, þar sem það er ákveðið, að ekki megi nema með sjerstöku leyfi flytja inn erlenda menn í atvinnuskyni. Þetta hlýtur hv. þm. að vita, og það því fremur, þar sem sumir þeir, sem slíka undanþágu hafa fengið, standa honum ekki allfjarri. Annars vil jeg bjóða háttv. frsm. minni hl. samvinnu í því að flytja brtt. um það, að innflutningur útlendinga til þeirra hluta, sem hjer ræðir um, skuli bundinn við það, sem nauðsynlegt er sjerþekkingar vegna. En þó tel jeg slíkt ákvæði óþarft vegna nægilega skýrrar löggjafar um þau efni. (SÁÓ: Jeg vil ekki láta drepa hvalina) . Einmitt það, — en hvers vegna vill þá hv. þm. láta drepa þorsk, sauðfje, fugla o. fl. dýr? (SÁÓ: Af því að viðkoman er svo mikil). Já, en hjá kúnum er þó við koman litlu meiri en hjá hvölunum, og hygg jeg samt, að hv. þm. eti beljukjöt með ánægju, þegar svo ber undir. Að friða hvalina og önnur dýr til þess eins að láta þau lifa, það standast ekki okkar líkamlegu þarfir. Við skulum vera óhræddir við frv. þetta, það hefir ekki annað að flytja en bót frá því sem nú er.