14.02.1928
Neðri deild: 22. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (423)

6. mál, laun embættismanna

Sigurður Eggerz:

Jeg held, að það sje óhyggilegt að sækja þetta mál svo fast, að till. fari ekki til nefndar. Þegar frv. stj. kom, voru engar breytingar á dýrtíðaruppbótinni fyrir hendi, svo að nefndin bjóst ekki við neinum kröfum í þá átt, að henni yrði breytt. En þegar brtt. er komin fram, finst mjer sjálfsagt, að málið fari aftur til nefndarinnar og að hún athugi, hvort ekki hafi fleiri embættismenn sjerstöðu en prestarnir. Jeg efast ekki um, að skórinn kreppir hart að embættismannastjettinni. Mjer er kunnugt um, að ýmsir embættismenn í bæjum lifa við örðugan hag og jeg álít sanngjarnt, að nefndin fái málið til að athuga það í heild, úr því að hæstv. stj. á annað borð fór að breyta dýrtíðarreglunum.

Jeg vil koma fram sem miðlunarmaður og skjóta því til hæstv. forsrh. og hæstv. forseta, að málið verði tekið út af dagskrá þangað til á morgun. Jeg vorkenni nefndinni ekkert að hafa þá lokið athugun sinni á málinu.