27.01.1928
Sameinað þing: 2. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (4098)

Kjörbréf Jóns Auðuns Jónssonar

Sigurður Eggerz:

Jeg ímynda mjer, að þeim mönnum, sem hlýtt hafa á umr. hjer á Alþingi í kvöld, hljóti að vera það ljóst, hve mikil nauðsyn sje á því fyrir þingið, að það eigi mikið af sjálfstæðum mönnum. Mjer hefir virst það koma berlega fram — því er ver og miður — í umr. hjer í kvöld, að menn hafi ekki gætt þeirrar stillingar, sem þeim mönnum ber að hafa, sem eiga að vera hjer fulltrúar þjóðar sinnar og eiga að kveða upp úrskurð í máli sem þessu. Í ræðu minni í dag gerði jeg grein fyrir skoðun minni í þessu máli, og jeg þykist hafa rökstutt þá skoðun svo, að jeg þurfi ekki að endurtaka það. En mig langar til að minna á það, að till. þær, sem jeg og meiri hluti kjörbrjefanefndar bárum fram í þessu máli, sýnast vera í fullu samræmi við venjur, sem slegið hefir verið föstum alstaðar á Norðurlöndum.

Þetta getur hver, sem vill, sannfært sig um með því að lesa símskeytin.

Jeg neyðist til þess að átelja hæstv. dómsmrh. fyrir það, að í svari sínu til mín sagði hann, að jeg hefði tilhneigingu til þess að syngja vögguljóð yfir glæpum og lögbrotum. Hann sagði frá því með mikilli gleði, að það væru altaf að komast upp fleiri og fleiri falsanir. Það hefði t. d. komist upp ein fölsun í gær og önnur í dag. Hann sagði frá þessu í þeim tón, að ætla hefði mátt, að hann vildi halda þjóðhátíð í tilefni af þessum svikum og fölsunum.

Jeg hefi skýrlega lýst yfir því, að jeg áliti það sjálfsagt að hegna harðlega fyrir hin glæpsamlegu atriði í þessu máli, ef það sannaðist, hver væri sekur í þeim. Og í blaðinu Íslandi, sem dómsmrh. og fleiri segja að standi nálægt mjer, eru þessi orð: „Að sjálfsögðu á að hegna harðlega fyrir glæpsamlegt athæfi, en armur hegningarlaganna má ekki ná lengra en til þeirra seku.“ Með öðrum orðum, hjer er lögð áhersla á það, að það eigi að taka hart á kosningasvikunum.

Hæstv. dómsmrh. má ekki leyfa sjer að bera mjer það á brýn, að jeg vilji syngja vögguljóð yfir glæpum og svikum, einmitt um leið og jeg lýsi yfir því og legg áherslu á það, að það beri að hegna harðlega fyrir slíkt athæfi. Hæstv. dómsmrh, hefir ekki leyfi til þess að gera það.

Hæstv. dómsmrh. fór ekki rjett með orð mín á fleiri sviðum, en það skiftir nú minna máli. Hann sagði, að jeg hefði verið að tala um einhvern stóran flokk, sem mundi mylja alt og merja undir sjer, og einhvern nýjan Napoleon.

Jeg sagði aðeins, að þótt frjálslyndi flokkurinn væri enn sem komið væri lítill, þá gæti verið, að hann hefði þau málin á stefnuskrá sinni, sem bæði hæstv. dómsmrh. og aðrir yrðu að beygja knje fyrir. Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri von, að jeg talaði af gremju, því að veröldin hefði ekki gefið mjer svo mikið meðhald. Jæja, jeg vanþakka veröldinni ekki neitt, en jeg verð að minna hæstv. dómsmrh. á það, að hann stendur nú á valdatindinum, og það gæti því verið, að veröldin ætti eftir að snúa annari hlið að honum. Það er nú svo í þessum heimi, að það, sem er mikils virði, sætir oft andstöðu í byrjun, en það, sem er lítils eða einskis virði, flytur stundum ofan á í bili. Og jeg get ekki stilt mig um að segja það, að það gæti farið svo fyrir hæstv. dómsmrh., ef hann heldur áfram á stjórnmálabraut sinni eins og af er, að honum kynni að finnast veröldin strjúka nokkuð kalt um vangann áður lyki.

Það er ánægjulegt að verða við og við var við þá drengskaparmenn hjer á Alþingi, sem ekki kæra sig um meiri hluta eða flokksaga, heldur fara aðeins eftir því, sem þeim finst rjett. Þetta flaug mjer í hug, þegar hæstv. fjmrh. talaði hjer í kvöld. Jeg er sannfærður um það, að orð hans muni hafa lítið bergmál innan Framsóknarflokksins. En jeg virði hann því meira fyrir það, að hann lítur ekki á það, heldur rjettlætið eitt. Og eftir þá hörðu árás, sem hæstv. dómsmrh. hefir hjer gert í kvöld á þá, sem muni samþykkja þessa kosningu, verð jeg að segja það, að mjer finst sú árás vera farin að ná nokkuð langt og snúast nokkuð hart gegn hans eigin flokki, þegar tveir einhverjir mætustu menn flokksins, eins og hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), hafa lýst því yfir, að þeir muni greiða atkvæði sitt með því að samþykkja hana.

Ef ónýta ætti þessa kosningu, á móti okkar eigin reglum og á móti þeim reglum, sem gilda um öll Norðurlönd, — hvaða ályktun má þá ætla, að dregin verði af því hjer og annarsstaðar? Jeg býst við, að það mundi þykja benda til þess, að þessi sýsla, sem hjer um ræðir, Norður-Ísafjarðarsýsla, væri með öllu gerspilt. En þegar það er athugað, annarsvegar, að opinberri rannsókn hefir aðeins verið beint gegn utankjörstaðaratkvæðum, og hinsvegar, að þótt þau öll sjeu talin Finni Jónssyni, þá hefir JAJ þó á annað hundrað atkvæði fram yfir Finn Jónsson, þá sje jeg ekki, að nokkrum manni þurfi að vera það vafamál, að það beri að greiða atkvæði með því, að þessi kosning verði tekin gild. Og jeg áliti það vansæmd fyrir Alþingi og þjóðina í heild sinni, ef öðruvísi færi.

Jeg álít það ósæmilega aðdróttun til kjósenda í Norður-Ísafjarðarsýslu, og jeg álít, að ekkert þing hafi leyfi til þess að setja slíkan spillingarstimpil á nokkurt kjördæmi, sem þetta háa Alþingi mundi setja á Norður-Ísafjarðarsýslu, ef það gerði þessa kosningu ógilda, þvert ofan í allar reglur og venjur hjer og annarsstaðar.

Sannarlega mun jeg greiða atkvæði með því, að kosningin sje tekin gild.