27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í B-deild Alþingistíðinda. (4083)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. (MG) óskaði eftir, að sjer yrði ekki svarað til muna meðan hann væri fjarverandi. Hann byrjaði ræðu sína með því að gera gys að þeim tveim Framsóknarmönnum, sem hafa fylgt honum að málum í því að vilja taka kosninguna gilda, en álíta hana þó tæpa. Þeir áfellast mjög engu að síður, auk fölsunarinnar, ýms atvik, er að máli þessu lúta. En Íhaldið hefir yfirleitt altaf lýst velþóknun sinni á öllu saman þangað til nú í dag, að skeytið kom frá Ögri um, að íhaldsmenn í Norður-Ísafjarðarsýslu finna, að þeir geta ekki lengur afsakað svikin. Þá þótti háttv. 1. þm. Skagf. það furðulegt að taka upp á því að síma út um allar álfur, til þess að fá vitneskju um, hvernig stærri þjóðir fara að í slíkum málum sem þessu. En eins og jeg hafði áður bent á, hefir Alþingi hingað til ekki þurft á því að halda að fella dómsúrskurði í fölsunarmálum, en þau koma, því miður, ekki ósjaldan fyrir erlendis.

Þá talaði háttv. þm. Dal. (SE) með miklum fjálgleik um „Frelsisherinn“ sinn, þennan mikla og stóra flokk, er mundi mylja alt undir sínum hæl. Þá var háttv. þm. stór og mælskur. Annars hjelt jeg, að hann væri búinn að segja þetta nógu oft, bæði í blaði sínu og á fundum, og hann þyrfti því ekki að koma þessu þrotlausa gorti að hjer.

Það er næstum broslegt að heyra þennan háttv. þm. tala eins og hann einn hafi þjóðarviljann að baki sjer, eins og enginn annar en hann hafi umboð fyrir „þessa“ þjóð. Það verður enn broslegra, þegar litið er á það, að þessi maður hefir fallið tvisvar við kosningar nú alveg nýlega, þó að hann loks skriði inn með litlum meiri hluta í einu minsta kjördæmi landsins. Ennfremur fjellu allir liðsmenn hans og samherjar. Og svo kemur hann hjer fram mjög hátíðlegur og reynir að breiða verndarvæng „frelsishersins“ yfir fölsunina í Hnífsdal. Því að fölsunin er sönnuð. Það er sannað, að stórkostlegur glæpur hefir verið framinn í sambandi við þessa umræddu kosningu, og það eru altaf að sannast nýjar falsanir í þessu máli. Í gær sannaðist alveg ný fölsun í Hnífsdalsmálinu, og margt bendir á, að það muni bráðlega sýna sig, að enn sjeu ekki öll kurl komin til grafar.

Háttv. þm. ( SE ) getur því tæplega vænst þess, að þeir, sem vita þetta, geti beinlínis með hrifningu litið á þann flýti, sem hann hefir óskað eftir í þessu máli. Háttv. þm. (SE) virðist frá upphafi hafa verið ánægður með kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu og ekki hafa talið neina þörf á að athuga hana sjerstaklega. Þá talaði sami háttv. þm. um það, að ekki kæmi til mála að ónýta þessa kosningu, vegna þess, að ekkert fordæmi væri fyrir slíku, þegar um svo mikinn meiri hluta löglegra atkvæða væri að ræða, að fölsunin gæti engu valdið um úrslitin, og er þá rjett að líta á rjettlæti og óskeikulleik hv. þm. í slíkum málum.

Hvernig var það í Vestur-Ísafjarðarsýslu, þegar Kristinn Daníelsson, sem var kosinn með talsverðum meiri hluta, var sendur heim, aðeins vegna lítilfjörlegra formgalla, þó að vilji kjósenda væri ekki á nokkurn hátt tvíræður, en hinn frambjóðandinn, Matthías Ólafsson, sem hafði miklu færri atkv., var tekinn inn í þingið?

Jeg hygg, að þetta hafi verið í tíð hv. þm. Dal. (SE) á þingi og að hann hafi goldið því jákvæði, að minnihlutamaður, sem var nákomnum venslamönnum hans á þingi velþóknanlegur, var tekinn inn í stað þess, er hafði sannanlega að baki sjer meirihlutafylgi kjósenda. Jeg segi þetta líka til hv. 3. landsk. (JÞ), af því að það var hans flokkur, sem stóð á bak við Matthías Ólafsson. Jeg vildi beina því til hans, hvort ekki mætti með meiri rjetti nú ónýta kosningu JAJ en þá var ónýtt kosning Kristins Daníelssonar. En hann var sendur heim af flokksbræðrum hv. 3. landsk. Samt var þá ekkert talað um ofbeldi af Morgunblaðsmönnum þess tíma.

Hv. 3. landsk. var með dylgjur um það, að jeg hefði farið með ósannindi. Jeg hafði rakið málið eins og það lá fyrir og í einu og öllu skýrt rjett frá, en hann kom hjer aðeins með órökstuddar dylgjur út í loftið. Jeg gæti eins sagt um hann, að hann, til dæmis, seldi of dýrt sement. Það hefir komið fyrir, að Íhaldsmenn hafa sagt það, að jeg hafi sagt ósatt, en þeir hafa aldrei sannað það. Þess vegna eru fúkyrði þessara manna fyrir löngu dæmd dauð og ómerk af hæstarjetti almenningsálitsins í landinu. Og það er furðulegt að heyra slíkar ásakanir úr þessari átt og frá þessum manni, að hann skuli leyfa sjer að bera mig brigslum, mig, sem hefi tekið við spillingarfjósi fyrverandi stjórnar ómokuðu og átt nokkurn þátt í, að það hefir verið mokað. Slíkum aðdróttunum verð jeg algerlega að vísa heim til föðurhúsanna, þangað sem þær eiga heima. Það er líka fullkomið blygðunarleysi af formanni fyrverandi stjórnar og Íhaldsflokksins, er nú stendur orðlaus gagnvart öllum þeim þungu sakargiftum, sem bornar hafa verið á hann og hans flokk, að hann skuli leyfa sjer að áfella saklausa menn. En þessi frammistaða þessara tveggja fyrverandi ráðherra er alveg á borð við gerðir fyrverandi stjórnar í málinu sjálfu.

Jeg vildi spyrja hv. 1. þm. Skagf. (MG), hvernig stóð á því, að bæjarfógetinn á Ísafirði hætti sinni rannsókn svo fljótt í vor sem leið. Það er ekki trúlegt, en það er sagt fyrir vestan, að þrýst hafi verið á hann af fyrverandi stjórn. Jeg vil ekki trúa því, að svo hafi verið, en það er einkennilegt, að hætt skyldi við þá rannsókn, sem virtist vera á rjettri leið, og síðan sendur ungur og lítt reyndur maður hjeðan í stað bæjarfógetans. Jeg vil ennfremur spyrja, hvers vegna svo langur tími var látinn líða frá því, að glæpurinn var framinn og þangað til rannsókn var hafin af hinum aðsenda manni.

Þá vildi hv. 3. landsk. halda því fram, að engin flokkssamþykt hefði verið fyrir mótþróanum og andúðinni gegn rannsókninni vestra og Halldóri Júlíussyni. Hann játaði þó, að það hefði andað kalt til rannsóknardómarans, en slær því svo fram, að menn hafi ekki viljað trúa því, að glæpur hefði verið framinn. Hann hefði líka getað sagt eins og Morgunblaðið, að sjómennirnir hefðu eins getað hafa framið fölsunina. En það varð enginn úlfaþytur þá, er þeir voru fangelsaðir af sendimanni Íhaldsstjórnarinnar. Sú fangelsun reyndist síðar óþörf, en er samt afsakanleg. Fyrirfram er ekki hægt að sjá í glæpamáli, hverjir eru sekir.

Síðar greip hv. þm. (JÞ) til þess ráðs að reyna að ófrægja rannsóknardómarann, Halldór Júlíusson sýslumann, hjer í þingsalnum og kasta hnútum að honum fyrir það, að hann hefði ávítað Jón Auðun Jónsson mjög kröftuglega fyrir rjetti. Hann gerir sem sje ráð fyrir, að það líðist að skrökva upp á rannsóknardómarann, setja óhróður um hann í Vesturland og Morgunblaðið, gera aðsúg að honum og hindra hann á allan hátt í að framkvæma starf sitt. Þetta á víst alt að vera leyfilegt, ef sökudólgarnir eru flokksbræður þingmannsins. Hann gerir ennfremur ráð fyrir, að ósvinnu Jóns Auðuns fyrir rjettinum sje tekið með þögn og þolinmæði, einungis af því að hann er íhaldsmaður. Nei, háttv. þm. (JÞ) fellur hjer á sjálfs sín bragði. Játning hans um andúðina til rannsóknardómarans, og jafnframt andúðina gegn rannsókninni sjálfri, og tilraun hans til að ófrægja rannsóknardómarann hjer í þingsalnum sýnir best varnarleysi Íhaldsins og aðstöðu þess í þessu alvarlega máli. Það stendur, því miður fyrir Ísland, enn óhrakið, að flest líffæri „Íhaldsins“ eru búin að vinna til sektar í þessu máli. Það byrjar með hinum „kalda anda“ og hótunum um ofbeldi gegn rannsóknardómaranum, sem aldrei hafði komið til Ísafjarðar fyr og sem Íhaldið hafði fáum vikum áður beðið að vera frambjóðanda sinn í Strandasýslu móti núverandi hæstv. forsrh. (TrÞ). Alt þetta er ekki annað en hræðsla við rannsóknina, hræðsla við sannleikann, ef hann yrði leiddur í ljós, — og á hvað bendir þessi hræðsla? Hún bendir ótvírætt á sektarmeðvitund Íhaldsins í þessu máli. Sama er að segja um hina skipulagsbundnu uppreisn í Bolungarvík, framkomu Vesturlands, Morgunblaðsins og allra Íhaldsblaðanna, og yfirleitt alla framkomu Íhaldsins gagnvart þeim manni, sem ekkert hafði til saka unnið annað en að hafa tekið að sjer að rannsaka erfitt glæpamál, og virðist ljúka því svo, að það sje til sæmdar fyrir sýslumannastjett landsins. En nú loks er komið svo, að fundur stuðningsmanna Jóns Auðuns byrjar skeyti sitt til Alþingis á því að lýsa andstygð sinni á glæpahlið Hnífsdalsmálsins.

Þetta hefir þó áunnist. En Íhaldið getur ekki þvegið af sjer þann blett, sem það hefir sett á sig með því að hafa gert þetta sakamál að einskonar flokksmáli, því það hefir það gert, og nú síðast á þingi með beinni flokkssamþykt, þegar það greiddi óskift atkvæði með því að taka kosninguna strax gilda athugunarlaust og athugasemdarlaust, og það þrátt fyrir það, að einmitt nú þessa dagana eru að koma upp og sannast nýjar falsanir, undir handarjaðri þingmannsefnisins (JAJ), þó að þær snerti ekki hann sjálfan. Því hefir heldur ekki verið mótmælt, að beitt hafi verið af hálfu Íhaldsins gagn rannsókninni bæði þvermóðsku, reiðiyrðum, hótunum, röngum staðhæfingum og lognum frjettaburði, og þó að það hafi ekki haft nein áhrif, þá er það ekki þeim að þakka, er ósvinnuna fremja. Þeir vildu á allan hátt hindra rannsóknina, en ástæðan var ekki önnur en hin sama móðurtilfinning og lýst er í biblíunni á einum stað, sem jeg býst við, að allir háttv. þm. kannist við. Það er í frásögninni um Salómon konung og konurnar tvær, sem deildu um barnið. Salómon skipaði svo fyrir, að hluta skyldi barnið sundur á milli þeirra. Hann gerði ráð fyrir, að móðirin mundi þá segja til sín, þegar til alvörunnar kæmi, og það fór líka svo, móðirin sagði til sín. — Móðirin hefir líka sagt til sín í Hnífsdalsmálinu, — Íhaldið hefir fundið, að falsararnir eru því nokkuð nákomnir.

Íhaldið hefir barist fyrir því af alefli að hindra framgang rannsóknarinnar, en hitt er annað, að þegar dómur er fallinn og ef til þess kemur, sem nálega má telja sannað, að einhver ákveðinn Íhaldsmaður eða Íhaldsmenn verði dæmdir, þá mun honum eða þeim gefinn „reisupassi“ Sölva Helgasonar, eins og Morgunblaðið gaf nýlega einum Íhaldsmanni, sem hafði verið æstur upp af flokknum til að sýna ólöghlýðni, en síðan spottaður, er hann stóð einn í neyð og vansæmd. Þá talaði háttv. þm. (JÞ) um „fair play“, og skal jeg virða honum það til vorkunnar, að jeg býst við, að hann sje ókunnugur ensku lífi og viti því ekki vel, hvað það þýðir. Jeg skildi hann svo, að hugsun hans væri sú, að ef til dæmis íþróttamaður, sem hefir verið barinn af keppinaut sínum, legst niður og biður þann fyrirgefningar, sem barði hann, þá sje það „fair play“. Nei, Englendingar eru ekki lyddur og ofbeldismaðurinn er þar beygður undir hinu sterka almenningsáliti. Jeg er líka viss um, að Íhaldsmenn á Englandi mundu aldrei ganga svo langt, til dæmis, að hlaupa upp til handa og fóta og birta mynd af manni, sem hefði unnið sjer það eitt til ágætis að gera sig sekan í sjerstakri vitleysu, uppreisn og ofbeldi, eins og raun ber vitni um að því er snertir fálkariddarann Pjetur Oddsson í Bolungarvík. En jeg skal segja hv. 3. landsk., hvað hans Íhaldsmenn skilja lítið „fair play“, eða lifa lítið eftir þeirri reglu. Daginn eftir að búið var að setja kosningu Jóns Auðuns til rannsóknar í kjörbrjefanefnd, kom einn Íhaldsmaður á fund í nefnd, sem jeg er í, og sagði: „Við skulum hefna þess síðar, sem þið hafið nú gert.“ Þetta er ekki „fair play“, að heimta hefnd fyrir það, að rjettlætið sje látið ná framgangi.

Þá var hv. þm. (JÞ) að kvarta um það, að ekki væri hægt að njóta kunnugleika Jóns Auðuns í Norður-Ísafjarðarsýslu við umr. hjer í kvöld. Jeg vil aðeins segja það, að ekki átti hv. þm. Ísaf. (HG) þess kost að tala hjer í deildinni árið 1923, og ekki var um það kvartað af hálfu Íhaldsflokksins. Því er nú svo varið, að það er ekki hægt; við gætum þá alveg eins haft Hálfdán frá Hnífsdal hjer á fundi, en eins og formin eru á Alþingi, er það jafnómögulegt eins og að Jón Auðunn tali hjer í kvöld.

Þá var hv. 3. landsk. að tala um yfirheyrslurnar í Bolungarvík á þá leið, að rannsóknardómarinn hefði jafnvel kent mönnum að falsa. Jeg skal mjög bráðlega gera ráðstafanir til, að birt verði á prenti eiginhandarvottorð þessara tveggja kjósenda, sem byrjuðu á að skrökva fyrir rjetti, í þeim tilgangi að bægja sök frá hreppstjóranum, Kristjáni Ólafssyni. Þau segja bæði, að þau hafi fyrst neitað að hafa þegið aðstoð, vegna þess að þau hafi haldið, að það skaðaði hreppstjórann minna, en segjast síðan hafa breytt framburði sínum, eftir að þeim hafði verið bent á það, að það kæmi honum betur, að þau segðu satt en ósatt.

En sem sagt, þetta er í raun og veru lítið atriði í málinu, en það sýnir, í hve röngu ljósi formaður Íhaldsflokksins sjer þessa atburði, og ennfremur hitt, hversu fólkið er algerlega á valdi „matadoranna“ í Bolungarvík, er það hikar ekki við að segja ósatt fyrir rjetti, ef það hyggur, að það komi þeim betur en sannleikurinn.