27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (4076)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Sveinn Ólafsson:

Það hefir fallið í minn hlut, jeg vil segja illu heilli, að vera formaður kjörbrjefanefndar að þessu sinni, en hjá henni hlaut að lenda mesta hitamálið, sem enn hefir verið fyrir þessu þingi. Á jeg þar við kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu, sem sameinað Alþingi frestaði á fyrsta fundi sínum að taka gilda.

Jeg ætla ekki, án þess að sjerstakt tilefni gefist, að rifja upp þær aðfinslur og átölur, er fram hafa komið frá einstökum hv. þingmönnum um óþarfan drátt á þessu máli eða tómlæti hjá kjörbrjefanefnd. Jeg vil aðeins geta þess, að meiri hluti nefndarinnar, hv. 2. þm. Rang. (GunnS), háttv. 2. þm. Reykv. (HjV) og jeg, leit svo á og lítur svo á, að þegar frestað var af sameinuðu Alþingi að taka kosninguna gilda, þá hafi þar með verið ætlast til þess, að frekari gagna væri aflað um lögmæti hennar heldur en fyrir lágu við þingsetningu. Samkv. þessu var því tillaga vor þriggja þá þegar, að bíða þess, að rannsóknar- og setudómarinn í hinu svo nefnda Hnífsdalsmáli kæmi til bæjarins, svo hægt væri að kynnast málsskjölunum; en hans var þá von til bæjarins á næstu dögum. Eins áleit meiri hluti nefndarinnar rjett að afla þeirra gagna annara, sem unt væri að fá, m. a. um það, hvernig farið mundi með lík mál í nágrannalöndum vorum. Kom þegar í upphafi fram sá stefnumunur hjá nefndarmönnum, að tveir þeirra, hv. þm. Dal. (SE) og hv. 1. þm. Skagf. (MG), vildu samþykkja kosninguna án frekari rannsóknar eða eftirgrenslanar. Hinsvegar vildum við tveir, hv. 2. þm. Rang. (GunnS) og jeg, binda samþykki kosningarinnar við frekari gögn en þá lágu fyrir. En fimti nefndarmaðurinn, hv. 2. þm. Reykv. HjV), vildi þá þegar ógilda kosninguna, eftir þeim gögnum, sem fram væru komin.

Fyrir okkur, sem binda vildum samþykki kosningarinnar við frekari rannsókn og gögn, hefir það fyrst og fremst vakað, að leitast við að komast eftir því, ef unt væri, hvort Jón A. Jónsson hefði átt eða getað átt nokkurn þátt í atkvæðafölsun þeirri, er þarna átti sjer stað, eða hvort hún hefði getað verið á hans vitorði. Eftir skoðun okkar og þeirri þingvenju, sem hjer hefir tíðkast, virtist okkur, að þar sem Jón A. Jónsson hefir hlotið svo mikinn meiri hluta atkvæða, að hin grunsömu atkvæði geta ekki hafa breytt úrslitum kosninganna, þá ætti að taka kosningu hans gilda, svo framarlega sem ekki beindust böndin að þingmannsefninu um að hafa átt þátt í atkvæðafölsuninni eða um að hafa vitað um hana. Til stuðnings þessu áliti okkar tveggja höfum við fundið það og athugað um þingvenju nágrannalandanna, að líkt er þar á litið og með farið. Til að benda enn frekar á þessa þingvenju nágrannalandanna vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp tvö símskeyti frá Sveini Björnssyni sendiherra í Kaupmannahöfn, sem eftir fyrirspurn meiri hl. kjörbrjefanefndar hefir gefið upplýsingar.

Fyrra skeytið, sem dagsett er 24. þ. m., hljóðar svo:

„Þriðji kafli norskum kosningalögum 17. desember 1920 inniheldur nánari ákvæði um ógilding. Aðalreglur kosning ógild vegna galla því aðeins „Stortinget finder det antagelig, fejlen har hatt innflytelse paa utfallet.“ Þegar umræðir alvarlega ágalla, en þar til telst vafalaust fölsun atkvæðaseðla, verður reglan strangari, þannig kosning ógild „selvom det bare skjönnes at fejlene kan ha hatt innflytelse paa utfallet.“ Danmörku engin sjerákvæði, en praxis líkur nefndum norskum fyrirmælum. Að minsta kosti ónýtist kosning ekki, þegar gallinn hefir engin áhrif. Þó skal tekið fram, ef kjörstjórn hefir átt þátt í fölsuninni, mundi ef til vill kosningargrundvöllur álitinn svo skeikull, að áhrif árangurinn yrði álítast vafalaus (? mun eiga að vera vafasamur). Svar öðrum löndum ókomin.

Islandsgesandt.“

Þá er skeytið 25. þ. m.:

„Sendiráðið Stokkhólmi gefur eftirfarandi upplýsingar: „Forsaavidt Forfalskning Stemmesedler skulde forekomme Sverige, forebringes Sagen for Regeringsretten, der paadömmer samme. Efter tidlige trufne Afgörelser kasseres paagældende valg ikke, forsaavidt skete Misligheder efter Rettens Formening ikke kan skönnes have haft Indflydelse paa Valgresultatet.

Islandsgesandt.“

Bæði þessi skeyti benda til líkrar meðferðar á svona málum og fyrir okkur, hv. 2. þm. Rang. (GunnS) og mjer, vakir. Aðferðin í nágrannalöndunum virðist því vera algerlega hliðstæð þeirri þingvenju, sem hjer hefir myndast. Mjer er kunnugt, að sunnar í álfunni gilda nokkru strangari reglur um meðferð þessara mála. En þær koma tæplega til greina hjer á landi, þar sem löggjöf vor er í flestum efnum bygð á öðrum grundvelli og sniðin eftir norrænum fyrirmyndum.

Nú hefir um 2–3 daga skeið verið tækifæri fyrir nefndarmenn alla til að útvega sjer frjettir um málið hjá rannsóknar- og setudómaranum í málinu, sem dvalið hefir í bænum. Einnig hefir nefndin átt kost á að kynna sjer að nokkru leyti lögreglurjettarbók hans. Við tveir, sem undirritað höfum sjerálitið á þskj. 50, höfum ekki getað fundið neitt í skjölum málsins nje frjett hjá rannsóknardómaranum, sem bendi í þá átt, að Jón A. Jónsson hafi átt nokkurn þátt í atkvæðafölsuninni, eða haft vitneskju um hana. Má raunar segja, að það, sem fram er komið, afsanni eigi heldur gruninn um það, en þess gat eigi verið að vænta eftir eðli málsins og rannsókn þess.

Við háttv. 2. þm. Rang. höfum bent á það í sjeráliti okkar, að alvarlegar misfellur hafi orðið á kosningu þessa sama þingmanns árið 1919 og sömuleiðis eitthvað athugavert við kosninguna í Ísafjarðarkaupstað árið 1923. En hvorugt liggur fyrir að þessu sinni og þótt það kunni að gefa tilefni til rannsóknar síðar, þá er ekki okkar verk að dæma um þær kosningar að þessu sinni.

Annað, sem bent er á í sjeráliti okkar og vakið gæti grunsemdir, eru hin ótilhlýðilegu svigurmæli, er Jón Auðunn Jónsson viðhafði í garð setudómarans í rjettarhaldi 11. nóv. síðastliðinn. Þau eru þann veg löguð, að miklu fremur vekja þau óhug en samhygð með honum. Viljum við þó frekar leggja þau út á betra veg en til hins verra. Liggur næst að álíta þau stafa af gremju yfir því, að svo hrapallega hafði til tekist, að honum góðviljaðir menn höfðu gerst sekir um kosningasvik. Svigurmælin þarf ekki að eigna meðvitund um sekt þess, sem flytur þau.

Þrátt fyrir skoðanamun meiri hluta kjörbrjefanefndar, er undirritar sameiginlegt nál. á þskj. 50, leggja þó allir til, að kosning Jóns Auðuns Jónssonar verði tekin gild. Það, sem á milli ber, skiftir miður máli. Meginatriðið er sameiginlegt. Við hv. 2. þm. Rang. leggjum hinsvegar áherslu á það, að haldið verði fast á rannsókn þessa máls og sök látin bitna á sekum. Ennfremur teljum við óumflýjanlegt að gera hið allra fyrsta ráðstafanir til gagngerðrar breytingar á kosningalögunum, til þess að aftra því, að síðar geti komið fyrir önnur eins óhæfuverk og þau, sem þessi Hnífsdalssvík í raun og veru eru.

Þetta læt jeg nægja að sinni. Jeg ætla að bíða þess, að tilefni gefist til þess að taka fleira fram. Veit jeg, að allir hinir nefndarmennirnir munu finna ástæðu til þess að hreyfa málinu að einhverju.